Leita í fréttum mbl.is

Skipting í bleikt og blátt er úrelt

423886AGott hjá Kollu að benda á að það sé dálítið einkennilegt að enn sé viðhaldið einhverri úreltri kynskiptingu strax við fæðingu barnanna okkar. Það er árið 2007 og auðvitað er fyrir löngu kominn tími til að afnema þessa skiptingu. Það væri líka mun hentugra að hafa börnin í hvítum göllum, lítið mál að breyta þessu á fæðingardeildinni. Það er eins og það sé verið að innprenta foreldrum að stelpur eigi að vera í bleiku og strákar í bláu. 

Ég spái því að (aðallega) karlkyns bloggarar fara hamförum hér í athugasemdum og sé að það eru reyndar nú þegar langar runur af skrifum um þessa frétt og flestar fyrirsagnirnar mjög í eina átt, að fordæma þessa fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur. 

Yngsta stúlkan okkar, hún Una Móeiður fæddist heima svo henni var bara skellt í ullargallann þar og Lóa Aðalheiður er einnig fædd heima, þá í Þýskalandi en Hugi fæddist hér á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég hélt reyndar að það væri fyrir löngu búið að afnema þessa skiptingu í bleikt og blátt en betra er seint en aldrei.


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skal ríða á vaðið!
Þið Kolbrún eruð ekki að ná hamfarabloggskrifunum. "Issjúið" er ekki bleikt/blátt áherslan, miklu frekar að það á að nýta tímann og talorkuna á Alþingi í þýðingameiri mál, finnst fólki.

Hver og einn getur svo sett sín börn í lobba, sem bara er gott mál. Ég skal skrifa lof um Kollu ef hún kemu með þá.lk. um klæðnað þingmanna! Þú mætir þá...með bleikt bindi!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 11:16

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Finnst þér ekki rétt að nýta tímann í annað, Hlynur? Og ég leyfi mér líka að spyrja, ef skipting eftir litum er úrelt, hver er þá ástæðan fyrir því? Úrelt merkir að eitthvað eigi ekki lengur við. Þá hlýtur það einhvern tíma að hafa átt við, eða hvað? Hvað hefur breyst, eða átti skiptingin aldrei við yfirleitt?

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2007 kl. 11:30

3 identicon

Þetta er bara fallegur siður og á að halda sér, svo mega femínistar alveg fara að slaka á í öfgunum... eða nei gerið það ekki því þið eruð að tala ykkur út í horn

DoctorE (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 11:39

4 Smámynd: arnar valgeirsson

það er nú gaman að sjá hvað það hrærist alltaf upp í pólítískum andstæðingum, hlynur, ef þú setur eitthvað inn. ættir kannski að tala fyrir einkavæðingunni, þá yrðu menn átómatískt ósammála....

en ég sé reyndar ekkert að því að hafa bleikt og blátt, eða litamismun á kynjum, jafnvel á fæðingadeildinni. það er nú bara þannig að strákar og stelpur eru ólík, svona í langflestum tilfellum, alveg bara genetískt. það eru smá pollar sem varla geta skriðið sem eru dolfallnir yfir action man og bílum. og aðeins eldri sem ráðast á sverð og byssur en stelpurnar ljóma yfir barbí.

en það var líka gaman að sjá hvað menn fóru á hliðina yfir síðustu færslu, femínisminn ekki alveg að gera sig hjá sumum. enda hafa menn fordóma fyrir því sem þeir eru hræddir við.

 og gísli: af hverju býður þú þig ekki fram drengur, fremur en að segja fólki hvað það á að tala um ha???

arnar valgeirsson, 28.11.2007 kl. 11:51

5 identicon

Arnar: Það hefur fram að þessu verið hlutverk mitt að smella svipunni á frambjóðendur. Aldrei að vita hvað ég geri á næstunni!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 12:10

6 Smámynd: Hlynur Hallsson

Ég held að það eigi ekki að þurfa að verja löngum tíma í að ræða þessi mál á Alþingi og vonandi verður fyrirspurninni svarað fljótt og vel. Það er rétt að þessi litaskipting hefur sennilega aldrei átt við og hún er nú örugglega ekki mjög gömul, en það hafa alltaf komið bakslög í jafnréttisbaráttuna en þá er bara að horfa fram á við og breyta til hins betra.

Ef það eru öfgar að tala fyrir jafnri stöðu kynjanna eða jafnrétti fyrir fólk yfirleitt þá er mér sama um að vera kallaður öfgamaður, því ég vil halda áfram að berjast fyrir jafnrétti.

Ég held að þetta litaval hafi ekkert með gen að gera Arnar :)

Ég bendi svo á frábæra grein Drífu Snædal í Fréttablaðinu í dag sem tengist þessu. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 12:12

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hugsa að það sé alveg rétt að þessi blessaða litaskipting sé ekki mjög gömul. En ég get bara alls ekki skilið hvernig í ósköpunum þetta mál kemur jafnrétti við. Þú getur kannski útskýrt það, Hlynur?

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2007 kl. 12:18

8 identicon

Af hverju er það úrelt? eru börn kannski hætt að fæðast sem strákar og stelpur, nú fæðast kannski bara börn.

Annars hefur þetta einnig hagkvæma hlið á sér, hver kannast ekki við það að fara í heimsókn, og muna ekki hvort að barnið sé strákur eða stelpa, þá getur nú verið gott að hafa litina til að hjálpa manni, annars gæti maður átt þá hættu á að móðga foreldrana :)

En þessi barátta og öfga feministar, er lööngu komið útaf jafnréttisbrautinni, þetta snýst núna bara um kvenréttindi. Segðu mér svo annað. Hvað kemur það jafnrétti við, að klæða börnin í hvítan lit?

mbk

Óli

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 12:56

9 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Er ekki til siðs út um allan heim að klæða drengi í blátt og stelpur í bleikt þegar þau fæðast?  

Jafnrétti verður vonandi aldrei úrelt og á við bæði kynin.

Marinó Már Marinósson, 28.11.2007 kl. 13:29

10 Smámynd: Hlynur Hallsson

Ég get reynt að útskýra hér í stuttu máli hvað bleikt fyrir stelpur og blátt fyrir stráka kemur jafnrétti við.

Það að ala á fyrirfram ákveðnum hugmyndum um að bleikt sé stelpulitur og blátt strákalitur og það strax við fæðingu stuðlar að þessar skiptingu: Stelpur eru stelpur og eiga þess vegna að sætt sig við að fá lægri laun en karlar, komast ekki að í stjórnum fyrirtækja, leika sér með "stelpudót" og svo framvegis. Strákarnir eru aldir upp við að strákar eigi að vera svona og svona, leika sér með "strákadótið", finnast það augljóst að fá hærri laun og svo framvegis.

Fyrir mér er þetta frekar augljóst en fyrir öðrum sem eru bara orðnir svo vanir öllum þessum staðalímyndum er þetta bara venjulegt og best að hafa það svona áfram, alltaf: strákar í bláu og stelpur í bleiku. Hærri laun og lægri. Nú er þetta ekki eitthvað sem börnin velja og ekki einu sinni foreldrarnir, þetta er bara svona. Og svo tekur það næsta við, og það næsta og eftir sem áður erum við stödd í sömu hjólförunum. Þessu þarf að breyta, ef við ætlum að koma á jafnrétti, einnig svona "sjálfsögðum" og einföldum hlutum. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 13:31

11 identicon

Ég get sagt þér það að ég var í bláum fötum þegar ég var lítill, en það var ekki til að stimpla einhverri staðalímynd inn, ég lék mér við stelpur, og lék mér þá í barbí og öðrum "stelpu" hlutum.  Fyrir mér skiptir það ekki máli hvaða leikföng krakkar eru að leika sér með, eða hvernig litur er á fötunum þeirra, þau eru stelpur og strákar, og eðlilega eru áhugamálin öðruvísi, og það tengist ekki jafnrétti.

Það er bara ekki samansem merki við það að vera kona og fá lág laun og vera karl og fá há. Það snýst allt um hvað einstaklingurinn sættir sig við. Ef að Sigga er sátt við sín laun og Siggi er sáttur við sín, hvaða máli skiptir það þá hvort þeirra sé með meiri laun, það eina sem skiptir máli í því er hæfni einstaklinga, ekki kyn.

mbk

Óli

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 13:41

12 Smámynd: Ransu

Ef málið snýst um að skipta einhverju út að þá tel ég mikilvægara að skipta út bómullardraslinu fyrir silki, þannig að nýfædd börnin geti klæðst einhverju sem fellur vel að húð þeirra og heldur inni líkamshitanum í stað svita (sem þá kælir þau). 

Sennilega mundi þetta bleika og bláa þá detta út um leið, því ef við  hugsum um þarfir barnanna að þá eru þau hvort sem er litblind þessa daga sem þau eru á fæðingardeildinni.  Þau hafa aftur á móti afar næma tilfinningu fyrir því efni sem liggur að húð þeirra.

Ransu, 28.11.2007 kl. 13:45

13 identicon

Ofboðslega hefur þú hugsa þetta langt fyrst bleikt og blátt er orðinn samnefnari fyrir lægri launum og að konur komist ekki í stjórnunarstöður.

Konur eiga að vera stoltar að vera konur og faðma sinn kvennleika eins og við föðmum okkar karlmennsku. Þetta er bullmál sem sýnir best að það er greinilega vöntun á alvöru málum hjá sumum flokkum.

Gissur Örn (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 13:53

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þið feministar eruð ótrúleg!

Er bleikt litur misréttis, lágra launa, kúgunar?

Er blátt litur forréttinda, hárra launa, drottnunar?

Ég held að þessi litaskipting geti verið ákveðin hagræðing á fæðingardeildum þar sem mörg börn eru saman komin. Mín vegna mættu þessir litir vera grænt og brúnt. Ah... nei, þá fengi annar hvor þessara lita á sig stimpil misréttis, lágra launa og kúgunar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.11.2007 kl. 14:14

15 Smámynd: Finnur Ólafsson Thorlacius

Hvaða bull er þetta, eins og einhver benti á þá er þetta fín hagræðing á fæðingadeildinni, ef hjúkkan veit að hún er að sækja strák í hópinn þá getur hún sleppt því að kíkja á bleiku börnin, og svo öfugt.

En fyrst við erum komin í þessa umræðu, væri þá ekki fínt að hafa "dress-code" á Alþingi, allir þingmenn/konur í dragt, já eða blá jakkaföt, bleika skyrtu og rautt bindi og höfum bindið gult um páska....

Finnur Ólafsson Thorlacius, 28.11.2007 kl. 15:08

16 Smámynd: Hlynur Hallsson

Einmitt það skiptir ekki máli hvaða litir eru notaðir til að aðskilja hópa. Það er skiptingin sem er málið. Mér finnst bleikur afar fallegur litur og blár einnig.

Ég held að það sé ekki skortur á góðum málum til að tala fyrir. Vinstri græn eru reyndar langduglegust að koma með mál inn á þing og þau eru að vinna vinnuna sína af krafti. Það er hinsvegar alltaf spurning hvað vekur athygli fjölmiðla. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 15:08

17 Smámynd: Hlynur Hallsson

Góður punktur Jón Hnefill.

Rökin um að það sé fljótlegra fyrir starfsmenn að finna börnin eftir kynjalitum er hinsvegar í besta falli brosleg :) 

Bestu kveðjur, 

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 15:12

18 Smámynd: Finnur Ólafsson Thorlacius

æji...

þegar fólk er með svona blinda einstefnuhugsun er lítið hægt að rökræða við það........

Finnur Ólafsson Thorlacius, 28.11.2007 kl. 15:15

19 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Hlynur ertu að segja fyrst að ég klæði dóttur mína í bleiku þá

"Það að ala á fyrirfram ákveðnum hugmyndum um að bleikt sé stelpulitur og blátt strákalitur og það strax við fæðingu stuðlar að þessar skiptingu: Stelpur eru stelpur og eiga þess vegna að sætt sig við að fá lægri laun en karlar, komast ekki að í stjórnum fyrirtækja, leika sér með "stelpudót" og svo framvegis. Strákarnir eru aldir upp við að strákar eigi að vera svona og svona, leika sér með "strákadótið", finnast það augljóst að fá hærri laun og svo framvegis."    ?

Er ekki í lagi með þig ?   Þetta er ekkert annað en fordómar hjá þér af allra verstu sort , og mikil óvirðing gagnvart kvennfólki,

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 28.11.2007 kl. 15:52

20 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Litaaðgreining kynja og hvaða litir eru notaðir. Þarf að vera litaaðgreining? Hvers vegna ætti að þurfa að vera litaaðgreining?

Ef það þarf að vera litaaðgreining er það einfaldlega ein af ákaflega mörgum aðgerðum sem hægt er að vinna að til að andæfa staðalímyndum og misrétti byggðu á þeim að nota aðra liti. Dökkblá jakkaföt eru litur valds; bleikt er ekki litur valds - nema hjá femínistum. Ljósbláu og ljósbleiku fötin sem börnin á myndinni eru klædd í: verða þessi bláu drengjaföt að valdi? Ekki hjá öllum drengjum, svo mikið er víst. Og sumar stúlkur komast úr því bleika og klæða sig í föt lík fötum karla. Gott mál - en við karlarnir notum í mesta lagi bleika skyrtu eða bindi. Reyndar er bleikt óhentugur litur til að leika sér úti; varla eru stúlkur í leikskólum klæddar í bleikt til að þær leiki sér síður úti.

Það er líka merkilegur þessi fítonn út í femínista: Hverjum ógna tillögur af þessum toga? Ekki mér.

Er þetta mikilvægt mál eða lítilvægt? Þegar einhver þykist þess umkominn að meta málefni sem öðrum finnast mikilvæg vera lítilvæg er illa komið fyrir lýðræðislegri umræðu. Sé nú reyndar að sumir andmælendur brosa breitt að þessu og skemmta sér. Ef málið er svona lítilvægt held ég fólk hefði átt að þegja það í hel. Þetta kemur við margt fólk, held ég; ég sé það á skrifunum. Vonandi hreyfir tillagan við umhugsun um mátt staðalímynda.

Það er ljóst að það verður ekki leiðinlegt í þingsölum þegar þetta mál verður rætt því að fátt er nú skemmtilegra umræðuefni en klæðaburður fólks. A.m.k þykja dæmisögur og brandarar tengdir bleika litnum og þeim bláa ekki leiðinlegar þegar maður minnist á það í kynjafræðifyrirlestrum.

fyrirgefðu rausið, Hlynur

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.11.2007 kl. 16:20

21 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Gríðarlega illa ígrundaðar pælingar að mínu mati, Hlynur !

Geturðu sagt mér afhverju litur Feministafélagsins er bleikur ?

Er það af því að meirihlutinn er konur, og þetta er í prinsipinu "kvennasamtök" og VELJA þar afleiðandi sjálfar að hafa bleikan sem SINN lit.

Afhverju er ekki einhver "neutral" litur, litur félagsins ?   Brúnn, grár, eða bara hvað sem er.

Ef þú getur svarað þessu með skynsömum hætti, "þá ertu skarpari en skólakrakki" !

Ingólfur Þór Guðmundsson, 28.11.2007 kl. 16:40

22 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég sé ekki betur en lógikin sé þessi:

1. Mismunur kynjanna grundvallast á staðalímyndum, s.s. bleikt vs. blátt.

2. Misrétti kynjanna grundvallast á mismun kynjanna.

Ergo: Með því að útrýma því sem ýtir undir staðalímyndir dregur úr misrétti kynjanna.

Vandinn við þessa röksemdafærslu er tvíþættur. Í fyrsta lagi er mismunur kynjanna raunverulegur. Hann grundvallast að öllum líkindum á líffræðilegum þáttum sem við fáum engu ráðið um, ekki staðalímyndum, sem eru að öllum líkindum miklu frekar afleiðing en orsök. Við gætum útrýmt öllum staðalímyndum en það þyrfti engu að breyta um mismuninn.

Í öðru lagi er ekki hægt að leggja að jöfnu mismun og misrétti.

Báðar forsendurnar eru því rangar og niðurstaðan þar með líka.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2007 kl. 16:51

23 Smámynd: Einar Jón

Mér finnst eitt vanta í þessa umræðu bæði um ráð"herra"-nafnið og þettar litapælingar. Það er spurningin "til hvers?".

Hverju erum við bættari með það að vita hvenær þessi hefð myndaðist?
Hefur einhver spurt hjúkrunarfræðinga á fæðingardeild hvað þeim finnst um þessa liti?
Hefur einhver spurt mæðurnar hvað þeim finnst? Eða ungabörnin?
Hefur Jón Hnefill rétt fyrir sér með vinnusparnaðinn?
Hverju erum við bættari með að breyta þessu?

Og hvað í ósköpunum hefur þetta að gera inn á þing? 

Einar Jón, 28.11.2007 kl. 16:58

24 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ég er ekki viss um að lógíkin sé svo einföld sem þú nefnir, Þorsteinn, eða margur femínisti muni halda fram forsendu þinni nr 1. Aftur á móti heyri ég oft svona rugling. Eða hvað er annars mismunur kynja? Hvað er raunverulegur mismunur? Er það sá líffræðilegi eða félagslegi munur sem við í samfélaginu - orðræðan í samfélaginu - hefur gefið merkingu?

Börn fæðast ekki í bleiku eða bláu heldur eru þetta ímyndir sem fólk hefur búið sér til. Andóf gegn því að ákveðnir litir séu stelpulitir og aðrir strákalitir er barátta um merkingu. Dugar hún í baráttu gegn launa- og valdamisrétti? Ég barasta veit það ekki - og gæti þess vegna tekið undir að útrýming staðalímynda breytir ekki mismun, þ.e. ef mismunur er "raunverulegur" en liggur ekki í þessari merkingu sem hefur orðið til á ákaflega ólógískan hátt. En þetta undirstrikar að merkingin verður til í venjum okkar. Að merkingin er ekki lógísk. (Kannski er samt einhver lógísk skýring á bleiku-bláu! hmm...)

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.11.2007 kl. 17:06

25 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta fer að verða afar áhugavert. "Nöldrarinn" ruglar samt aðeins því það er þingkona Samfylkingarinnar sem leggur fram málið um ný heiti í stað ráðherra. Svo vil ég biðja fólk að skrifa undir fullu nafni hér á athugasemdirnar hjá mér.

Áhugaverðar pælingar hjá Þorsteini og ég held einmitt að hluti af ójafnrétti stafi af þessum staðalímyndum en grundvallist ekki á þeim.

Takk fyrri innleggið Ingólfur, það vissulega rannsóknarefni af hverju sumir tryllast þegar minnst er á femínisma því femínismi eru jú aðeins barátta fyrir jafnrétti. 

Einstefnan er einhverstaðar annarsstaðar en hér Finnur og ég vona að þú komist út úr botngötunni:)

Bleikt er fallegt fyrir alla, konur og kalla!

Bestu kveðjur, 

Hlynur Hallsson, 28.11.2007 kl. 17:11

26 Smámynd: Gulli

Þetta er nú það allra vitlausasta! Eigum við kannski líka að útrýma karl- og kvenmannsnöfnum og karl- og kvenmannsfötum?  Og svo seinna meir ungbarna-, krakka-, unglinga- og fullorðinsfötum?  Og jafnvel seinna meir vinnufötum, hversdagsfötum og sparifötum?

Eftir sitjum við læst inni í klefum eitt og eitt, í okkar hvítu samfestingum, með strikamerki tattúerað á ennið á okkur
 og "vinnum" við það að hjóla á rafalhjóli 8 tíma á dag til að framleiða rafmagn fyrir ljósið í loftinu á klefanum okkar.  Eftir þessa 8 tíma er okkur úthlutað ákveðið löngum tíma sem við megum liggja í rúmi, sitja í sófa eða við borð.  Að sjálfsögðu verður okkur gefinn skrefakvóti, sem takmarkar þau skref sem við getum gengið inni í klefanum, og svo sérstaklega útpældur kvóti sem takmarkar hversu oft við megum depla augunum á hverjum degi.

 Allt þetta verður að sjálfsögðu til þess að ekki verður mögulegt að skipta fólki eftir kynjum og gæta þess að fullu jafnrétti sé framfylgt.

Gulli, 28.11.2007 kl. 17:12

27 Smámynd: Yngvi Högnason

Málið snýst ekki um liti eða jafnrétti,feminisma eða því um líkt. Það snýst um það hvort við eigum að vera að borga fólki stórkaup á Alþingi fyrir að bulla. Það er ekkert skrýtið að fólk skuli ekki bera virðingu fyrir alþingismönnum þegar hugðarefni eru ekki stærri  en þetta. 

Yngvi Högnason, 28.11.2007 kl. 17:15

28 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

En velsældin í þjóðfélaginu hlýtur að vera gríðarlega mikið, fyrst að þingmenn flokks sem gefur sig út fyrir að vera "vinur litla mannsins", berjast gegn fátækt, og fleiri metnaðarfull og þörf mál.

Getur leyft sér að sólunda tíma Alþingis, og biðlund "litla mannsins" , með svona tillögum sem skipta akkúrat engu  máli fyrir þjóðfélagið. Hvað skiptir það öryrkja máli, hvort teppið á vöggudeildinni sé bleikt, blátt eða svart, ef að hann getur ekki átt mat út mánuðinn.

Þetta er að verða samnefnari fyrir þessa tvo vinstri flokka í landinu í dag, "jafnaðarmenn" og "velferðar-eitthvað" , er bara ekki í gildi lengur.

Ber þá hæst þetta teppa/ungbarnafatamál og "heiti ráðherra málið".

Flottræfilsháttur í besta falli, enda vinstri menn á Íslandi, líklega komnir manna lengst frá þessum "gömlu" vinstri gildum um jöfnuð almennings.

Hvenær ætla vinstri grænir að fara að berjast fyrir einhverju sem bætir þjóðfélagið og skiptir máli.

Er debat um það hvernig sængurföt eiga að vera á litinn, mikilvægasta málið í dag ?

Ef svo er, þá hefur okkur Sjálfstæðismönnum ágætlega til með stjórnun landsins, og ekkert undan því að kvarta !

Ingólfur Þór Guðmundsson, 28.11.2007 kl. 17:25

29 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Kommon!!!!

Þið eruð að grínast! Mér finnst nú verið að teygja sig ansi langt með því að spá í litina á ungbarnafötunum á fæðingadeildinni.

Ójöfnuður kynjanna hefur ekkert með bleikan, bláan eða fjólugráan lit að gera!! Eruði að tapa ykkur!

Ef það er eitthvað sem innprentast í börnin og muninn á þeim þá er það að stelpur pissa sitjandi en strákar standandi! Eigum við að breyta því?

Í guðs bænum farið að hunskast til að beita ykkur fyrir málum sem skipta máli!! Afnema launamun, tryggja konum jöfn sóknarfæri á vinnumarkaðnum og jöfnuð í dómskerfinu!!!

Heiða B. Heiðars, 28.11.2007 kl. 17:29

30 Smámynd: Heiða B. Heiðars

ps Hlynur.. hvernig hentar hvítt miklu betur

OG er þetta fólk þarna á hinu háa Alþingi ekkert í takt við samfélagið? Hvað heldur þetta lið eiginlega að lífsbarátta fólks gangi út á dags daglega?
Það er fullt af fólki í þessu auma velferðarþjóðfélagi sem veltir fyrir sér krónum og þarf svo að horfa upp á þingmenn velta fyrir sér litavali á bómullargöllum á ungabörn!!

Heiða B. Heiðars, 28.11.2007 kl. 17:33

31 Smámynd: Sigurður Heiðar Jónsson

Þetta er bráðskemmtileg umræða og þakkarvert að þingmenn skuli nú hafa verðugt verkefni að takast á við. Húrra fyrir Kolbrúnu. Það er auðvitað einfaldasta lausnin á vöggustofuvandanum að klæða öll börnin í bleikt, láta einfaldlega bláu fötin ganga úr sér á nokkrum mánuðum og kaupa bleik föt í staðin. Þá færu engin verðmæti til spillis. Þetta væri líka rökrétt í ljósi þess að engir hafa hafið bleikt til vegs og virðingar af öðrum eins ákafa og konur, einkum femínistar, undanfarið. Karlar klæðast í bleikt til að styðja konur og eru næstum alveg hættir að sjást bláklæddir – enda er það óræk sönnun um karlrembu. Svo mætti fylgja þessu eftir með því að leggja niður buxur og kjóla, allir klæddust þá serkjum. Þeir sem ekki vilja ganga í serk, eru karlrembur. Hefja mætti þessa þróunarvinnu á vöggustofum og hætta ekki fyrr en allir alþingismenn eru komnir í serk. Það kæmi auðvitað í veg fyrir að við kjósendur tækjum kynbundna afstöðu til ykkar Kolbrúnar, og gæti einnig komið sér vel í stéttarbaráttunni. Þess yrði þá krafist öðru fremur í kjarasamningum að serkklæddir gangi ávalt fyrir og verði skipað í hærri launaflokk en hinum, sem þráast við og vilja ekki ganga í serk. Þannig yrði kynbundnum kjaramun útrýmt og í staði kæmi klæðabundið misrétti. Það væri miklu sanngjarnara og auðveldara viðfangs, því allir geta jú klæðst í serk og láglaunafólk gæti því engu kennt um nema sjálfu sér. Ég fæ ekki betur séð en að vöggustofumisréttið geti leitt til góðs, þegar jafn ágætur þingmaður og Kolbrún tekur þetta mál upp af þeirri einurð og festu sem einkennir hana. Og vonandi tekur ráðherra málið fyrir af alvöru og lætur fara fram vandaða rannsókn á því hver sé uppruni þessarar ósvinnu sem tröllríður vöggustofum landsins. Hér má ekkert til spara, það er afar brýnt að þetta mál fái forgang.

Sigurður Heiðar Jónsson, 28.11.2007 kl. 17:35

32 Smámynd: Berglind Guðmundsdóttir

Sæll Hlynur, kalla þig nokkuð brattan að varpa þessu hérna fram. Eitt sem ég skil ekki....þú segir: "að það skiptir ekki máli hvaða litir eru notaðir til að aðskilja hópa. Það er skiptingin sem er málið."

Þið í VG notið einmitt græna litinn til að gefa vísbendingu um að þið séuð græn. Þið notið líka rauða litinn til að gefa vísbendingu um að þið séuð félagshyggjuhópur. Kommúnistar nota rauðan lit, feministar bleikan lit, frjálshyggjan notar bláan lit, samkynhneigðir eru með liti til að gera sig sýnileg (röndótti fáninn) Ert þetta ekki bara allt eins og það á að vera?? Ég skil ekki af hverju stelpur mega ekki vera í bleiku og strákar í bláu........það er sama vísbendingin og ég nefndi hérna áðan. Þetta hefur ekkert með baráttu fyrir jafnrétti að gera. Ég styð baráttuna en bleiki liturinn er okkar stelpnanna og verður alltaf og mér finnt útúrdúr að umræðan skuli vera komin á þennan stað.

Berglind Guðmundsdóttir, 28.11.2007 kl. 17:42

33 identicon

Meira ruglið, femínistar... sheesh
Allir í eins fötum frá fæðingu, hvergi má bera á neinu, bráðum má ekki sjást móta fyrir brjóstum á konum úti á götu, allir verða í kartöflupokum í sundi

DoctorE (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 17:44

34 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég get bara ekki orða bundist.... Mér hefur oft fundist áhugavert það sem Kolbrún tekur fyrir, en að eyða tíma í mál sem þetta.... sorrý á meðan hluti landsmanna getur ekki framfleytt sér á skitnum örorkubótum eða lægstu launum, hvað þá keypt sér þak yfir höfuðið, greitt af lánum og svo framvegis...... ég skil pointið hjá henni en common þetta er ekki það sem hvílir þungt á almenningi. Það er örugglega ekki hægt að finna eina manneskju í hópi öryrkja eða láglauna sem hugsar með sér, vá hvað það er gott að það eigi loksins að breyta litum á klæðnaði nýbura....

 Svo er hægt að leysa þetta með því að láta foreldra leggja til klæðnað á nýbura, þá er hægt að velja alla liti heims OG munstur.......

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 28.11.2007 kl. 17:47

35 Smámynd: Arnþór Gíslason

Ég get ekki séð hvernig siðir og hefðir geta orðið úreltar. Einnig get ég ekki skilið af hverju það skuli vera nauðsynlegt að klæða þessa nýfæddu íslendinga í kuldalega liti. Það myndi svo sannarlega ekki hjálpa neinum í baráttunni um jafnrétti. Bleiki liturinn táknar jú kvenkynið og blár karlkynið en þarf það að flækjast eitthvað meira en það?

Ég held að það sé verið að rýna of djúpt í þetta mál og að tengja þessa 2 liti við launamismun kynjanna sé óskaplega langsótt.

Hugsið um það..

Kveðjur, Arnþór.

Arnþór Gíslason, 28.11.2007 kl. 17:53

36 identicon

Hlynur...þessi umræða er að verða að Kalla Tomm! Ég held að það sem fólk sé að segja (margir í mörgum línum) að alþingismenn eigi að snúa sér að öðru þarfara svo sem kjörum fólksins í landinu. Skilaðu kveðju til Dillu og gefðu henni góð ráð varðandi klæðaburð við Austurvöll!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 18:00

37 Smámynd: Hilmar Einarsson

Það ein af viti sem Hlynur hefur sakt í bloggrununni hér að ofan er: "Stelpur eru stelpur"  en hann gleymir að nefna líka að strákar eru strákar.  Ég held að Guði almáttugi detti ekki einu sinni í hug að breyta þessum staðreyndum.

Sigurður Heiðar kemur síðan með ákaflega athyglisvert innlegg. "Karlar klæðast í bleikt til að styðja konur og eru næstum alveg hættir að sjást bláklæddir – enda er það óræk sönnun um karlrembu. Svo mætti fylgja þessu eftir með því að leggja niður buxur og kjóla, allir klæddust þá serkjum."    Er það svona ráðstjórnar eða Islamskur draumur sem ykkur Kolbrúnu dreymir um?

Sjá nánar : Veruleikafirring "feminísks" þankagangs

Hilmar Einarsson, 28.11.2007 kl. 18:13

38 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Held það væri nær að afnema kvaðir á klæðnaði þingmanna. Sumir njóta sín vel í jakkafötum og með bindi. Aðrir ekki. Sem dæmi; til að fá mig í svoleiðis múnderingu, þarf einhver að deyja fyrst.

Brjánn Guðjónsson, 28.11.2007 kl. 18:35

39 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Já, Brjánn, Hlynur gafst upp og fór í jakkaföt. En mikið ótrúlega eru þau flott fötin sem hann fékk til að nota í þinginu, hann kemur stundum í þeim á myndlistarsýningar  (Þau eru svört en ekki bleik - ja kannski fórstu líka í þingið, Hlynur, í bleiku.) 

Einhvern heyrði ég um stúdíu, veit ekki hvort hún var fræðileg rannsókn eða einhvers konar annars konar athugun, þess efnis að börn hefðu verið klædd í "öfugan" lit (miðað við hefðina) og uppskorið viðmót ætlað hinu kyninu: blíðu- og dúlluhót til handa stúlkunum, "þetta er nú hraustur drengur" fyrir drengina. Það er full þörf á að velta fyrir sér staðalímyndum sem drengir og stúlkur mótast inn í allt frá fæðingu. "Rétti" tíminn kemur aldrei sjálfur um það; rauðsokkurnar höfðu jákvæð áhrif á samfélagið af því að þær biðu ekki eftir leyfi.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.11.2007 kl. 19:10

40 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Alþingi á alls ekki að skipta sér af klæðnaði ungabarna á fæðingardeildum. Starfsfólk fæðingadeildanna er fullfært að leysa slík smámál í samráði fyrir foreldra. Ef foreldrar eru ósóttir við litin er ekkert mál fyrir Þau að biðja starfsfólkið að færa blessuð börnin í hvítt, gult eða annan lit.

Benedikt Halldórsson, 28.11.2007 kl. 19:51

41 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Klæðum suma stráka í bleikt og sumar stelpur í blátt ekki bara allar stelpur í bleikt og alla stráka í blátt.  Eru það ekki öfgar að klæða alla stráka í blátt og allar stelpur í bleikt.  Það er staðreynd að það er komið öðruvísi fram við stráka heldur en stelpur strax frá fæðingu.  Mótunin byrjar strax.  Fólki líkar miklu betur við brosmildar hlýlegar konur heldur en ákveðnar og framsæknar konur , þær eru taldar frekar.  Aftur á móti ákveðnir karlar og framsæknir, þeir eru duglegir og klárir alls ekki frekir.  Þrætir einhver fyrir þetta?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 28.11.2007 kl. 20:39

42 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Margt í þessari umræðu er að verða vitrænt (loksins!) og ýmis skemmtileg og áhugaverð sjónarmið farin að koma fram.

Í ljósi þess held ég að ekki sé réttmætt að gagnrýna Kolbrúnu, Steinunni og fleiri fyrir að sóa tíma með tillöguflutningi sínum. Hafi ég einhvern tíma sagt það fell ég hér með frá því. Umræðan er nefnilega mjög af hinu góða og það er sama hvaðan gott kemur.

Er ekki kominn tími til að blása til ráðstefnu um þessi mál, þar sem femínismi og jafnréttismál verði rædd á breiðum grundvelli og af skynsamlegu viti?

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2007 kl. 21:35

43 Smámynd: Ólafur Jónsson

Ég spyr nú bara fyrst blátt er strákalitur sem þarf að breyta og bleikt er stelpulitur. Af hverju er einkennis litur femínista bleikur, þær gefa bleika steina, lýsa hús bleik og hafa bleika daga, þær klæða femínstakallana í bleikt. Miðað við það sem höfundur bloggs hérna segir ætti þetta frekar allt að vera blátt, til að stoppa staðalímyndina. 

Ætli þessi málflutningur verði ekki túlkaður sem aðför að heilaga sannleika sem er femínsismi og ekki er hægt að sjá nema maður sé femínisti. 

Ólafur Jónsson, 28.11.2007 kl. 21:43

44 Smámynd: Ásgeir R. Birgisson

Ég er jafnréttissinni, ekki feministi þar er stór munur þar á. Hvort börn eru kyngreind með lit, skiptir mig engu máli. Það gæti hjálpað jú foreldrum að finna barnið sitt án þess að taka bleinuna af ef það er ekki annars vel merkt. En jú við skulum merkja börn með hvítum eða gráum lit. Hvað breytist? Ég held að það sé ekki verið að horfa á þetta rétt, orsök og afleiðing. Orsökin á slöku jafnrétti kynjana þarf að taka á ekki afleiðingunni eins og t.d. að merkja börn með litum eða sjá hlæjandi, hlýja konu og hugsa "Heimavinnandi Húsmóðir". Því þegar við höfum lokst náð því að fólk eru einstaklingar en ekki gangandi kynfæri getum við öll hlegið að því þegar börnin voru sett í hólf "ljósblátt" og hólf "bleikt". Þangað til vil ég frekar heyra frá VG hvað þeir vilja gera í sambandi við orsökin en ekki afleiðinguna.

p.s. Þórdís ég skal þræta. Því ég þoli ekki frekt fólk, sama af hvaða kyninu það er. Allt geturðu gert í lífinu með bros á vör og með smá hlýju. Ég vona að fólk taki undir og segji að hægt sé að stunda viðskpti eða hvað sem er með hlýju eða frekju - því það er jafnrétti. 

Ásgeir R. Birgisson, 28.11.2007 kl. 21:50

45 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Bíddu, er það ekki rétt munað hjá mér að samtök femínista noti bleika litinn óspart í starfsemi sinni...?

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.11.2007 kl. 22:01

46 Smámynd: K Zeta

Þvílík Lúxusvandamál og þvílík sóun á dýrmætum tíma Alþingis og dýrum þjóðkjörnum alþingismönnum.  Kolbrún og hennar veruleika firrti flokkur er ekki vandamálið heldur fólkið sem kýs þau á alþingi.  Þar held ég að vandamálið liggi.

K Zeta, 28.11.2007 kl. 23:38

47 Smámynd: Benedikt Halldórsson

En ef bleiki liturinn er úreltur á nýfæddum stúlkubörnum er hann þá ekki sama skapi úreltur sem litur femínista? Ætlar Alþingi kannski að mælast til þess að Femínistar hætti að nota bleika litinn?

Benedikt Halldórsson, 29.11.2007 kl. 00:43

48 identicon

Bleikir steinar eru úreltir..

DoctorE (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 10:01

49 Smámynd: hobby

Ég á tvö börn og í bæði skiptin þá sér maður sjálfur um að klæða barnið í fötin á Landspítalanum - og í boði eru bleik og blá föt og ræð ég sjálf hvort ég klæði barnið mitt í. Fyrir utan það að maður kemur líka sjálfur með föt með sér til að taka barnið heim ... enginn segir að ég megi ekki klæða barnið mitt í þau fremur en í smörtu "Eign þvottahúss spítalanna" fötin.

Síðan fer ég heim og ræð áfram hvernig ég klæði barnið mitt.

Eru ekki þarfari mál sem þarf að ræða heldur en þetta.

hobby, 29.11.2007 kl. 11:09

50 Smámynd: Hlynur Hallsson

Ég tek undir með Þorsteini að það er full ástæða til að ræða þessi mál í víðara samhengi og kominn tími til. Það er allavega merkilegt hvað margir þurfa að tjá sig um þessi mál hér. Vil samt enn og aftur biðja fólk vinsamlegast að gera það undir fullu nafni.

Drífa Snædal var frábær í Kastljósinu í gær og Egill var full æstur þarna í lokin og gleymdi því að hann var ekki stjórnandi þáttarins. Helgi Seljan átti í fullu fangi með að stoppa manninn af :) 

Ég get tekið undir það að vissulega eru mörg brýnni mál sem þarf að ræða en samt merkilegt hvað margir sóa tímanum í að velta sér uppúr málum sem þeir hafa ekki áhuga á.

Bestu kveðjur, 

Hlynur Hallsson, 29.11.2007 kl. 11:11

51 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Benedikt: Femínistar eru að reyna að endurheimta bleika litinn, held reyndar hann sé yfirleitt dekkri/skærari en ljós-prinsessubleiki liturinn sem er fötum barnanna á myndinni sem Hlynur notaði við sitt blogg.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.11.2007 kl. 11:59

52 identicon

Sæll, Hlynur og aðrir skrifarar !

Hvers lags andskotans fíflagangur er þetta; hjá hinni veruleikafyrrtu Vinstri hreyfingu - Grænu framboði ?

Er þetta brýnna úrlausmarefni, en viðsnúningur í atvinnulífi sjávarplássanna, hringinn í kringum landið, t.d. ?

Það er skammarlegt, að rígfullorðnir menn eru að velta vöngum yfir því, hvers lags litur er á klæðum hvítvoðunganna, og að Kolbrún Halldórsdóttir skuli leggja sig niður við þetta; er með ólíkindum; hugði hana jarðbundnari en þetta.

Svona fíflagangur er ekki til þess fallinn, að auka hróður ykkar; Hlynur, og var hann nú ekki mikill fyrir.

Það er skömm, að þessum vinnubrögðum !

Með ærið blendnum kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 12:07

53 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ingólfur: Það má vera að bleiki liturinn á ungbarnafötunum á fæðingardeildunum sé svolítið upplitaður vegna þvotta en femínistar sem klæðast bleiku eru oft í bolum sem hafa ekki upplitast eins mikið.

En hvað um það. Bleiki liturinn er litur femínista! Ef Kolbrún hefði aðeins hugsað er ljóst að bleiki liturinn er miklu meira áberandi á femínistum en ungabörnum af augljósum ástæðum.

Benedikt Halldórsson, 29.11.2007 kl. 18:12

54 Smámynd: Sigríður

Skil ekki skil ekki skil ekki.....

Fyrir einhverjum 30-50 árum voru öll nýfædd börn sett í hvítt....til hagræðingar var því breytt í bleikt og blátt eftir kyni....einnig þótti notalegra að hafa nýfædd börn í einhverjum litaklæðnaði. Ég meina fæðingardeildin á ekki að líta út eins og líkhús...og hvað er að því að setja nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengi í blátt þegar þau koma í heiminn.

Svona umræða gerir útaf við jafnréttisbaráttuna.....ég tala nú ekki um þessa bjánalegu ráð"herra" umræðu...ég fæ hroll.

Sigríður, 30.11.2007 kl. 13:01

55 Smámynd: Hlynur

Er þetta ekki næsta skref kynlaust þjóðfélag
http://ruddar.spjallbord.net/default.aspx?g=posts&t=2016 

Hlynur, 30.11.2007 kl. 13:31

56 Smámynd: Hin Hliðin

Hvaða máli skiptir það hvort ungabörn haldi áfram að vera í bleiku og bláu?  Mér finnst það persónulega mjög falleg hefð og mundi ekki vilja sjá breytingu þar á.

Strákar eru strákar og stelpur eru stelpur.  Þannig er það og þannig verður það!  Það er ekki hægt að breyta því með því að setja öll ungabörn í hvítt.

 Af hverju í ósköpunum er þessu umræða eiginlega í gangi? Hefur fólk ekkert betra við tíman að gera?

Ég er ekki sáttur við það að borga alþingismönnum (og konum) laun fyrir það að ræða um það hvort ekki sé komin tími til að ungabörn séu öll í sama lit.

Hin Hliðin, 30.11.2007 kl. 15:30

57 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta fer að verða skemmtilega póstmódernískt þegar menn eru farnir að gagnrýna orðræðu þeirra sem gagnrýna orðræðu þeirra sem gagnrýna orðræðuna. Gaman að þessu!

Þorsteinn Siglaugsson, 30.11.2007 kl. 22:23

58 Smámynd: Sigurjón

Ég er mest hissa á því hversu margir vilja eyða orðum í þessa óþarfa vitleysu.

Svo vil ég spyrja háttvirtan vefbókareiganda: Hvers vegna í ósköunum heimtar þú að fólk skrifi undir fullu nafni?  Þolir þú gagnrýni frá hinum nafnlausu verr en hinum? 

Sigurjón, 1.12.2007 kl. 01:59

59 Smámynd: Sigurjón

Þ.e.a.s. hinum nafngefnu?

Sigurjón, 1.12.2007 kl. 02:00

60 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll, Benedikt, einu sinni var mér sögð saga af því að allar fimm ára stúlkurnar á leikskóladeild hefðu verið klæddar í bleikt einn daginn og þótti dúllulegt. Spurningin er hins vegar hvort þetta voru allt femínistar? Viðurkenni að lengi sást mér yfir þann möguleika.

Einhvern tímann, eftir því sem mig rámar í, var þýskur ráðherra (ráðfreyja?) sem bannaði karlmönnum sem unnu í ráðuneytinu hjá henni að vera með hálsbindi af því að það væri reðurtákn eða valdatákn karla, man ekki hvort heldur, því að fréttin var kynnt sem furðufrétt. Manst þú nokkuð eftir þessu, Hlynur? Ég giska á svona 1989 og giska á Neðra-Saxland.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 1.12.2007 kl. 08:05

61 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Það sem truflar mig við þetta mál er ekki að tíma skuli eytt í það, heldur að til séu tjórnmálamenn á Íslandi sem vilji hlutast til hvort velja megi lit á klæðnaði kornabarna eftir kyni á opinberum stofnunum.  Til er ríkisvald í þessum heimi sem hlutast til um klæðnað fólks og framfylgir þeim reglum með ofbeldi.  Þetta mál er skilgetið afkvæmi þess konar hugsunarháttar og er hann hér á landi ofast kallaður forræðishyggja.

Helgi Viðar Hilmarsson, 1.12.2007 kl. 09:05

62 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Sæll, Ingólfur. Þótt bleiki liturinn sé litur femínista hafa þær ekki einkarétt á honum. Nú hefur mikið æði gripið um sig í Tælandi þar sem karlar klæðast bleikum skyrtum.

Annars snýst umræðan ekki um liti heldur uppeldi stráka og stelpna. Það er því miður alltof oft gengið út frá því að strákar fái meiri hvatningu en stelpur og þar af leiðandi væri gott að einskorða ekki bleika litin við stúlkur eða nota  "kynbundin" föt sem stuðli að dúllulegri framkomu gagnvart stúlkum en dúllur erfa ekki landið!

En 50% fleiri stúlkur kláruðu stúdentspróf nú í vor en strákar. Þær eru engar dúllur en hins vegar er mikið áhyggjuefni hversu margir strákar detta úr skóla.

Ég man ekki til þess að þessi munur hafi þótt saga til næsta bæjar enda féll fréttin ekki að mýtunni um hina meintu hvatningu sem strákar eiga víst að fá.

Ef 50% fleiri strákar hefðu klárað stúdentspróf hefði samfélagið farið á annan endann og bloggið hreinlega brunnið yfir.

Benedikt Halldórsson, 1.12.2007 kl. 14:55

63 Smámynd: Hlynur Hallsson

Halla Gunnarsdóttir þimgfréttritari skrifar mjóg góða grein um þetta mál í laugardagsmoggann 1. des. Mæli með því að allir lesi hana. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.12.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband