Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Greinar

Álverskönnun fyrir Alcoa

bakki

Ímyndarhernarður Alcoa heldur áfram sem aldrei fyrr. Eftir vaxandi andstöðu við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og frekari álversvæðingu landsins hefur allt verið sett í gang hjá Landsvirkjun og álbræðslurisunum Alcoa og Alcan í áróðurstríðinu. Þessi Gallupkönnun er eitt svar álrisanna. Hitt er heilsíðu- og opnuauglýsingar í blöðum og tímaritum, bæði á landsvísu sem og í héraðsfréttablöðum. Hverskonar stuðningur, við lögregluna, íþróttafélög, góðgerðarsamtök og menningarstarfsemi hefur verið aukin til muna því álrisarnir fundu að þeir voru að tapa.
Þetta ástand minnir óneytanlega á það hvernig stjórnendur kjarnorkuveranna í Þýskalandi brugðust við þegar raddir urðu háværari þar í landi fyrir 10 árum um að loka ætti þessum kjarnorkuverum. Auglýsingastofur voru ráðnar til að lofsama störfin sem voru unnin í karnorkuverunum og hvað þau væru örugg og menguðu lítið. Því var haldið fram að ekki væri hægt að framleiða rafmangn með öðrum hætti. Öllu var kostað til að sannfæra fólk um nauðsyn kjarnorkuveranna fyrir hagvöxtinn, náttúruna og þjóðina yfirleitt. En allt kom fyrir ekki, andstaðan við kjarnorkuverin óx og samþykkt var að loka þeim öllum, einu af öðru. Fjarmagnsvaldið hafði tapað ímyndarstríðinu. Og það sama mun gerast hér. Það er ný kynslóð að vaxa upp sem þráir ekki stóriðju og virkjanir til raforkuframleiðslu fyrir álver, heldur hefur skilning á verndun náttúruverðmæta og trú á okkur sjálfum til atvinnuuppbyggingar. Þetta er því kapphlaup álveranna eins og kjarnorkuveranna í Þýskalandi við tímann. Tíminn er að renna út fyrir álbræðslurnar.
Þassi könnun sem Alcoa lætur gera fyrir sig hlýtur einnig að valda þeim vonbrigðum. Því er ávalt haldið fram að engin andstaða sé við álver á Húsavík meðal fólks á staðnum en niðurstaðan er önnur, hátt í fimmti hver íbúi vill ekki þetta álver og það gull og grænu skóga sem lofað er í kjölfarið. Þetta fólk trúir á mátt Húsavíkur enda hefur uppbyggingin þar verið glæsileg t.d. í sambandi við ferðamennsku, hvalaskoðun og hvalasafn og náttúrutengda ferðaþjónustu. Meðal annars þar liggja möguleikarnir, heilsutengd ferðaþjónusta, hátækniiðnaður og náttúran. Þetta vita Alcoa og ímyndarsérfræðingarnir og því liggur á að koma álbræðslunni á koppinn áður en meirihlutinn áttar sig. En við munum sigra að lokum því fólk mun átta sig fyrr en síðar. Sem betur fer.


mbl.is Meirihluti íbúa á Norðurlandi hlynntur álveri á Bakka við Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar hugmyndir

matur

Það blómstrar allt af sköpunarkrafti og þrá eftir því að finna upp nýja hluti, nýjar leiðir til að fara og spennandi hugmyndir skjóta upp kollinum. Sumar óframkvæmanlegar en samt spennandi og aðra raunsæjar vel framkvæmanlegar strax í dag. Við getum hafist handa núna við að byggja upp þjóðfélag sem er víðsýnt og umburðarlynt og þar sem jafræði ríkir. Þar sem gamalt og nýtt mætist, fólk vinnur saman að því að gera betur, endurvinna, endurnýta og bæta. Þetta eru ekki einhverjir draumórar heldur raunveruleikinn, bara ef við viljum.

Annað
Hinn hliðin er svo að bíða eftir því að eitthvað gerist. Að aðrir komi með hugmyndir. Að álíta að ekkert sé nægilega gott og allt sé í raun ómögulegt. Ekkert sé nægilega stórt eða merkilegt til að geta “bjargað” okkur. Einhverjir aðrir verða að gera hlutina. Frumskógarlögmálið gildir, þeir hæfustu komast af og þeir sem geta ekki keppt eru útundan. Mismunun er sjálfsögð og bara eðlilegur hlutur.
Ef til vill er þetta mikil einföldun en einhvernvegin svona finnst mér íslenskt þjóðfélag stundum vera. Það er staðreynd að hér hefur mismunun aukist hröðum skrefum og þó að flestir hafi það ágætt og sumir mjög gott þá eru það allt of margir sem líða skort. Þannig á þetta ekki að þurfa að vera. Við erum lítil þjóð en rík og höfum vel efni á því að láta öllum líða vel. Við höfum vel efni á því að taka á móti fólki sem hefur það ekki eins gott og við og ættum að setja mun hærri upphæðir í þróunaraðstoð heldur en við gerum í dag. Við eigum að sýna frumkvæði, byggja á því sem við höfum fyrir en ekki bíða eftir því að aðrir komi “færandi hendi”.

Óþrjótandi möguleikar
Hér eru enn þá svo miklir möguleikar á því að gera hlutina vel og enn betur. Við eigum enn hreina náttúru og tært vatn, andrúmsloft sem er heilnæmt og orku sem endurnýjar sig. En á síðasta áratug höfum við gengið á þessi verðmæti. Við mengum meira, breytum náttúrunni og eyðileggjum hana.
Það væri óskandi að þeir sem stjórna landinu hugsuðu lengra en fjögur ár fram í tímann, fram að næstu kosningum og ekki lengra. Hvernig væri að líta hundrað ár fram í tímann? Þó að við verðum sennilega farin héðan, þá munu komandi kynslóðir njóta góðs af því. Ef við tökum okkur til og sköpuðum heim þar sem byggt er á hugviti með umhyggju fyrir verðmætum í huga en ekki græðgi. Værum við ekki sáttari við okkur sjálf og fortíðina? Og þetta er ekki eins flókið og það lítur út fyrir að vera. Auðvitað ekki auðveldasta leiðin en örugglega sú skynsamlegasta. Vilji er allt sem þarf, smá bjartsýni og jákvæðni og okkur mun takast það saman. Byrjum strax í dag og hættum ekki fyrr en markmiðinu er náð, að hafa látið eitthvað gott af okkur leiða og gert þennan heim aðeins betri, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur einnig fyrir alla aðra. Okkur tekst það ekki á morgun en enhvertíma mun sá dagur koma að við getum litið um öxl og verið stolt af því að hafa gert hlutina saman og gert þá betri.

Greinin birtist í Norðurstjörnunni, málgagni Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi 14.12.2006


Ferðamannaparadísin

Akureyri

Þessa grein skrifaði ég fyrir umræðuvettvanginn pollurinn.net og þar er hægt að koma með viðbrögð og gera athugasemdir við greinar.

Ferðamannaparadísin Akureyri, Eyjafjörður, Norðurland

Í síðustu viku var tilkynnt að IcelandExpress hefði ákveðið að hefja beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar næsta sumar. Þetta er afar ánægjuleg þróun og verður örugglega til þess að fleiri ferðamenn koma á Austur- og Norðurland beint, auk þess sem við íbúar á svæðinu eigum auðveldara og með að komast til Evrópu fyrir minni pening. Það væri hinsvegar óskandi að IcelandExpress hefði úthald til að halda áfram beinu flugi einnig yfir vetrartímann til Kaupmannahafnar frá Akureyri. Það tekur tíma að vinna slíku flugi sess þó að Akureyringar og Norðlendingar hafi tekið fljótt og vel við sér, þá þarf lengri tíma til að kynna flugið erlendis.

En vonandi hefur IcelandExpress þolinmæði og það áræði sem þarf til að fylgja þessu flugi eftir. Samgönguyfirvöld með ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarsson í farabroddi hafa hinsvegar dregið lappirnar í því að efla flugstöðvarnar á Egilsstöðum og Akureyri til að þessir vellir geti talist fullgildir millilandaflugvellir. Sturla hefur sagt að "300.000 manna þjóð hafi bara efni á einum millilandaflugvelli"  sem eru ótrúleg ummæli frá sjálfum samgönguráðherra landsins. Þessu viðhorfi yfirvalda þarf að breyta og vonandi skapast þverpólitískur vilji til að laga það sem laga þarf svo að getum boðið uppá þrjá fullgilda millilandaflugvelli. Ef ekki strax þá í kosningunum í vor. Akureyri, Eyjafjörður og Norðurland hefur nefninlega uppá svo margt að bjóða á sviði ferðamennsku og það allan ársins hring. Það eru til dæmis ekki margir staðir í Evrópu sem bjóða uppá flugvöll í 20 mínútna akstursfjarlægð frá stórkostlegu skíðasvæði.

Ásókn ferðamanna í óhefðbundnar ferðir utan álagstíma á eftir að aukast svo og þeirra sem koma til að leita að norðurljósum, kyrrð og myrkri sem er eitthvað sem margir vilja upplifa. Uppbygging ferðaþjónustu á Húsavík með hvalaskoðun og Hvalasafn í öndvegi hefur verið stórkostleg. Jarðböðin við Mývatn eru einstök á sínu sviði. Eyjafjörðurinn, Grímsey og Hrísey eru einnig perlur og það eru margir sem vilja koma og dvelja í alvöru sjávarþorpi eða á sveitabæ í faðmi fjalla. Veitingastaðir á heimsmælikvarða sem bjóða uppá úrvalsrétti úr hráefni úr heimabyggð eins og Friðrik V, Halastjarnan og Karólína eru staðir sem við getum státað af. Við höfum uppá svo margt að bjóða og sumt á enn eftir að uppgötva. Við eigum því framtíðina fyrir okkur á þessu sviði og möguleikarnir eru óþrjótandi. Það þarf bara smá velvilja, áræði og þolinmæði og þá getum við gert kratftaverk.


« Fyrri síða

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband