Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Varnir Ingibjargar, eldveggir og heimspekin

Gamli herstöðvarandstæðingurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lagði fram "frumvarp um varnarmál" á þinginu í dag. Hún er núna í liði með Birni nokkrum Bjarnasyni sem aldrei hefur verið hernaðarandstæðingur. Gott að eldveggirnir verði reistir en hvað halda þeir lengi? Verður ekki bara hægt að pissa á þá? "Hernaðarlegir öryggishagsmunir" eru frekar óhugnanlegir sérstaklega úr munni Björns.

Ég get hinsvegar mælt með heimspekispjalli á Bláu könnunni á sunnudaginn:

Heimspekikaffihús

um lýðræði og mannréttindi

með Ólafi Páli Jónssyni

Bláa Kannan, Akureyri

sunnudaginn 20. janúar kl. 11:00 fyrir hádegi


Ólafur Páll Jónsson heimspekingur mun standa fyrir heimspeki kaffihúsi þar sem fjallað verður um lýðræði og mannréttindi á Bláu könnunni í Hafnarstræti, klukkan 11:00 fyrir hádegi. Síðastliðið vor gaf Ólafur Páll út bókina Náttúra, vald og verðmæti (Hið íslenska bókmenntafélag 2007) þar sem hann glímir m.a. við ýmsar grundvallarspurningar um lýðræði, eignarrétt og meðferð valds.

Heimspekikaffihúsið er öllum opið og byggist á samræðu viðstaddra um tiltekið efni sem fólk hefur áhuga á að ræða. Fyrir áramót stóð Félag Áhugafólks um Heimspeki á Akureyri og Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri fyrir 6 slíkum viðburðum sem allir voru mjög fjölsóttir og urðu kveikja að áhugaverðum umræðum. Félögin ætla því á nýju ári að halda áfram með heimspekikaffihús eftir því sem tækifæri gefast.

* * *

Hugmyndin um heimspekikaffihús á rætur að rekja til morgun fundar heimspekings og nokkurra kunningja hans á kaffihúsi í París árið 1992. Róbert Jack, heimspekingur og höfundur bókar­innar Hversdagsheimspeki (Háskólaútgáfan 2006), stóð fyrir fyrsta íslenska heimspekikaffihúsinu haustið 2005. Heimspeki kaffihús er ekki háfleyg rökræða nokkurra útlærðra heimspekinga heldur heimspekileg samræða á venjulegu mannamáli. Hver sem er getur tekið þátt í henni svo framarlega sem hann er tilbúinn að hlusta á aðra og færa rök fyrir máli sínu.

Á Heimspekivef Háskóla Íslands er grein um heimspekikaffihús:
http://www.heimspeki.hi.is/?greinasafn/annad/cafe_philo

Ólafur Páll er lektor í heimspeki við Kennaraháskóla Íslands


mbl.is Ísland axli ábyrgð á eigin öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary Clinton forseti BNA 2008 og "Axarmorðingi í móðurfaðmi"

hillary

Ég spái því hér með formlega að Hillary verði forsetaframbjóðandi Demókrata í BNA í nóvember og að hún vinni nauman sigur á frambjóðanda Repúblikana, sem ég hef ekki hugmynd um hver verður, eftir spennandi og rándýra kosningabaráttu. Vonandi verður Barack Hussein Obama varaforseti þó að John Edwards sé ágætur þá er Obama stjarna. Það að Hillary hafi fellt nokkur tár sýnir bara að hún er mannleg eins og við flest (ef ekki öll:)

Það er svo afar athyglisverður fyrirlestur um allt annað mál í AkureyrarAkademíunni á fimmtudag. Hér er tilkynning um það sem verður á boðstólnum í gamla Húsmæðraskólanum:

Við minnum á fyrsta Fimmtudagshlaðborð ársins

Fimmtudaginn 10. janúar kl. 17 flytur Brynhildur Þórarinsdóttir fyrirlesturinn
„Axarmorðingi í móðurfaðmi. Uppeldisfræði Egils sögu Skalla-Grímssonar“.

Fyrirlesturinn fer fram í gamla Húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99, Akureyri.

Miðaldamenn litu ekki á börn sem sérstakan þjóðfélagshóp heldur „litla fullorðna“, fullyrti franski fræðimaðurinn Philippe Ariés fyrir nokkrum áratugum. Bernskufræðinga greinir nú mjög á um réttmæti fullyrðingar Ariés. Vissulega var íslenska miðaldasamfélagið gjörólíkt því sem við nú þekkjum en engin ástæða er þó til að halda því fram að fólk hafi litið börn öðrum augum en nú er gert. Í erindinu mun Brynhildur ræða um þá „uppeldisfræði“ sem fram kemur í íslenskum miðaldabókmenntum, sérstaklega Egils sögu.

Brynhildur Þórarinsdóttir er íslenskufræðingur og aðjúnkt við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur sent frá sér sex barnabækur og eru þrjár þeirra endursagnir á Njálu, Eglu og Laxdælu, en fyrir þær hlaut hún norrænu barnabókaverðlaunin 2007. Í fyrirlestrinum nýtir hún sér reynslu sína af matreiðslu miðaldaarfsins, barnauppeldi, bernskuvísindum, kennslufræði og karlmennskurannsóknum.

Að erindinu loknu verður boðið upp á léttar veitingar að hætti hússins.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.


mbl.is Gáfu tárin Clinton byr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best í heimi? - ekki alveg

429948AÞað eru ekki góðar fréttir að Ísland skuli hrapa niður listann í nýjustu PISA-könnuninni. Að vísu er ég hæfilega tortrygginn á allan svona samanburð en þetta eru samt skilaboð sem taka á alvarlega. Nú hafa verið kynntar tillögur og ný grunnskólalög þar sem margt horfir til bóta. Til dæmis er það jákvætt að lengja eigi kennaranámið. En þá verða laun kennara einnig að hækka. Víða er kennarastéttinni greidd mun hærri laun en hér á landi og hér hafa kennarastarfið lengi verið vanmetið. Þessu þarf að breyta.

Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur.

Þó að þetta sé ekki góðar fréttir af stöðu skólakerfisins þá eru hér tengill á frábærar femínistafréttir. Ég mæli með að allir gefi sér smá tíma til að setja sig inn í málin.


mbl.is Staða Íslands versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Margrét Pála og til hamingju öll með 1. des.

Það er mikið ánægjuefni að hugsjónakonan Margrét Pála Ólafsdóttir, skólastjóri og höfundur Hjallastefnunnar, hafi hlotið Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2007. Hún er vel að þessum verðlaunum komin. Hún hefur aukið fjölbreytni í skólastarfi og innleitt nýja sýn og hugmyndir sem oft hafa stangast á við hefðbundna stefnu og gildi. Hún er einnig mikil baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra og hún er alltaf afar jákvæð. Frábær kona.

Það eru reyndar mörg verðug verkefni sem hljóta viðurkenningu frá Velferðarsjóðnum eins og verkefnið "Adrenalín gegn rasisma" og einnig "Blátt áfram – björt framtíð" til að halda úti fræðslu fyrir skólastarfsfólk um hvernig greina megi kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og bregðast við því. Líka "Gauraflokkurinn" fyrir uppbyggingarstarf fyrir 10-12 ára drengi sem eru ofvirkir eða með skyldar hegðunarraskanir. Góð verkefni allt saman.

Til hamingju einnig með fullveldisdaginn 1. desember öll.

Ég vil svo minna á síðasta heimspekikaffihúsið á þessu ári á morgun:

„Stuðla trúarbrögðin að friði eða ofbeldi?" er spurningin sem Sólveig Anna Bóasdóttir, guðfræðingur, tekst á við með aðstoð kaffihúsgesta á Bláu könnunni, sunnudaginn 2. desember kl. 11.00. Umræðunni lýkur um kl. 12.00

 
Sólveig Anna Bóasdóttir, er með doktorsgráðu í guðfræði og siðfræði. Hún starfar við Reykjavíkur Akademíuna. Heimspekikaffið er samstarfsverkefni félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri og Félags áhugafólks um heimspeki á Akureyri. Allir áhugamenn og konur eru hvött til að fjölmenna og eiga notalega og fræðandi stund á Bláu Könnunni.
Hingað til hefur verið frábær mæting og umræðuefnið að þessu sinni er afar spennandi.  

mbl.is Margrét Pála hlaut Barnamenningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsti forseti BNA og tilgangur lífsins

444944AÞað er mikið fjör í BNA um þessar mundir. Er þetta samt ekki aðeins og langur aðdragandi fyrir forsetakosningar sem eru í nóvember á næsta ári! Frambjóðendur eru búnir að vera að hamast frá því í sumar. Skammur undirbúningur fyrir þingkosningar í Danmörku á dögunum eru hinar öfgarnar, 19 dagar eða 519. Annars er bara að vona að skárri kosturinn, það er að segja Demókratar vinni þetta og þar á bær er hún Hillary sennilega einnig skást. Kominn tími til að forseti BNA sé kona með skoðanir en ekki einhverjir trúðar með glæpamenn sem rágjafa, sem sífellt valda vonbrigðum. Annars hlakka ég til sunnudagsins þar sem fólk ætlar að velta fyrir sér grundvallarspurningum. Þórgnýr Dýrfjörð ætla nefnilega að spyrja sjálfan sig og aðra um það hver tilgangur lífsins sé? Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör kynni einhver að segja enda býst nú sennilega enginn við því að Þórgnýr sé kominn með svarið eða svörin en ef marka má síðustu tvo sunnudagsmorgna á Bláu könnunni þá verður ekki fátt um svör eða öllu heldur umræður. Þetta er skemmtilegt og hér er tilkynningin: 

Félag Áhugafólks um heimspeki á Akureyri heldur áfram með “heimspekikaffihús” á sunnudögum. Fyrstu tveir viðburður félagsins hafa tekist frábærlega en mikill fjöldi fólks hefur mætt á þá.

Næsta “heimspekikaffihús” vetrarins verður haldið næstkomandi sunnudag, 18. nóvember, á Bláu könnunni kl. 11 og lýkur kl. 12.  Fyrirkomulagið er þannig að fyrirlesari heldur stutta inngangstölu, u.þ.b. 10 mínútur, og að henni lokinni verða umræður. Að loknum umræðum tekur fyrirlesari efni þeirra saman.

Fyrirlesari í þetta skipti er Þorgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, og ætlar hann einfaldlega að fjalla um: "Hver er tilgangur lífsins?".

Dagskráin fram að jólum er sem hér segir (á sama stað og sama tíma):

Sunnudaginn 25.nóv. Páll Skúlason

Sunnudaginn 2.des. Hjalti Hugason

Félagið vill hvetja alla áhugamenn og konur til að fjölmenna og eiga notalega og fræðandi stund á Bláu Könnunni.

Félag Áhugafólks um heimspeki á Akureyri


mbl.is Clinton þótti standa sig vel í kappræðum í Las Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir á teikniborðinu

Sudavik

Hlutirnir varðandi stóra REI málið eru að skýrast og ánægjulegt að Sjálfstæðismenn eru að sjá að sér, það vantar bara Villa í hópinn. Svandís Svavarsdóttir hefur stýrt þessari upplýsingarvinnu af mikilli röggsemi og auðvitað á að halda áfram að nýta þann mannauð og þekkingu sem skapast hefur innan OR til góðra verka erlendis. Það á hinsvegar ekki að afhenda auðmönnum enn einu sinni á silfurfati auðlindirnar okkar og það er ánægjulegt. Um næst helgi verður haldið vetrarþing Framtíðarlandsins á Ísafirði þar sem nýsköpun og annarskonar auðlindir verða á dagskrá. Vestfirðir hafa verið afskiptir hvað varðar hagvöxt og áherslur stjórnvalda í atvinnumálum en fólkið fyrir vestan hefur sýnt að þau ætla ekki að gefast upp enda hafa Vestfirðir upp á svo margt að bjóða. Þetta er spennandi dagskrá og hér er tilkynning frá Framtíðarlandinu:


Vestfirðir á teikniborðinu
Vetrarþing Framtíðarlandsins


Edinborgarhúsinu, Ísafirði
Laugardaginn 10. nóvember

Í þröngum fjörðum Vestfjarðakjálkans hafa Íslendingar í hundruð ára lifað í sambýli við myrkur, einangrun og óútreiknanleg náttúruöfl. Í gegnum þá sögu hafa Vestfirðingar tileinkað sér atgervi, ósérhlífni og þor sem á sér fáa líka. Þessir eiginleikar sjást hvergi skýrar en í öflugu nýsköpunarstarfi í atvinnumálum Vestfjarða.

Í byrjun nóvember efnir Framtíðarlandið til Vetrarþings undir yfirskriftinni „Vestfirðir á teikniborðinu“ þar sem sest verður á rökstóla um stöðu nýsköpunar á Vestfjörðum. Á þinginu mun Framtíðarlandið leiða saman sérfræðinga á sviði nýsköpunar og fremstu eldhuga vestfirsks atvinnulífs.

Um er að ræða tímamótaviðburð fyrir alla sem láta sig vestfirsk atvinnumál varða. Þingið fer fram í Edinborgarhúsinu laugardaginn 10. nóvember, milli 9 og 17. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn, en þátttakendur skulu tilkynna komu sína á netfangið johanna.k.magnusdottir(hjá)gmail.com

Dagskránna má lesa á heimasíðu Framtíðarlandsins: http://framtidarlandid.is/vetrar-ing

Þingstjóri er Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

9:00 Þingstjóri setur þingið

Morgunþing: Nýsköpun í verki

9:10 Efnahagsleg velferð borga og bæja | Sigmundur Davíð Gunnlaugsson opnar morgunþingið með erindi

9:35 Sjóstöng í Sókn | Elías Guðmundsson fjallar um sjóstangveiði á Vestfjörðum

9:55 Er eitthvað á fólkinu að græða? | Helga Vala Helgadóttir ræðir um menningar- og atvinnulíf á Vestfjörðum

10:20 Kaffihlé


Morgunþing: Nýsköpun í verki frh.

10:40 Kynngikraftur Náttúrunnar | Aðalbjörg Þorsteinsdóttir flytur erindi um Villimey ehf.

11:05 Strandagaldur | Sigurður Atlason fer yfir sögu Galdrasýningar á Ströndum og framtíðarsýn.

11:30 Sigmundur Davíð tekur fyrirlestra saman og stjórnar umræðum

12:15 Hádegisverður

13:00 Tónlistaratriði | Tríó Kristjáns Hannessonar, Hrólfur Vagnsson og Haukur Vagnsson

13:30 Viðburðir í Ísafjarðarbæ og ímynd bæjarins í máli og myndum | Rúnar Óli Karlsson

13:45 Framtíðarsýn í heimabyggð | Steinþór Bragason

14:10 Ímynd og ásýnd Vestfjarða | Sverrir Björnsson hjá Hvíta húsinu

Kl. 14:35 - Kaffihlé


Eftirmiðdagspallborð: Auðlind sérstöðunnar
15:00 Björg Eva Erlendsdóttir opnar eftirmiðdagsþingið og stýrir pallborði:
    •     Peter Weiss | Háskólasetur Vestfjarða – Ísafirði
    •     Alda Davíðsdóttir | Sjóræningjahúsið – Patreksfirði
    •     Guðmundur Guðjónsson | Kalkþörungaverksmiðjunni – Bíldudal
    •     Harpa Grímsdóttir | Veðurstofu Íslands – Snjóflóðasetur Ísafirði
    •     Arthúr Bogason | Félag smábátaeigenda


 16:00 Lokaorð | Ólafur Sveinn Jóhannesson

 16:30 Þingstjóri tekur þingið saman og slítur því

Kvöldverður hefst klukkan 19:30 á veitingastaðnum Við Pollinn á Hótel Ísafirði. Matseðill er svohljóðandi:
    •     Steiktur saltfiskur á seljurótarmauki með tómatsultu
    •     Léttsteiktar nautalundir með kartöflupressu og madeiragljáa
    •     Jarðarberja- og vanillufrauð með pistasíuís
    •     Te eða kaffi



mbl.is Þurftum að taka afstöðu því tíminn var að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stafar illmennska undantekningalaust af fáfræði eða geðsjúkdómi?

kkmynd2005Þetta hefur verið afar skemmtileg helgi hér fyrir norðan. Í gær var haldið afar fróðlegt og skemmtilegt haustþing AkureyrarAkademíunnar um Sauðkindarseið í ull og orðum. Ég náði samt ekki að hlusta á öll erindin en það var góð mæting í gamla Húsmæðraskólann og á eftir var boðið uppá veisluborð með afurðum úr sauðkindinni framreitt af Halastjörnunni og það var ljúffengt. Svo opnaði Birgir Sigurðsson frábæra sýningu á Karólínu um "Hugmynd að leið rafmagns". Í morgun var svo haldið fyrsta heimspekikaffihúsið á Bláu könnunni og þar fór Kristján Kristjánsson á kostum og afar áhugaverðar umræður sköpuðust. Það var fullt hús og gaman að sjá hvað það var fjölbreyttur hópur af fólki sem kom og tók þátt í umræðunum. Ég hlakka til næsta sunnudags þegar Oddný Eir Ævarsdóttir kemur með fyrirlestur. Hér er tilkynningin frá Félag Áhugafólks um heimspeki á Akureyri:

Félag Áhugafólks um heimspeki á Akureyri ætlar að hefja vetrarstarf sitt á því að halda “heimspekikaffihús” á sunnudögum. Starfi félagsins hefur verið sýndur mikill áhugi en í fyrra var haldin afar vel heppnuð fyrirlestraröð um dauðasyndirnar sjö sem var og mjög fjölsótt. Stefnt er því að hafa fjölbreytta og áhugaverða dagskrá til að mæta þeim áhuga sem fólk hefur sýnt viðburðum félagsins.

Fyrsta “heimspekikaffihús” vetrarins verður haldið næstkomandi sunnudag, 4. nóvember, á Bláu könnunni kl. 11 og lýkur kl. 12. Fyrirkomulagið er þannig að fyrirlesari (philaca) heldur stutta inngangstölu, cirka 10 mínútur, og að henni lokinni verða umræður. Að loknum umræðum tekur fyrirlesari efni þeirra saman.

Fyrstur til að ríða á vaðið verður Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, en erindi hans ber heitið: Stafar illmennska undantekningalaust af fáfræði eða geðsjúkdómi?

Dagskráin fram að jólum er sem hér segir (á sama stað og sama tíma):

Sunnudaginn 11. nóv. Oddný Eir Ævarsdóttir

Sunnudaginn 18. nóv. Páll Skúlason

Sunnudaginn 25. nóv. Valgerður Dögg Jónsdóttir

Sunnudaginn 2. des. Hjalti Hugason

Félagið vill hvetja alla áhugamenn og konur til að fjölmenna og eiga notalega og fræðandi stund á Bláu Könnunni..

Félag Áhugafólks um heimspeki á Akureyri


Sauðkindarseiður í ull og orðum

akakÁ laugardaginn verður haldið afar forvitnilegt haustþing AkureyrarAkademíunnar. Þar verða kindur í aðalhlutverki og margir spennandi fyrirlestrar og umræður. Hér er dagskráin öll:

Haustþing AkureyrarAkademíunnar   

Sauðkindarseiður í ull og orðum

Haldið í AkureyrarAkademíunni, Þórunnarstræti 99

laugardaginn 3. nóvember kl.13:00 – 19:00

Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar er forystusauður þingsins
 
13:00   Setning  - Viðar Hreinsson og Valgerður H. Bjarnadóttir
      Tónlist: Þór Sigurðarson og Georg Hollander
13:15   Íslenska ókindin: Bar sauðféð ábyrgð á landeyðingunni?
      – Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur
14:00   Sauðfé og seiður
      – Jón Jónsson, þjóðfræðingur  
14:30  Blessuð sauðkindin
      – Guðrún Hadda Bjarnadóttir, listakona og formaður Laufáshópsins
15:00   Kaffihlé, sýning á handverki, áhöldum og fatnaði af sauðkindinni, kynningar  og spjall
15:45   Óður til sauðkindarinnar
      – Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi Lóni
16:15   Fólk og fénaður til framtíðar
      – Jóhanna Pálmadóttir, sauðfjárbóndi Akri
16:45   Pallborð með þátttöku fyrirlesara
17:30   Almennar umræður og lokaorð
18:00   Haustblót  – gómsætir smáréttir seiddir fram úr sauðfé – Umsjón Halastjarnan

Þingið er öllum opið endurgjaldslaust

Gott er að skrá sig með því að senda póst á netfangið stjorn@akureyrarakademian.is

Nánari upplýsingar á www.akureyrarakademian.is


Eitt ár á Moggablogginu, tvær nýjar kannanir og Al Gore

421298AÞað er mikill hátíðisdagur hjá mér hér í Berlín. Ekki vegna þess að þvottavélin okkar var rétt í þessu úrskurðuð svo gott sem ónýt heldur vegna þess að í dag er eitt ár frá því að ég flutti mig yfir á Moggabloggkommúnuna eftir stutta byrjun á öðru bloggi. Svo er maður enn í hátíðarskapi yfir nýja meirihlutanum í Borginni og því að vera laus við frjálshyggjuíhaldið. Það á auðvitað ekki að hlakka í manni yfir óförum annarra en hvað er annað hægt þegar maður horfir uppá gamla gengið og félaga þeirra eins og Sigurð Kára, Björn Bjarna, Villa fyrrverandi og Gísla M. og hin fara hamförum í bræði og láta út úr sér hluti sem erum svo vandræðalegir að annað eins hefur ekki heyrst lengi, ekki einu sinni hér á blogginu!

Ég er búinn að setja inn tvær nýjar kannanir á síðuna og í annarri er spurt hvernig fólki lítist á nýju borgarstjórnina? Og í hinni hvort Bjarni Ármannsson eigi að skila hlutabréfunum í REI? Ég hvet alla til að taka þátt og segja sína skoðun. Í síðustu könnun spurði ég hvort Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eigi að segja af sér sem borgarstjóri? Hátt í 300 manns svöruðu á nokkrum dögum og "já" sögðu 86%, 11% sögðu "nei", 1% sagði "kannski", 1% "veit ekki" og 1% var "alveg sama". Afgerandi meirihluti fékk ósk sína uppfyllta þó að Villi hafi sjálfur ekki séð sóma sinn í að segja af sér þá virkaði allavega lýðræðið. Það getur maður svo þakkað Svandísi Svavarsdóttur sem hefur staðið sig eins og hetja og mun gera það áfram. Gömlu könnuninni þar sem spurt er um nafn á Ríkisstjórnina ætla ég að leyfa að vera aðeins lengur því þar eru spennandi hlutir að gerast. Til að byrja með var "Baugsstjórnin" vinsælast með 35% en hefur nú lækkað í 27,2% og "Þingvallastjórn" hefur einnig dalað úr 30% í tæplega 26,7%. Nafngiftin "Viðhaldið" hefur hinsvegar aukist mikið eða úr 10% í 20% og einnig hefur þeim fjölgað sem segja að hún heiti "Ekkert" úr 5% í 13%. "Framfarastjórn" og "Sáttastjórn" hefur aldrei átt miklu fylgi að fagna í þessari könnun.

Maður hefur varla við að óska fólki til hamingju með hitt og þetta hér á síðunni. Þjóðverjar eru afa stoltir af sínum vísindamönnum sem fengu Nóbelsverðlaun sinn hvorn daginn fyrir eðlisfræði og efnafræði. Doris Lessing hlaut bókmenntaverðlaunin verðskuldað og svo núna sjálfur "fyrrverandi næsti forseti Bandaríkjanna" eins og Al Gore kynnti sjálfan sig gjarnan. Til hamingju með það. Þessi úthlutun verður sennilega ekki til að kæta frjálshyggjuliðið sem er á fullu í afneitun á því að við mannfólkið og allur iðnaðurinn höfum eitthvað með hlýnun jarðar að gera. Hannes Hólmsteinn er sennilega miður sín í dag og mun seint jafna sig. En verðlaunin til Al Gore og lofslagsnefndar SÞ eru góðar fréttir fyrir umhverfisverndarsinna. Til hamingju öll!

Það eru komnar næstum 90.000 heimsóknir á bloggsíðuna mína og stóra talan kemur sennilega í dag og sá sem kvittar hérna og bætir við tölunni sem verður næst 90.000 fær afmælisgjöf frá mér senda í pósti (alvörupósti).


mbl.is Al Gore og loftslagsnefnd SÞ hljóta friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvinbíll frá Toyota og gasbílar frá Fiat minnst skaðlegir umhverfinu

toyota_1.531446Það er ef til vill einkennilegt að að tala um "græna bíla" eða "umhverfisvæna bíla" en gott hjá Svisslendingum og mbl.is að benda á lista yfir þá bíla sem hafa minnst umhverfisáhrif í akstri. 6000 bílar eru teknir fyrir og niðurstaðan er sú að tvinnbíllinn (gengur fyrir bensíni og rafmagni) Toyota Prius er sá minnst skaðlegi umhverfinu. Fast á hæla honum koma bílar sem knúnir eru gasi frá Fiat, Fiat Panda og Fiat Punto. Skásti díselbíllinn er VW Polo en hann lendir í 12. sæti. Á svarta listanum eru svo bílar sem íslendingar kannast vel við: Nissan Patrol, Ford Transit og fleiri díselhákar. Nú geta þeir sem neyðast til að aka um á bíl allavega valið skárri bíla en þassa jeppa sem ekkert gera annað en að taka of mikð pláss og menga allt of mikið. Góð auglýsing fyrir Toyota Prius og ætti að vera öðrum bílaframleiðendum hvatnig til að gera enn betur.

Greinin í Neue Züricher Zeitung 

Hér er svo tengill í töflu yfir skástu bílana og þá verstu.


mbl.is Prius grænasti bíllinn á lista Svisslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband