Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

Gullpálminn til Rúmeníu

Cristian.MungiuÞað mætti halda að þetta væri samsæri austurblokkarinnar. Allt svindl og svanárí...? Reyndar ekki, frekar en annarsstaðar, heldur er myndin 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile (4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar) sennilega bara afar góð mynd og á þennan Gullpálma fyllilega skilinn. Til hamingju Cristian Mungi með myndina og pálmann. Myndin gerist í Rúmeníu seint á níunda áratugnum segir frá tveimur vinkonum sem leita allra leiða til að koma annarri þeirra í ólöglega fóstureyðingu. Löng skot einkenna víst myndina og eru hennar aðal sjarmi auk aðalleikkonunnar, Anamaria Marinca, sem heldur myndinni uppi með mögnuðum en hófstilltum leik samkvæmt lýsingum Birtu Björnsdóttur í Cannes. Aðdráttarafl myndarinnar felst ekki síður í þeirri yfirvofandi eymd sem áhorfandinn skynjar allan tímann án þess að verið sé að velta sér uppúr því dapurlega. Umsögn tyrkneska rithöfundarins og Nóbelsverðlaunahafans Orhan Pamu lofar góðu en hann segir „Þetta er alveg ótrúlega falleg mynd og maður naut hverrar sekúndu við að horfa á hana. Við vorum næstum öll á einu máli um, að þetta væri besta mynd hátíðarinnar.”
Vonandi fáum við að sjá myndina hér uppfrá fljótlega sem kærkomna hvíld frá Hollywoodvellunni. Mig langar auðvitað líka til að sjá myndina No Country For Old Men þeirra Coen bræðra en mér fannst ansi slappt af þeim að mæta ekki á lokaathöfnina þó að þeir hafi ekki hlotið gullið að þessu sinni. En kannski komust þeir bara ekki eða vissu ekki að Jane Fonda myndi mæta til að afhenda verlaunin og fara í smá leikfimi. Synd að missa af þessu.


mbl.is Fagnað þegar tilkynnt var að gullpálminn færi til Rúmeníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskriftarsýning nemenda Myndlistaskólans á Akureyri opnar í dag, laugardag klukkan 14

mynd_list

Þrítugasta og þriðja starfsári Myndlistaskólans á Akureyri lýkur með veglegri sýningu á verkum nemenda í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16. Sýnd verða verk nemenda fornámsdeildar, listhönnunar- og fagurlistadeildar. Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári.

Eftirtaldir nemendur útskrifast úr sérnámsdeildum skólans: Aðalbjörg Kristjánsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Charlotta Þorgils, Sigurlín Margrét Grétarsdóttir, Steinn Kristjánsson, Steinunn Ásta Eiríksdóttir, Sveinbjörg Ásgeirsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Hjalti Jónsson, María Hafsteinsdóttir og Petra Sæunn Heimisdóttir.

Einnig verða sýnd verk eftir nemendur sem voru á barna- og unglinganámskeiðum á vorönn. Allir eru hjartanlega velkomnir í Myndlistaskólann á Akureyri um helgina. Sýningin verður opin kl. 14 til 18 laugardaginn 19. maí og sunnudaginn 20. maí.

Hér er svo glæsileg heimasíða skólans. Þar má meðal annars fá allar upplýsingar um skólann, umsóknarblöð og sjá útskriftarverk Eyrúnar Eyjólfsdóttur frá því í fyrra sem var svo tilnefnt til Eddu verðlaunanna 2007.


Hugmyndir fyrir Sjónlistaverðlaunin

Sjonlist2007_2mai

Það var ansi gaman í Ketilhúsinu í gær það sem tilkynnt var um tilnefningar til Sjónlistaverðlaunanna 2007. Það hefði gjarna mátt vera fleiri viðstaddir en það voru ekki allir sem vissu af því að til stæði að tilkynna þetta með formlegum hætti og opnu húsi í gær.

Ljómandi veitingar, óáfengur mysudrykkur frá Friðriki V og smáréttir úr héraði í hádeginu. Ráðherranir voru ekki á staðnum eins og í fyrra enda sennilega mikilvægari fundir á dagskránni hjá þeim en þeirra í stað mættu sponsorarnir.

Þetta eru fínar tilnefningar bæði fyrir hönnun og myndlist eða eins og segir á mbl.is:

 biggiÍ umsögn dómnefndar um myndlistarmennina segir m.a. að Birgir Andrésson sé tilnefndur "fyrir einstakt framlag til könnunar á íslenskri menningu og sambandi sjónrænnar skynjunar og merkingu texta. List Birgis er allt í senn, hnitmiðuð, einföld og margslungin, eins og glöggt kemur fram í verkunum Black–out og Build sem voru unnin sérstaklega fyrir afar vandaða yfirlitssýningu Listasafns Íslands á verkum hans á síðasta ári. Black-out er málað í gulum litatónum á kolsvartan grunn. Verkið er eitt af textaverkum Birgis, þar sem hann málar setningar með prentletri á einlitan grunn. Black – out er augljóst og beinskeytt og kallar strax fram í huga áhorfandans ákveðna tengingu við íslenska drykkjusiði, þótt merkingin taki á sig flóknari mynd við nánari skoðun. Annað nýtt verk á sýningunni er öllu margræðara við fyrstu sýn, en það er verkið Build, sem samanstendur af sundurskornum pappakössum. Hér liggur alls ekki í augum uppi að verið sé að fjalla um texta, en verkið á sér rætur í persónulegri reynslu Birgis og samskiptum hans við blinda í æsku."

 keliHrafnkell Sigurðsson fyrir ljósmyndaröðina Áhöfn sem sýnd var fyrst á sýnungunni Eiland í Gróttu og olíuverkin Afhafnasvæði sem sýnd voru í Gallerí Suðsuðvestur.
Úr umsögn dómnefndar
Ljósmyndaröðina Áhöfn og olíuverkin Afhafnasvæði sem varpa nýju ljósi á íslenska sjómenn og karlmennsku. Í ljósmyndaröðinni Áhöfn sem birtist fyrst á sýningunni Eiland í Gróttu síðastliðið sumar dregur Hrafnkell fram nýja og ferska sýn á skærlita íslenska sjómannastakka og þar með íslenska karlmennsku. Litsterkar og glansandi ljósmyndirnar eru nánast „of fallegar“ og grípandi í grófleika sínum en fá aðra vídd þegar þær eru skoðaðar í samhengi við Afhafnasvæði. Síðara verkið samanstendur af kolsvörtu óræðu mynstri á pappír unnið með hjálp áhafnarinnar úr olíu úr tunnum sem voru hluti af sýningu á verkunum í Gallerí Suðsuðvestur síðastliðið haust. Saman mynda þessi tvö verk sterkar andstæður sem styrkja hvor aðra."

 heklaOg Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Fossinn, röð verka í skammdegissýnunginni Ljósaskipti og Fire, Fire, Fire. "Fyrir fersk, fínleg og blæbrigðarík verk unnin úr „litlum efnum“ sem er ætlað að lýsa upp umhverfið og skerpa skilningarvitin. Fossinn, röð verka á skammdegissýningunni Ljósaskipti og Fire, Fire, Fire eru dæmi um slík verk. Fossinn er unninn fyrir samnefnda sýningu á Kjavalsstöðum fyrr á þessu ári. Hann er gerður úr fínlegum  plaststöngum með útfjólubláum ljósleiðurum sem tengdir eru við víra og snúrur í sambandi við tölvuviftur sem skapa hljóðmynd fossins. Verkið er svo brothætt á að horfa að það virðist geta hrunið niður á hverri stundu og leiðir hugann að þeirri hættu sem hinir náttúrulegu  fossar landsins eru í. Samt er það ekki síður birtan, útfjólubláa ljósið sem dregur að sér athygli. Birtingarmyndir birtu og ljóss í skammdeginu hafa verið Heklu hugleiknar undanfarið, ýmist í tengingu við vatn og flæði, eins og á sýningunum Foss og Ljósaskipti í Kling og Bang, eða í tengslum við eld og fljúgandi skrautelda í verkinu Fire, Fire, Fire, sem hún sýndi nýverið í Los Angeles, eftir að hafa sýnt það fyrst á Íslandi. Endurtekningin í titli verksins kallast á við flugeldaskotgleði Íslendinga um áramótin en sjálft verkið virkar eins og raunverulegir flugeldar, þar sem marglit ljósin kvikna og slökkna fyrir áhrif frá upptöku af hljóðum af raunverulegum flugeldum. " 

Þetta eru flottir fulltrúar og ég er búinn fyrir mitt leiti að útnefna Bigga Andrésar verðlaunahafa að Heklu og Kela algerlega ólöstuðum.

Fyrir hönnun eru þrjú fyrirtæki tilnefnd; Nikita (Heiða Birgisdóttir) fyrir snjóbrettafatnað, Studio Granda (Margrét Harðardóttir og Steve Christer) fyrir viðbyggingu við Vogaskóla í Reykjavík og íbúðarhús á Hofi á Höfðaströnd og Össur fyrir gervifótinn Proprio Foot. 

Á heimasíðu Akureyarbæjar er nánar sagt frá Sjónlistaverðlaununum  

Annars  er ég með frábæra hugmynd til að hafa aðeins meira fútt í þessum verðlaunum (og til að það séu meiri líkur á að maður verði einhverntíma tilnefndur!)  Það er að hafa þetta eins og á Eddunni og Grímunni, tónlistarverðlaununum og öllum þessum verðlaunum. Það eru gerðar ca. þrjár kvikmyndir á ári hérlendis en samt eru veitt verðlaun í helling af flokkum svo allir fái eitthvað og sumir margar Eddur! Í myndlistinni væri hægt að veita fleiri verðlaun eins og:

Fyrir bestu sýninguna á Íslandi

Fyrir bestu sýninguna erlendis

Fyrir bestu einkasýninguna

Fyrir bestu þátttökuna í samsýningu

Fyrir skemmtilegustu sýninguna

Fyrir bestu sýningarskrána

Fyrir besta gjörninginn

Fyrir besta málverkið

Fyrir besta hljóðverkið

Fyrir besta skúlptúrinn

Fyrir besta grafíkverkið

og svo mætti lengi telja og auðvitað einnig:

Fyrir bestu sýningarstjórnina

Fyrir besta safnstjórann

Fyrir bestu fjölmiðlaumfjöllunina

og svo framvegis og framvegis... Ég sé að þetta getur orðið heil verðlaunanótt með lengri sjónvarpsútsendingu en Óskarinn fyrir westan. Er ekki bara að stökkva á þetta?


mbl.is Sex tilnefningar til Sjónlistaverðlaunanna 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggun breska varnarmálaráðuneytisins

indipendent

Þöggunartilraunir breska varnarmálaráðuneytisins á verki listamannsins Steve McQueen er ekki fyrsta tilraun yfirvalda til að hefta málfrelsi og tjáningarfrelsi listamanna sem og almennra borgara. Sorglegt að þetta sé aftur og aftur að koma upp. Þetta mál er tilefni til langra skrifa en ég hef bara ekki tíma núna en bendi ykkur á umjöllun The Independent og viðtal við Steve McQueen í tilefni hinna virtu Turner verðlauna sem hann hlaut árið 1999. Hér er greinin öll á mbl.is:

"Varnarmálaráðuneyti Bretlands reyndi að stjórna gjörðum breska myndlistarmannsins og Turner-verðlaunahafans Steve McQueen þegar hann var að gera myndlistarverk sem tengdust Íraksstríðinu fyrir myndlistarhátíð sem nú stendur yfir í Manchester. McQueen segir varnarmálaráðuneytið hafa gert sér erfitt fyrir og neitað honum um upplýsingar um fjölskyldur hermanna sem féllu í Írak og ekki viljað leyfa honum að ræða við þær. Embættismenn þar á bæ hafi spurt hann hvort hann gæti ekki gert landslagsmálverk í staðinn.

Verkið heitir For Queen and Country og eru frímerki unnin úr fjölskyldumyndum 100 fallinna, breskra hermanna sem voru við störf í Írak. McQueen segist hafa verið tvö ár að vinna verkið fyrir Konunglega hersafnið í Bretlandi, sem styrkti hann til þess.

Steve.McQueen

98 fjölskyldur fallinna hermanna unnu með McQueen að verkinu. Forstöðumaður breska póstsins, Royal Mail, hefur neitað beiðni McQueen um að fjöldaframleiða frímerkin sem söfnunargripi til minningar um fallna hermenn. Á forsíðu Independent í dag er frímerki með mynd af hermanninum John Jones, en móðir hans veitti blaðinu heimild til að nota myndina á forsíðu."


mbl.is Varnarmálaráðuneyti Breta hindraði störf myndlistarmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins Martin Scorsese og Al Gore

martin inconvenient_truth

Það var heldur betur kominn tími til að Martin Scorsese fengi hinn eftirsótta Óskar (e.Oscar:) og sannarlega gaman að Al Gore myndin Óþægilegur sannleikur (e. An Inconvenient Truth) fengi verðlaun sem besta heimildarmyndin. Þjóðverjar eru að rifna úr stolti (ef það er þá hægt) fyrir að myndin Líf annarra (þ. Das Leben der Anderen) fengi Óskar gamla gull frænda. Der Spiegel segir svo frá hér. Hér er annars fréttin af mbl.is.

"Kvikmyndin The Departed í leikstjórn Martin Scorsese fékk Óskarsverðlaunin í ár sem besta myndin, þá fékk breska leikkonan Helen Mirren verðlaun sem besti kvenleikarinn fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni The Queen. Forest Whitaker hlaut hins vegar verðlaunin í flokki karlleikara fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í kvikmyndinni The Last King of Scotland.
Scorsese hafði áður verið tilnefndur fimm sinnum fyrir kvikmyndir sínar, en þetta eru fyrstu Óskarsverðlaunin sem hann hlýtur.
Þá var tónskáldið Ennio Morricone heiðraður fyrir ævistarf sitt við gerð kvikmyndatónlistar,
Bandaríska leik- og söngkonan Jennifer Hudson fékk Óskarinn fyrir leik í aukahlutverki fyrir myndina Dreamgirls og Alan Arkin fékk einnig verðlaun fyrir besta leikinn í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína í myndinni Little Miss Sunshine. Myndin An Inconvenient Truth, sem Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, gerði um umhverfismál, var valin besta heimildarmyndin. Þýska myndin Das Leben der Anderen var valin besta erlenda myndin en myndin Pan's Labyrinth, sem keppti einnig í þeim flokki, fékk verðlaun fyrir förðun og listræna stjórnun. Tölvuteiknimyndin Happy Feet var valin besta teiknimyndin."


mbl.is Scorsese fékk loks Óskarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyf sem læknar allt

havidol

Verk Justin Cooper sem sýnt er í Daneyal Mahmood galleríinu í New York hefur vakið mikla athygli. Svo mikla að mbl.is hefur skrifað um verkið (en gleymdi að vísu að minnast á hver væri listamaðurinn). Þetta er auglýsingaherferð fyrir nýtt lyf sem á lækna alla dæmigerða "sjúkdóma" sem við þjáumst af, stress, öldrun, örvænting og svo framvegis. Sem sagt lyf sem mun slá í gegn í neysluþjóðfélaginu okkar. Hér er vesíða lyfsins góða og hér er umfjöllun um sýninguna. Skemmtilegt að í vörumerki lyfsins HAVIDOL kemur tákn sem er ansi líkt merki Skjás eins fyrir.


mbl.is Þegar mikið er ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aki Kaurismaki hundsar Bush

kaurismaki

Aki Kaurismaki er flottur og samkvæmur sjálfum sér þegar hann segist ekki mæta til Hollywood þrátt fyrir að nýjasta myndin hans "Lights of the Dusk" sé tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Á mbl.is segir:

Finnski kvikmyndagerðarmaðurinn Aki Kaurismaki hefur neitað að senda nýjustu kvikmynd sína í forval til Óskarsverðlauna í mótmælaskyni við stefnu George Bush Bandaríkjaforseta í utanríkismálum. Finnska kvikmyndastofnunin valdi mynd hans, Lights of the Dusk, sem framlag Finna til verðlaunanna, en Kaurismaki neitaði að senda myndina í forvalið og því munu Finnar ekki senda neina mynd til verðlaunanna í ár.

the.man.without.a.past

„Þegar The Man without a Past var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2002 ákváð Aki að mæta ekki til verðlaunanna í mótmælaskyni við það sem var að gerast í heiminum á þeim tíma, og í mótmælaskyni við stjórnvöld í Bandaríkjunum,“ sagði Ilkka Mertsola, aðstoðarmaður Kaurismaki. „Ekkert hefur breyst síðan þá og þess vegna sér hann sér ekki fært að taka þátt í hátíðinni að þessu sinni.“

leningradcowboys_goamerica

Þetta hefur vakið heimsathygli og það er gott hjá Aki. Leikarar og kvikmyndagerðarfólk í Hollywood hafa sem betur fer verið dugleg að gagnrýna stríðsglæpi bandaríkjaforseta og Aki undirstrikar það með því að nenna ekki einu sinni að mæta á staðinn. Leningrad Cowboys fara semsagt ekki til Ameríku fyrr en Bush er farinn og BNA hætt að ráðast á önnur ríki. Plús í kladdann fyrir þennan kvikmyndasnilling.

 


mbl.is Kaurismaki sendir ekki mynd á Óskarinn í mótmælaskyni við Bandaríkjastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.