Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Klámþingið blásið af, til hamingju!

neiÞað eru góð tíðindi að hætt skuli hafa verið við þessa fyrirhuguðu klámráðstefnu. Hótel Saga á heiður skilinn og bændasamtökin einnig. Ferðamannaiðnaðurinn mun einnig uppskera fleiri ferðamenn sem ekki eru komnir hingað til að upplifa klám og rusl í Reykjavík. Þvert á það sem einhverjir hafa haldið fram. Það eru nefninlega margir hafa ekki áhuga á því að ferðast til landa sem hafa á sér vafasamt orðspor í þessum efnum. Niðurstaðan verður hinsvegar til þess að fólk sem ekki hefur áhuga á klámi flykkist til landsins. Samtakamátturinn skiptir máli og andfemínistar geta froðufellt að vild. Það er einnig athyglisvert að bloggið hefur skipt miklu máli við að koma skoðunum fólks á framfæri eins og umræður um þetta fyrrverandi klámþing sýna. Til hamingju aftur.


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjálæðislegar skuldir og viðskiptahalli


peningar

Skuldir fólks (ekki fyrirtækja) við bankana, námu í lok janúar 2007 hvorki meira né minna en 716 milljörðum króna samkvæmt gögnum sem Seðlabankinn sendi frá sér í gær. Þetta er skelfilega há upphæð og yfirdráttarlán eru 72 milljarðar og hækkuðu um tæplega 5 milljarða á einum mánuði! Yfirdráttarlánin hafa ekki verið hærri frá því í lok febrúar í fyrra. En þetta er ekki allt því heildarskuldir heimilanna við lánakerfið allt námu í lok september á síðasta ári 1.270 milljörðum króna.
Eignastaðan hefur að vísu batnað að mati Glitnis, sennilaga aðallega í steypu og bílum!
Við þetta bætist að ríkisstjórnin hefur sett nýtt met í viðskiptahalla sem er orðinn sá mesti frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Og svo tala þessir ráðherrar og fylgifiskar um "ábyrga fjármálastjórn" þegar allir sjá að þetta er met í klúðri. Auk þess eykst misskipting á Íslandi meira en í nokkru öðru landi Evrópu. Hverjir þurfa að taka sér frí frá ríkisstjórn?


mbl.is Skuldir heimilanna 716 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða gegn klámi

sóleyÞað er afar ánægjulegt að það hefur myndast þverpólitísk samstaða gegn klámi í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar allra flokka standa að ályktun þar sem segir:
"Borgarstjórn harmar að Reykjavíkurborg verði vettvangur ráðstefnu framleiðenda klámefnis fyrir netmiðla um miðjan marsmánuð og hugsanlega jafnframt vettvangur athæfis sem bannað er með íslenskum lögum.
Það er yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Það er því í mikilli óþökk borgaryfirvalda ef umrædd ráðstefna verður haldin hér í borg.
Ekki einungis er hér um að ræða málefni sem hefur afar óæskileg áhrif á samfélagsþróun og sjálfsmynd ungmenna, heldur grefur ráðstefna klámframleiðenda undan því öfluga markaðsstarfi sem unnið hefur verið hér á landi undanfarin ár og ímynd landsins sem miðstöðvar heilbrigðs lífernis, lýðræðis og jafnréttis.
Borgarstjórn ítrekar óskir borgarstjóra um að lögregluembættið rannsaki hvort þátttakendur í hópi ráðstefnugesta kunni að vera framleiðendur barnakláms, auk annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi eða til þess að upplýsa um ólögmæta starfsemi.
"
Sóley Tómasdóttir varborgarfulltrúi Vinstri grænna bloggfélagi er ein þeirra sem hefur verið afar dugleg að benda á klámvæðinguna og hefur uppskorið mikið lof fyrir en einnig ótrúleg ummæli þeirra sem finnst ekkert athugavert við þessa klámráðstefnu. Sumt af því sem skrifað hefur verið á síðuna hennar er ekki hægt að hafa eftir svo ömurlegur er stundum málflutningur andstæðinga þeirra sem vilja berjast gegn klámvæðingunni.  
En hér er tilvitnun í Sóleyju þar sem hún lýsir yfir ánægju sinni með samstöðuna gegn kláminu í borgarstjórn:
"Með þessu hafa orðið vatnaskil í baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi. Borgarstjórn hefur málið yfir pólítíska flokkadrætti og viðurkennir klám sem samfélagslegt vandamál, verkefni sem stjórnvöldum beri að beita sér gegn.
Húrra fyrir borgarstjórn! Til hamingju Reykjavík!
"

Ég tek helishugar undir þetta og óska Sóleyju og félögum til hamingju.


mbl.is Borgarstjórn öll á móti klámráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar Baugsmálið okkur?

baugur illfygli

Það verður fróðlegt að fá svör frá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins við þessum spurningum um heildarkostnað ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins. Þetta mál verður Davíð Oddssyni og félögum til skammar svo lengi sem menn nenna að rifja upp þessi réttarhöld og lögreglurannsókn. Þetta mál er eitt dæmið um það af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert að gera í ríkisstjórn. Ég tek ofan af fyrir Hjálmari Árnasyni að vera vera með fulltrúum stjórnarandstöðunnar þegar dómsmálaráðherra er krafinn svara. Og svo er bara að vona að Björn Bjarnason svari einhverju en snúi ekki út úr eins og hann er vanur að gera.

Hér er fréttin af mbl.is

"Þingmenn úr fjórum þingflokkum á Alþingi hafa lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra þar sem spurt er um kostnað ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins. Þá er m.a. einnig spurt hversu margar vinnustundir starfsmanna ríkislögreglustjóra hafi farið í málið frá júlí 2002 til dagsins í dag.
Fyrirspurnin er frá Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanni Samfylkingar, Hjálmari Árnasyni, þingmanni Framsóknarflokks, Kolbrúnu Halldórsdóttur þingmanni VG og Sigurjóni Þórðarsyni, þingmanni Frjálslynda flokksins.
Spurt er hver sé heildarkostnaður ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins frá því í ágúst árið 2002 og fram til dagsins í dag eða til þess tíma á árinu 2007 sem upplýsingar liggi fyrir um og hvernig hann skiptist á eftirfarandi þætti:

    •    a. rekstur efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra,
    •    b. aðkeypta sérfræðiaðstoð og annan útlagðan kostnað efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra (þ.m.t. ferða- og uppihaldskostnað) við rannsókn og rekstur málsins,
    •    c. störf sérstaks saksóknara í Baugsmálinu, þ.m.t. kostnaður við aðstoðarmenn og aðkeypta sérfræðiþjónustu,
    •    d. kostnað sem íslenska ríkið hefur verið dæmt til þess að greiða vegna málsvarnarkostnaðar ákærðu í Baugsmálinu,
    •    e. annað, áður ótalið, sem eðlilegt er að telja hafa lent á ríkissjóði vegna málsins?


Þá er spurt hve stór hluti af starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á framangreindu tímabili hafi farið í Baugsmálið og hversu margar vinnustundir starfsmanna ríkislögreglustjóra."


mbl.is Spurt um kostnað við rekstur Baugsmálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins brot á samkeppnislögum viðurkennt

síminn landsvirkjun

Það var mikið að eitthvað virkar með þessum samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið er að standa sig hérna og gott að Síminn og Landsvirkjun viðurkenna augljóst brot á samkeppnislögum. Í fréttinni á mbl.is segir: "Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu er forsaga málsins sú, að í febrúar 2005 keypti Síminn fjórðungshlut í Fjarska sem starfar m.a. á fjarskiptamarkaði ásamt því að kaupa af Fjarska sex ljósleiðarastrengi af 12 á milli Hrauneyjafossstöðvar og Akureyrar. Eftir að greint var frá þessu samstarfi í fréttum hófu samkeppnisyfirvöld að eigin frumkvæði rannsókn, sem leiddi til þess að aðilum var sent andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins. Þar kom fram það frummat eftirlitsins að markmiðið með samningum félaganna hafi verið að raska samkeppni og skipta með sér markaði á sviði fjarskipta og með því hafi aðilar farið gegn 10. gr. samkeppnislaga.
Í kjölfar þess að andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins var birt leituðu aðilar hvor fyrir sig eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Í sáttinni felst að aðilar málsins viðurkenna að hafa farið gegn 10. gr. samkeppnislaga og fallast á að ógilda þá samninga sem voru grundvöllur brota. Þá fellst Síminn á að greiða 55 milljónir í stjórnvaldssekt og Landsvirkjun 25 milljónir."
Það er mjög mikilvægt að á svona litlum markaði sé samkeppniseftirlitið enn virkara. Ég skrifaði um fákeppnina um daginn og það er hægt að lesa hér.


mbl.is Síminn og Landsvirkjun viðurkenna brot á samkeppnislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílar bannaðir

hjól

Flott hjá ítölum að vekja athygli á mengunarmálum og minnka mengun í miðborg Rómar með því að banna bílaumferð í borginni í dag. Íbúar og ferðamenn þurftu því að ganga og fara um á reiðhjólum en ókeypis var á öll söfn í borginni í tilefni dagsins, en lestum og leigubifreiðum fjölgað svo allir kæmust leiðar sinnar. Hér er á jákæðan hátt vakin athygli á þessum málum. Í miðborgum Stokkhólms og Lundúna er bílaumferð takmörkuð og það er bara af illri nauðsyn en hefur heppnast ótrúlega vel.

rómÞað er kominn tími til að menn fari að huga að bættum almenningssamgöngum í Reykjavík og sem betur fer virðist vera stemmning fyrir því núna. Fjölga strætóleiðum og hafa þær tíðari og sér akreinar fyrir hraðstrætó. Fjölga og bæta hjólreiða- og göngustíga. Þannig er hægt að draga úr bílaumferð og afsanna klisjuna um að við séum einhver "bílaþjóð". Hvenær urðum við það annars? Viljum við að Reykjavík verði einhver Los Angeles mislægra-gatnamótaborg eða eins og evrópskar borgir? Það er ekki of seint að snúa þessari öfugþróun við en fer að verða það.


mbl.is Bílaumferð bönnuð í miðborg Rómar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyf sem læknar allt

havidol

Verk Justin Cooper sem sýnt er í Daneyal Mahmood galleríinu í New York hefur vakið mikla athygli. Svo mikla að mbl.is hefur skrifað um verkið (en gleymdi að vísu að minnast á hver væri listamaðurinn). Þetta er auglýsingaherferð fyrir nýtt lyf sem á lækna alla dæmigerða "sjúkdóma" sem við þjáumst af, stress, öldrun, örvænting og svo framvegis. Sem sagt lyf sem mun slá í gegn í neysluþjóðfélaginu okkar. Hér er vesíða lyfsins góða og hér er umfjöllun um sýninguna. Skemmtilegt að í vörumerki lyfsins HAVIDOL kemur tákn sem er ansi líkt merki Skjás eins fyrir.


mbl.is Þegar mikið er ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfið frá skerðingu stúdentsprófsins

vma

Það er afar ánægjulegt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra sé búin að bakka endanlega með þessar skerðingarhugmyndir á stúdentsprófinu. Það er einnig ástæða til að þakka framhaldskólanemendum og kennurum fyrir málefnalega andstöðu við þessar fyrirætlanir menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Um leið óska ég nemendum og kennurum og bara öllum til hamingju með að þetta andóf hafi borið árangur. Eins og margoft hefur verið bent á þá er hægt að taka stúdentspróf á styttri tíma en fjórum árum. Það hefur verið hægt lengi og verður þannig vonandi áfram svo þeir nemendur sem það hentar geti kláráð námið á styttri tíma, óskert en að aðrir geti klárað þetta á fjórum árum. Það er dálítið fyndið að Þorgerður Katrín skuli segja nú að: "stytting námstíma til stúdentsprófs væri ekki markmið í sjálfu sér heldur mikilvægur valkostur nemenda á fjölbreyttum námsbrautum skólakerfisins í síbreytilegu þjóðfélagi." Það hefur alltaf verið valkostur síðan fjölbrautarskólarnir urðu til fyrir áratugum! Hvar hefur menntamálaráðherra verið?


mbl.is Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkum laun kennara

kennararjpg

Það er ótrúlegt að kennarar þurfi alltaf að sækja augljósar kjarabætur sínar með aðgerðum. Getum við ekki borgað þeim sómasamleg laun? Kennarastarfið er eitt það mikilvægasta í þjóðfélaginu og við krefjumst mikils af kennurum. En launin sem í boði eru eru bara ekki uppá marga fiska. Framhaldsskólakennarar fengu kjarabætur fyrir mörgum árum en þær eru étnar upp af verðbólgu og það sama má segja um laun grunnskólakennara. Laun kennara í leikskólum eru fyrir neðan allar hellur. Það á ekki að þurfa að fara í verkföll til að það sé samið við kennara um kjarabætur. Ríki og sveitarfélög eiga á sjá sóma sinn í því að borga almennilega fyrir þessi störf. Það segir heilmikið um þjóðfélagið sem við búum í hvernig farið hefur verið með kennara. Semjum við grunnskólakennara strax! Það hlýtur að vera krafa okkar foreldra.


mbl.is Kennarar mótmæla launum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgönguáætlun frestað vegna þenslu

vegir

Loksins er búið að tosa þessa samgönguáætlun út úr stjórnarflokkunum. Það verður spennandi að fylgjast með umræðum um þetta plagg næstu vikurnar. Allt það sem vantar í áætlunina og svo framvegis. Milljarðar og milljarðar, maður dettur eiginlega úr sambandi við raunveruleikann við að lesa þetta yfirlit. Allt lítur út eins og smotterí í samanburði við þessar upphæðir, nema náttúrulega framlög BNA til hermála sem toppa auðvitað allt! En svo er aldrei að vita hvað þessi samgönguáætlun heldur. Þessi ríkisstjórn fór auðvitað létt með það strax eftir síðustu kosningar að fresta framkvæmdum og skera niður um nokkra milljarða, aðallega í vegagerð á Vestfjörðum og á Norðurlandi, vegna þenslu sem allt í einu datt inn um bréfalúguna hjá ráðherrunum. En sem betur fer verða þessir ráðherrar komnir í frí eða allavega stjórnarandstöðu eftir nokkra mánuði.


mbl.is Rúmir 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.