Leita í fréttum mbl.is

Er verið að ala á útlendingahatri í Danmörku?

452357 Það verður að teljast afar hæpið að endurbirting þessara skopmynda af Múhameð gamla sé ástæðan fyrir íkveikjum og skemmdarverkum í Köben. En af hverju halda danskir og íslenskir fjölmiðlar þessu fram? Oft hefur verið bent á að hér sé um að ræða atvinnulaust ungt fólk og það sem enn verra er vonlítið ungt fólk í Danmörku. Þetta eru ekki allt "innflytjendur". Jafnvel ekki annarra kynslóðar "innflytjendur". Þetta er bara reitt og vonsvikið ungt fólk, oft danskt í 20 ættliði.

Talsmenn múhameðstrúarmanna í Danmörku hafa reynt að róa sitt fólk og jafnframt fordæmt endurbirtingu skopmyndanna. „Múhameð hefur ekki kennt ykkur að brenna bíla, skóla og opinberar byggingar. Hann hefur kennt ykkur að hegða ykkur á siðmenntaðan hátt", sagði ímaminn Mustafa Chendid við föstudagsbæn í dag. Enda hefur fólkið sem verður fyrir íkveikjum ekkert af sér gert. Hvaða tilgangi þjónar það þá að spyrna saman þessa hluti? Getur það verið að tilgangurinn sé að ala enn á útlendingahatri í Danmörku? Vonandi ekki, en afleiðingarnar eru einmitt þessar.


mbl.is Eldar kveiktir í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

ég er eiginlega viss um að fyrir 20 árum síðan hefðu danskir múslimar ekki kippt sér uppvið einhverjar myndbirtingar, sennilega ekki pælt í þeim. En nú er öldin önnur. Ég veit ekkert hvað er á bakvið þessar íkveikjur og skrílslæti (já vá, takið eftir, orðið skrílslæti notað í réttu samhengi!!!) hvort það eru letihaugar, innflytjendur eða aðrir, en það er gjörsamlega óbærilegt næstum að lesa um að fólk sé að kveikja í til að sýna óánægju sína, það er svo mikil grimmd, eitthvað svo ömurlegt. Imaminn kemst mjög vel að orði, en, hann hefði mátt sleppa þvi að tala um að skopmyndirnar væru heimskulegar, með því að tönnlast á því eru hann og aðrir í hans stöðu bara að kynda undir óánægju og gefa séns á því að innflytjendum sé kennt um eitthvað sem er hugsanlega ekki þeim að kenna. Það er allt að leysast uppí vitleysu í samskiptum fólks, útum allan heim

halkatla, 16.2.2008 kl. 00:39

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

"Það er allt að leysast uppí vitleysu í samskiptum fólks, útum allan heim"

Mér sýnist sumir danskir blaðamenn fyllilega leggja sitt af mörkum til að kynda undir þeirri vitleysu, með endurbirtingu skopmyndanna - er nokkuð gúrkutíð?

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.2.2008 kl. 00:45

3 Smámynd: halkatla

auðvitað eru skopmyndirnar síðan heimskulegar, þær eiga að vera það.... ég þoli ekki hvernig er látið með þær, þeir sem æsa sig yfir þeim verða að eiga það við sig því Guð/Allah veit að ég verð móðguð yfir einhverju á hverjum degi en hef ekki sama rétt og "sumir" til að grenja og fara á taugum, hvað þá ef um grín eða skop er að ræða!!! (margar skopmyndir finnst mér svo heimskulegar að ég móðgast yfir því að mér sé ekki boðið uppá eitthvað fyndnara, er það sambærilegt?) mér finnst komið að þáttaskilum í þessu máli, núna verða bara öll lönd sem hafa til þess þor og getu að standa saman og birta myndirnar til varnar mál/prent og öllu svoleiðis frelsi! Mér finnst líka mjög sniðugt að gera grín að spámanninum ljóta, það eru margir að segja að þetta sé ekki sniðugt grín en ég er ósammála og þar að auki er þetta ábyggilega gagnlegasta og nauðsynlegasta grín í heimi (það er engin ástæða til að láta þetta vandamál sem viðbrögð sumra múslima eru liggja í endalausum dvala) en jæja, núna hef ég skrifað heila ritgerð - megir þú eiga góða helgi Hlynur!

halkatla, 16.2.2008 kl. 00:45

4 Smámynd: halkatla

Gréta, ég er að segja með setningunni sem þú vitnar í að það sé allt að leysast uppí vitleysu í samskiptum fólks um allan heim, á öllum sviðum, alls ekki bara í sambandi við trúmál og slíkt. Heldur bara allt.

halkatla, 16.2.2008 kl. 00:46

5 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sammála þér Anna Karen. Það er einhver taugaveiklun í gangi og fjölmiðlar ala á henni... eða við sem erum neytendur fjölmiðlanna því við höfum greinilega áhuga á að lesa um þetta.

Þessar skopmyndir eru bara fyndnar. Þessi með sprengjuvefjarhöttinn er samt ekki best að mínu mati. En nokkra þeirra er frábærar. Nokkrir Jesúbrandarar eru líka góðir.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 16.2.2008 kl. 00:47

6 Smámynd: halkatla

það á og verður að kynda undir þessari vitleysu til þess að það sé hægt að sigrast á henni í eitt skipti fyrir öll. Ef það verður ekki gert þá sigrar vitleysan. Það er það eina sem ég veit fullkomlega fyrir víst í þessu.

halkatla, 16.2.2008 kl. 00:48

7 Smámynd: halkatla

Jesúbrandarar eru bestir

halkatla, 16.2.2008 kl. 00:48

8 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk líka fyrir gott innlegg Gréta. Mér finnst einnig að það þurfi að athuga hvað lá að baki þessu meinta morðplani á teiknaranum núna. Það á víst að vísa þessum "tilræðismönnum" úr landi án þess að þeir komi fyrir dómara og það er út í hött (samt ekki vefjarhött).

Bestu kveðjur aftur, 

Hlynur Hallsson, 16.2.2008 kl. 00:50

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...já, ég skil það, Anna Karen, - en ég er að segja að danskir blaðamenn leggi sitt til vitleysunnar, hvað trúmál varðar, með endurbirtingu myndanna. - Svona af því Hlynur var nú að ræða akkúrat um ástand mála í Danmörku þessa stundina, sem ég álít að hann hafi rétt fyrir sér um þegar hann segir að þetta sé ástand sem sé búið að vera að gerjast, ekki bara vegna trúarskoðana, heldur fleiri þjóðfélagsaðstæðna, þó birting skopmyndanna nú sé það sem hefur fyllt mælinn hjá mörgum þessara ungmenna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.2.2008 kl. 00:52

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Í grunninn eru þessi vandamál sprottin af því þegar tveir mjög ólíkir menningarheimar mætast, og sá menningarheimur sem fyrir er telur sér ógnað af þeim sem sækir á. Þetta er alls ekki einfalt.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.2.2008 kl. 00:55

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En ég var víst búin að lofa sjálfri mér að hanga ekki í tölvunni langt fram á nótt, svo ég ætla að bjóða ykkur góða nótt að sinni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.2.2008 kl. 00:57

12 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Greta er óvinur lýðræðis og er engu skárri en öfgamenninir

Alexander Kristófer Gústafsson, 16.2.2008 kl. 01:05

13 Smámynd: halkatla

ég er líka sammála túlkun Hlyns á þessum aðstæðum, gleymdi bara að segja það!

halkatla, 16.2.2008 kl. 01:07

14 Smámynd: Hlynur Hallsson

Alexander, ég vil biðja þig að vera ekki með furðulegar fullyrðingar um fólk hér á síðunni sem þú hefur enga innistæðu fyrir. Eins og það að kalla í þessu tilfelli Gretu "óvin lýðræðis". Þú getur mín vegna drullumallað á þinni síðu er ekki hér.

Og hver er þessi Friðrik? Þegar maður ætlar að skoða síðuna hans þá kemur bara "Notandi fannst ekki. Ekki er til virkur notandi með notandanafnið nonni100."  Ef fólk er að með dulnefni eða að villa á sér heimildir þá hendi ég svoleiðis liði út. Bara svo það sé á hreinu.

Um þessa félaga má segja að þeirra uppáhaldsslagorð gæti verið: "Drepum alla "öfgamenn"!"

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 16.2.2008 kl. 01:37

15 Smámynd: Magnús Aðalsteins

Það er í lagi að gagnrýna hátterni fólks, og ég hrekk ekki langt þó gert sé grín að Jesú eða öðrum trúartáknum, einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki mikla þýðingu fyrir mig persónulega. Mér finnst samt þessar myndbirtingar óverjandi vegna þess að þær upplýsa ekkert en eru eingöngu ætlaðar til að niðurlægja ákveðna þjóðfélagshópa.

Magnús Aðalsteins, 16.2.2008 kl. 08:05

16 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Er samál flestu sem sagt er hér að ofan, get svo sem skilið sjónarmið Grétu,en ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að innflytjandi hvar sem hann ætlar að setjast að, hvort sem það er hér eða annars staðar verði að semja sig að þeirri þjóðfélagsgerð og mennig sem gildir í viðkomandi landi. Ef hann ætlar að halda siðum heimalandsins er lang best fyrir hann að ver abara heima. Mér finnst dæmið ekki ganga upp ef viðkomandi ætlar að halda öllu fára gamla landinu, og bæta svo við það með því sem honum þóknast í því nýja. Og hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá verðum við að horfast í augu við það, að á meðan þeir sem aðhyllast Islam og láta snarklikkaða bókstafstrúarofstækismenn ráða för verður seint hægt að koma á friði. Nú til dags er erfitt að skilja svona öfga,þar sem ég geng út frá því að þetta séu menntaðir menn, en þeir haga sér engan vegin þannig. Og ég er sammála Dönum og hverjum þeim sem ekki vill una því að einhver illa skeindur arbalýður sé að hlutast til um mál í öðrum löndum og hvetja til morða áþeim sem ekki eru tilbúnir að gefa eftir .Ég verð sjáfsagt stimplaður rasisti fyrir þessi síðustu ummæli,og það er bara fínt,því mér líður vel með þessa skoðun...           Kveðja 

Ari Guðmar Hallgrímsson, 16.2.2008 kl. 08:19

17 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir ljómandi innlegg Ari. Það hvarflar ekki að mér að stimpla þig sem rasista og vonandi gerir það engin því sjónarmið þín eru í raun afar hófsöm og skiljanleg (fyrir utanein ummæli).

Ég er sammála þér um að innflytjendur verða auðvitað að aðlaga sig siðum og venjum í nýja landinu en á gömlu íbúarnir verða auðvitað einnig að aðlagast breyttu samfélagsmynstri. Við þekkjum það öll þegar íslendingar flytja til annarra landa að þeir vilja gjarna halda í sína íslensku siði og venjur og "grúppa sig" jafnvel saman:)

Orðunum "illa skeindur arbalýður" hefðir þú hinsvegar betur sleppt að mínu mati. Þau draga allan málflutninginn með niður í svaðið. 

Við þurfum að venja okkur á að koma fram við aðrar af virðingu.

Magnús, þarna takast á sjónarmið um tillitssemi, ögrun og tjáningarfrelsi. Ég skil sjónarmið þitt og virði það en er þér þó ekki sammála. Get þó tekið undir að það sé ekki skynsamlegt að ögra á þessum vettvangi eða tímapunkti en styð tjáningarfrelsið og til það eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að hafa. Það er hluti af mannréttindum okkar.

Bestu kveðjur, 

Hlynur Hallsson, 16.2.2008 kl. 09:35

18 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Tek undir síðustu orð þín Hlynur......það er eitt að hafa tjáningarfrelsi og annað að kunna fara með það. Það er greinilega verið að ögra með þessum myndbirtingum. 

Samfélög nútímans hafa tekið miklum breytingum. Við íslendingar höldum okkar siðum þar sem við flykkjumst til að búa og hópumst gjarnan saman en fólk sem flytur hingað er gagnrýnt fyrir það sama...skyldi það vera að vegna hroka í okkur að ætla að við séum á allan hátt betri, að siðir okkar venjur og þankagangur sé betri en annarra? Það er alltaf verið að tala um að þeir sem flytji hingað verði að aðlaga sig íslensku samfélagi, skil ekki almennilega hvað fólk meinar, þýðir það að þú verðir að klæða þig eins og hin íslenska steríótýpa, detta í brjálaða neyslu, tala íslensku sem er alsett  slangri frá Bandaríkjunum aðallega, ( með öðrum orðum ekki skera þig úr, okkur hinum þykir það óþægilegt)  eða þýðir þetta eitthvað annað.....það geta vel þrifist í sama landinu margir ólíkir siðir, svipað og að í einum og sama garðinum geta verið margar tegundir af blómum.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 16.2.2008 kl. 09:59

19 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mér finnst oft gleymast í þessari umræðu, að sem danskir, innfluttir, borgarar í því lýðræðisríki sem Danmörk verður að teljast, hafa múslimir sama tjáningarfrelsi og aðrir danskir borgarar og þar með fullt frelsi til að láta óánægju sína í ljós á friðsamlegan hátt, eins og imamar dönsku söfnuðanna hvetja nú trúbræður sína til að gera, en láta af óspektum og íkveikju. Nota bene, þá kveikja þessir unglingar mest í dauðum hlutum, það er að segja bílum (sem kemur þó illa við buddu, og þar með hjarta margra), á meðan hvítir öfgasinnar í nágrannalandinu Þýskalandi hafa gert sig seka um að kveikja í húsum með fólki innan dyra og þar með orðið valdir að dauða þeirra. Því sést hvergi mótmælt af sama ákafa og myndbirtingunum, því miður, hvorki af "þvottekta" Evrópubúum né múslimum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.2.2008 kl. 13:42

20 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Það er stór mismunur að  mótmæla og brenna eignir.

Alexander Kristófer Gústafsson, 16.2.2008 kl. 20:41

21 Smámynd: Hlynur Hallsson

Vissulega er stór munur á því Alexander. Og ég fordæmi það að fólk skemmi eigur annarra (og í þessu tilfelli blásaklauss fólks) undir yfirskyni mótmæla.

Greta hefur mikið til síns máls. Af hverju bregst fólk ekki hart við þegar nýnasistar kveikja í íbúðarhúsi þar sem börn og foreldrar (innflytjendur) búa? Það er eitthvað skakkt við þetta. Takk fyrir áhugaverðar athugasemdir og viðbætur, öll.

Bestu kveðjur, 

Hlynur Hallsson, 16.2.2008 kl. 20:58

22 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Elsku listamannapólitíkusinn. Þetta byrjaði nú allt um daginn, áður en Túnesingarnir með kappklæddu konurnar í Árósi, sem ætluðu að myrða skopteiknarann, voru hnepptir í varðhald.

Áður en það gerðist og óðir menn fóru um og brenndu danska fánann á Gaza og í Karachi, voru brennurnar í Kaupmannahöfn að sögn ungmennanna sjálfra vegna þess að lögreglan hefur hert löggæslu til að stemma stigu við eiturlyfjasölu. Svo kom Múhameð aftur í dönsku blöðunum og það var líka hægt að nota það, eins og allt annað til að skýra skrílslætin í nafni trúar sinnar. Hass og Múhameð.  Eitthvað hefði Kalli Marx geta frætt þig um þá bráðhættulegu blöndu.

Nú í kvöld var íkveikja í nánasta nágrenni við mig. http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/446802/  Er nokkuð svoleiðis í gangi á Akureyri?

Útlendingahatur, segir þú.

Meðan Múslímar í Danmörku sem og annars staðar hata Dani, gyðinga, Bandaríkjamenn - you name it -  og alla þá sem leyfa sér eitthvað sem er talið til grundvallamannréttinda. Hvað er þá útlendingahatur?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 16.2.2008 kl. 21:00

23 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Íslendingar flytja út við rottum okkur saman etum hrútspunga og svið og það er í góðu lagi. Við ætlumst aftur á móti ekki til þess að fólkið í búðinni sem að við vinnum í skilji Íslensku eða þurfi að nota aðra þjóðtungu en sína eigin til að hafa samskipti við okkur. Þess vegna aðlögumst við þeim stöðum þar sem við erum eða allavega gerum okkar besta. Fólk virðist ekki skilja málið vandamalið er að hluti innflytjenda ætlar sér ekkert að aðlagast ætlar sér að mjólka kerfið nýta það sem hægt er að nýta fremja glæpi og haga sér á flestan hátt eins og það gerði í gamla landinu. Ákveðin samleitur hópur hefur aftur á móti komið umræðunni á það plan að það má ekkert segja án þess að fólk sé sakað um öfgaskoðanir og á leitt til þess að það má ekki orðið segja eitt eða neitt öll umræða er kæfð í fæðingu með kórnum sem að upphefur rasistasönginn og allir þagna.
En það er með þetta innanmein eins og önnur innanmein það kemur út um síðir og hafi aldrei neitt verið gert er lítið mein oft orðið að óviðráðanlegu æxli

Jón Aðalsteinn Jónsson, 16.2.2008 kl. 21:10

24 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Góður pistill Hlynur og góðir pistlar yfirleitt úr þínum penna! Það er virkileg þörf fyrir menn sem láta til sín taka! Kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 21:25

25 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Það er ofsalega vandrataður þessi meðalvegur sem þjóðir í Vestur Evrópu þurfa að þræða núna og næstu áratugina.  Um leið og við verðum að virða og meta innflytjendur og gefa þeim öll tækifæri til jafns við aðra þá megum við heldur ekki láta þá komast upp með að innleiða hérna eitthvað rugl sem við vitum að er rangt, eins og takmarkanir á tjáningarfrelsi, kúgun kvenna o.þ.h.

Þorsteinn Sverrisson, 16.2.2008 kl. 23:26

26 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

orð að sönnu kæri hlynur. ástandið hérna í Danmörku er ekki gott eins og stendur. en ekki svo furðulegt að þetta gerist. innflytjendur hafa ekki haft sjö dagana sæla hérna í dk, það er mikið útlendingahatur, og ágerist ári til árs. það er eins og flestir hafi gleymt að fyrir ca 20, 30 árum þá var flutt hingað vinnuafl frá Tyrklandi og öðrum löndum, þá vantaði fólk í vinnu. einnig hefur komið flóttafólk frá stríðshrjáðum löndum, og meðal annars Írak sem Danir eru í stríði við.við á vesturlöndum verðum að taka afleiðingum af þeim gerðum sem við erum þátttakendur í, og hjálpa stríðshrjáðum.það hafa komið margir til dk, sem er svo gert allt of lítið til að hjálpa inn í þjóðfélagið. þessi mála hafa fengið að passa sig of lengi, og því fer sem fer. ég sá mjög áhugavert viðtal við mann sem hafði unnið með þessa ungu innflytjendur, hann sagði og það finnst mér svo rétt, að grunnvandamálið sé að þessu unga fólki finnist þau ekki hluti af neinu. þau eru ekki hluti af því landi sem þau koma frá, en heldur ekki hluti af Danmörku. í flestum þeim löndum sem þetta blessaða fólk kemur frá er faðirinn höfðuð fjölskyldunnar, og ef faðirinn er ekki, þá elsti sonur, það er ekki auðvelt að lifa upp til þess, þegar flestir þessir menn fá ekki vinnu, eru á bótum frá sveitafélaginu.það vantar fólk í vinnu í dk, en samt fá þeir sem heita muhammed, eða abdula ekki vinnu. þessum hugsunargangi verður að breita, áður en sjálfsvirðingin fer alveg. það vantar lækna og fleyra menntað fólk í vinnu í dk, það er talað um að ná í fl. útlendinga til að fylla upp í þau skörð. vandamálið er frá mér séð, að það er fullt af hæfileikaríku fólki með þessa menntun, sem keyra leigubíla, strætó, vinna í grilli, í staðin væri hægt að endurmennta þetta fólk og bjóða þeim að vinna við það sem þau eru best í. en nei, það á að sækja ennþá fl. "útlendina" til að sinna þessum störfum. foj, hvað þetta er stutt hugsað hjá yfirvöldum.þetta mál með muhammeds teikningarnar er fyrir mér hluti af öllu þessu, og bara enn ein myndin virðingarleysi til þessa fólks. þegar það er svona mikið hatur byggt upp, vegna sinnuleysis, og fordóma, þá er voðin vís, og við sjáum það núna. reiðin er sett í ákveðið efni, sem núna eru teikningarnar, þó svo að ég haldi að rótin sé önnur. 

kurt vesrtegaard þarf sennilega að lifa í felum það sem eftir er af hans lífi, og hann segir að hann hafi gert þessa teikningu til að undirstrika málfrelsi, tjáningarfrelsi. það er ok, en af því að við höfum málfrelsi, tjáningarfrelsi hérna á vesturlöndum, hvers vegna þurfum við að nota það til til þess neikvæða, hvers vegna ekki að nota það  á jákvæðan hátt að hjálpa meðbræðrum okkar í þróun til lýðræðis. við réðumst inn í irak til að hjálpa, en hvar erum við núna með það mál, það er allt í klessu, þjóðarsálin þarf að vera tilbúinn til lýðræðis, og að mínu mati er besta leiðin alltaf sú að hjálpa þeim að hjálpa sér sjálfir.

ef fer sem áætlað er að þeir sem planlögðu morðið á kurt verða sendir úr landi án réttarhalda, það verður allt brjálað. 

Integrationsminister Birthe Rønn Hornbech hefur sjálf gefið yfirlýsingu um þessi dönsku lög, sem gefa rétt til þess að henda einstaklingum út ef grunur leikur á hryðjuverkum.ef það verður gert núna í þessu tilfelli tveir ungir menn, þá logar Danmörk.

kæri hlynur. knús til þín og þinna

bless í bili

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 17.2.2008 kl. 11:27

27 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

gleymdi að skrifa að Birthe Rønn Hornbech er mótfallin þessum lögum !

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 17.2.2008 kl. 11:32

28 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Merkilegt. Ég var að koma frá "gömlu konunum mínum" á Dalbrautinni, sem ég fer og les fyrir tvisvar í viku. Mér til nokkurrar undrunar og ánægju, en um leið sorgar, þá heyrði ég á tali þessara öldruðu kvenna að þær höfðu mun næmari skilning á vandamálum innflytjenda í Danmörku en margt það unga fólk sem tjáir sig um þetta hitamál hér á síðum Moggabloggsins þessa dagana. Af hverju skyldi það stafa?

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.2.2008 kl. 15:32

29 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég þakka þér fyrir góðan pistil Hlynur, en sérstaklega langar mig til að þakka Steinunni Helgu fyrir gott innlegg í umræðuna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.2.2008 kl. 15:34

30 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ha,ha, mér datt líka allt í einu í hug að sjálf fékk ég að reyna smá forsmekk af danskri útlendingafyrilitningu s.l. haust, ekki í Danmörku, heldur suður á Krít, þar sem ég og aldraðir foreldrar mínir settumst  inn á danskan bar, í þeirri trú að við myndum mæta (jafnvel sérlega) vingjarnlegu viðmóti hjá frændum okkar Dönum.

Því var sko aldeilis ekki að heilsa, það var auðfundið á öllu viðmóti gestgjafans að hjá honum (henni) voru Íslendingar engir aufúsugestir, eða áttu upp á pallborðið á þessum veitingastað. - Sennilega hafa íslenskir aðilar eignast of mikið þar í landi til þess að svo sé, eða hvað var málið? - Ekki var það þó sagt berum orðum, heldur var þjónustulundin á lágmarki og veitingar þær sem við gátum kreist út úr konunni voru framreiddar með "sur mine" sem auka trakteringu.

Þannig að, næst þegar við fórum að fá okkur næringu, var haldið rakleitt á krítverskan stað, þar sem viðmótið var ólíkt betra, miðað við danska staðinn var það eins og að koma inn í hlýja stofu úr frystiklefa. 

Ef þetta er viðmótið sem innflytjendur í Danmörku mæta dags daglega í landinu sem þeir hafa náðarsamlegast  fengið að setjast að í, þá segi ég : Guð hjálpi dönsku þjóðinni. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.2.2008 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.