Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Greinar

Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Bubbi Morthens söng fyrir nokkrum árum um hvort það væri nauðsynlegt að drepa þessar stóru skepnur og svarið er auðvitað nei, það er ekki nauðsynlegt og reyndar frekar heimskulegt. Öll rök segja okkur að á þessum tímum er það afar óhagstætt fyrir þjóðfélagið að skapa okkur enn meiri óvild en orðið er.

- Markaðir fyrir fisk eru í hættu.

- Þetta bitnar á ferðamannaiðnaðinum.

- Hvalveiðar eru ekki skynsamlegar fyrir hvalaskoðun sem hefur blómstrað á síðustu árum.

- Það er enginn markaður fyrir þetta kjöt, ekki einu sinni í Japan.

Skoðum hval en skjótum þá ekki. Sá eini sem græðir á hvaladrápi er Kristján nokkur Loftsson og félagar hans.

Ég hef auðvitað fullan skilning á því að fólk fái vinnu við að skera hval og reyndar eru þarna góðir vinir mínir þarna í forsvari eins og Þórarinn Blöndal og fleiri ljómandi myndlistarmenn. Reyndar var skemmtilegt að það voru einmitt tveir myndlistarmenn og hvalskerar, þeir Þórarinn Blöndal og Gunnar Andrésson sem voru fengnir í viðtal í sjónvarpsfréttum á ruv í gær þar sem þeir biðu eftir fyrstu hvölunum.


mbl.is Risavaxinn morgunverður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19 ára spilling og græðgivæðing á endastöð?

Það kemur í ljós á næstu dögum hvort Framsókn í Kópavogi hafi þann kjark sem þarf til eða öllu heldur þann dug sem þarf til að vera heiðarlegur flokkur sem vill losna úr klóm spillingarinnar. Helmingaskiptin í Kópavogi, einkavinavæðingin, verktakavaldið og bruðlið er það sem hefur einkennt rekstur bæjarfélagsins frá því að Gunnar Birgisson kom þar að. Vonandi er því tímabili lokið en það er í höndunum á Framsókn. Taprekstur bæjarins á síðasta ári ætti að duga til að fella þennan meirihluta en það er ekkert sjálfgefið. Sjálfstæðisflokkurinn er t.d. með hreinan meirihluta í Reykjanesbæ þó að það bæjarfélag sé fyrir löngu tæknilega gjaldþrota.

Það þarf að taka til í Kópavogi, velta við steinum og fletta ofan af spillingunni. Það er kominn tími til. Íbúar Kópavogs eiga það skilið. 

Úr Kastljósi í gær:

"Fyrirtæki sem er í eigu dóttur bæjarstjórans í Kópavogi fékk greiddar þrjár og hálfa milljón króna fyrir afmælisrit bæjarins sem koma átti út árið 2005. Ritið sem er enn ekki komið út liggur óklárað á bæjarskrifstofunum. Fyrirtækið hefur verið í milljónatugaviðskiptum við Kópavogsbæ á þeim tíma sem Gunnar hefur gengt þar æðstu stöðum sem sjaldnast fara fram í kjölfar útboðs. Bæjarstjórinn sjálfur kvartar undan ofsóknum í sinn garð og dóttur sinnar og fagnar frekari skoðun. Þungt er í samstarfsmönnum hans í Framsóknarflokknum í Kópavogi en þeir sitja nú á fundi vegna málsins..."


mbl.is Ræddu hugsanleg meirihlutaslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til að byggja upp

Við stöndum á tímamótum. Framundan eru sennilega einar mikilvægustu kosningar í sögu landsins. Við fáum tækifæri til að velja okkur fulltrúa á Alþingi á erfiðum tímum. Og það er verk að vinna. Eftir 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins ýmist með krötum eða Framsóknarflokki rambar þjóðin á barmi gjaldþrots. En nú eru þeir sem steyptu okkur í gífurlegar skuldir, atvinnuleysi, óðaverðbólgu og óöryggi farnir frá og fólk komið sem raunverulega er að takast á við enduruppbyggingu.

Krafa um virkt lýðræði
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 1.-3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hér í NA-kjördæmi. Ég var varaþingmaður Steingríms J. Sigfússonar og Þuríðar Backman árin 2003-2007 og hef ávalt átt afar góð samskipti við þau og styð þau heilshugar. Ég er ekki að bjóða mig fram gegn neinum heldur er það lýðræðislegur réttur fólks að fá að raða á lista. Ég tók fjórum sinnum sæti á þingi og lagði þá áherslu á stuðning við Háskólann á Akureyri, lagði fram þingsályktunartillögu um gerð Vaðlaheiðagangna og mælti með lengingu flugbrautarinnar á Akureyri og uppbyggingu ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Einnig lagði ég fram tillögu um að allir sem orðnir eru 16 ára fái kosningarétt líkt og gert hefur verið í nokkrum Evrópulöndum með góðum árangri. Það þarf að virkja unga fólkið og auka fræðslu um lýðræði í grunn- og framhaldsskólum. Skapa virka umræðu og beina þátttöku fólks í ákvarðanatöku.

Ótæmandi tækifæri
Hér á svæðinu eru margir möguleikar til atvinnuuppbyggingar. Við eigum að leggja aukna áherslu á ferðaþjónustu allt árið með beinu flugi til Evrópu. Landbúnaður og vistvæn ræktun grænmetis gæti blómstrað ef orkuverð yrði fært til samræmis sem það álverin eru að borga. Við eigum fjölda möguleika í sjávarútvegi með áherslu á smábátaútgerð og vistvænar veiðar. Grundvallarforsenda er að kvótinn færist aftur í hendur þjóðarinnar og fari á markað en sé ekki eign fárra. Tækifæri okkar í nýtingu á orku t. d. í þekkingariðnaði og hátækni eru einnig óþrjótandi.
Ég er tilbúinn að leggja mitt fram til að byggja upp kraftmikið og réttlátara þjóðfélag. Nánari upplýsingar um stefnumál mín eru á www.hlynur.is og hægt er að ganga til liðs við Vinstri græn og taka þannig þátt í forvalinu á www.vg.is

Hlynur Hallsson

Greinin birtist í Vikudegi 19. febrúar 2009


Samfylkingin margsaga um skólagjöld í opinberum háskólum

samfoÞað er heldur betur að fjara undan Samfylkingunni. Að vísu eru alltaf margar stefnur í gangi í öllum málum þar á bæ en stefna Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar varðandi skólagjöld í opinberum háskólum var nokkuð skýr. Það átti ekki að taka upp skólagjöld. Það virðist hinsvegar eins og sumir í flokknum þar á meðal formaðurinn séu búin að gleyma þessari stefnu.

Það er mjög góð grein á vef Vinstri grænna um málið í dag undir fyrirsögninni: Fer andstaðan við skólagjöld sömu leið og Fagra Ísland?


Finanzkrise gefährdet ganz Island

Island-SwapsFyrirsögnin á grein í þýsku útgáfunni af Financial Times er ekki beint upplífgandi "Finanzkrise gefährdet ganz Island". Greinina er hægt að lesa hér og þar segir meðal annars að aðalástæðan fyrir þessari fjármálakreppu sem heltekið hefir Ísland sé gríðarlegar erlendar skuldir, einkum bankanna. Greinin er byggð á greininni sem var í bresku útgáfunni af Financial Times um daginn en tekur enn dýpra í árinni. Greinin í Financial Times Deutschland er skrifuð af David Ibison í Reykjavík og Yasmin Osman í Frankfurt.

Og áfram hækka vextirnir og hafa ekki verið hærri í meira en fjögur ár! Ég minni á fundi Vinstri grænna um lausnir vandans á Ísafirði og Reykjavík í kvöld


mbl.is Seðlabankinn hækkar stýrivexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurvöllur 30. mars 1949

Fyrir 59 árum áttu sér stað atburðir á Austurvelli sem vert er að minnast. Þá mótmælti fólk fyrirhugaðri inngöngu Íslands í hernaðarbandalagið NATO. Yfirvöld brugðust þannig við að kallaðir voru út ungir Heimdellingar og það var kallað aukalið lögreglunnar. Þetta gengi var látið berja á mótmælendum, margir slösuðust. Það setur að manni hroll því Björn Bjarnason er með svipaðar hugmyndir í dag. Að vísu ætlar hann ekki að setja Heimdellinga í starfið heldur kalla út björgunarsveitirnar í staðinn! Allt til að hægt verði að berjast við mótmælendur (samt sennilega ekki trukkabílstjóra!) Meira svona Saving Iceland mótmælendur sem fara mun meira í taugarnar á sumum. Fólk í björgunarsveitunum er samt ekki alveg upprifið yfir þessum hugmyndum dóms- og kirkjumálaráðherra.

Það er hægt að lesa meira um atburðina sem áttu sér stað á Austurvelli miðvikudaginn 30. mars 1949 á Wikipediu og svo skrifaði Anna K. Kristjánsdóttir bloggvinkona mín pistil í tilefni dagsins fyrir réttu ári.


Endurbyggjum Hótel Akureyri

bláa kannanÍbúaþingið "Akureyri í öndvegi" er eitthvað það best heppnaða og jákvæðasta sem gert hefur verið í skipulagsmálum á Akureyri á síðustu árum. Það ber fyrst og fremst að þakka dugnaði og atorku Ragnars Sverrissonar kaupmanns í miðbænum sem hefur óbilandi áhuga á því að auka líf og endurreisa virðingu Miðbæjarins á Akureyri. Það gladdi mig mikið að í þeim gögnum sem stuðst var við i tillögugerð fyrir hönnun Miðbæjarins var húsið við Hafnarstræti 98 (oftast kallað Hótel Akureyri) með í nýrri miðbæjarmynd. Það var afar rökrétt enda síðasta húsið í röð fallegra húsa í heildstæðri götumynd Hafnarstrætisins eða "Göngugötunnar" eins og hún er gjarnan kölluð. Götumynd sem enn er til staðar og sem betur fer hafa nokkur þeirra húsa sem standa austan megin í Hafnarstræti verið gerð glæsilega upp af Hólmsteini Snædal listasmiði og félögum á síðustu árum og hlotið nýtt og verðugt hlutverk.

Hamborg, París og "Kaupmannahöfn"

Endurbyggingin var gerð fyrir tilstuðlan hjónanna Ingu og Sigmundar. Það er ekki langt síðan húsið Hamborg var endurbyggt og þar er nú rekin ljómandi matvöruverslun og norðan við Hamborg er húsið París sem var endurbyggt fyrir allnokkru og þar er nú rekið blómlegt kaffihús, tónleikastaður og falleg blómabúð. Síðasta húsið í röðinni er Hótel Akureyri (sem Hólmsteinn Snædal hefur gert tillögu um að nefnt verði "Kaupmannahöfn"). Húsið má muna sinn fífil fegurri rétt eins og París og Hamborg áður en húsin voru gerð upp. Hótel Akureyri á sér merka sögu en hefur verið látið drabbast niður í áratugi. Þar er nú rekin falleg lítil kaffibúð, bakarí miðbæjarins, skrifstofa Vinstri grænna og fyrir skömmu var einnig barnafataverslun í húsinu. Efri hæðir og kjallari hafa lengi verið ónotuð og yfirgefin. Hótel Akureyri (Kaupmannahöfn) er perla sem þarf að pússa ærlega og þá mun hún skína sem aldrei fyrr. Auðvelt væri að koma fyrir íbúðum á efri hæðunum og hafa skrifstofu, bakarí og kaffihús eða verslanir á jarðhæð. Jafnvel væri hægt að byggja við húsið að aftan og nýtt stigahús til að auka notagildi hússins. Úrtölumenn hafa haldið því fram að húsið sé ónýtt og að of dýrt sé að endurbyggja það, þetta sé auk þess ekki fallegt hús. Þessum fullyrðingum vísa ég til föðurhúsanna enda hafa þeir sem best þekkja sagt að vel sé hægt að endurbyggja húsið á skynsamlegan hátt og fegurð hússins og notagildi mun koma í ljós þegar endurgerðinni er lokið.

Stoppum niðurrifið

Það er því í hæsta máta einkennilegt að nú eigi að rífa húsið og byggja steinsteypuglerhýsi á sama stað. Það er ömurleg skammsýni. Þegar þetta er skrifað er einmitt verið að endurbyggja síðustu perluna í Listagilinu, "Bögglageymsluna" og þar verður opnaður glæsilegur veitingastaður í sumar. KEA á heiður skilinn fyrir að ráðast í þessar endurbætur og óskandi væri að Akureyrarbær sem á stærstan hluta í Hafnarstræti 98 sýndi sömu framsýni og gæfi athafnamönnum kost á því að endurbyggja húsið í stað þessa að rífa það niður. Og vonandi verður það gert því nægilega mörg slysin höfum við þurft að horfa uppá þegar gömul hús eru rifin niður og steypuklumpum komið fyrir í staðinn.

Greinin birtist í Vikudegi 7.júní 2007 


Minning um Lilju Guðmundsdóttur

Lilja_lo

Þann 1. maí 2006 lést Lilja Guðmundsdóttir aðeins 21 árs gömul eftir baráttu við krabbamein. Tónleikarnir sem Ung vinstri græn héldu á Græna hattinum voru til minningar um þessa frábæru baráttukonu og vin. Svavar Knútur sló í gegn og stuðbandið Bloodgroup frá Egilsstöðum og Færeyjum var frábær og meiriháttar skemmtileg. Takk fyrir tónleikana. Hér er grein sem ég skrifaði til minningar um Liju Guðmundsdóttur fyrir ári. 

Í dag kveðjum við unga baráttukonu, Lilju Guðmundsdóttur. Það eru ekki margar manneskjur sem hafa við fyrstu kynni eins mikil áhrif á mann og Lilja gerði. Og eftir því sem maður kynntist henni meira kom enn betur í ljós þvílkur sólargeisli hún var. Lífsgleði hennar og dugnaður er okkur öllum góð fyrirmynd. Það er erfitt að sætta sig við þá staðreynd að þegar ég hjóla niður í Hafnarstræti þá skuli hún ekki koma inn um dyrnar brosandi með kaffi í hendinni með tillögur um hvernig við getum gert hlutina betri.
Ég kynntist Lilju síðastliðið haust þegar Ung vinstri græn voru formlega stofnuð á Akureyri. Auðvitað hafði ég tekið eftir þessari ungu og glæsilegu konu í bænum því allsstaðar sem Lilja kom geislaði af henni. Lilja var komin í stjórn UVG um leið og farin að hafa jákvæð áhrif. Hún tók þátt í forvali fyrir bæjarstjíornarkosningarnar og sóttist eftir sjötta sætinu á lista vinstri grænna og hlaut auðvitað glæsilega kosningu í það sæti. Hún, ásamt félögum sínum skipulögðu tónleika, prentuðu boli, komu að stefnumótunarvinnu og mætti manna best á alla fundi. Þegar framjóðendarástefna VG var haldin í Reykjavík kom Lilja auðvitað með enda vildi hún taka þátt í baráttunni af krafti og afla sér eins mikilla upplýsinga og hægt var og auðvitað hitta félaga sína. Þannig var Lilja, góður félagi, einlæg og bjartsýn og full af baráttuvilja og krafti. Enda vissi hún hvað það var að þurfa að berjast við krabbamein og það þarf kraft og orku til. Þegar ég spurði hana hvort hún vildi ekki skrifa grein sem gæti birst í Vikudegi eða Morgunblaðinu og svo á Netinu, í Morgunpóstinum, tók hún vel í það og nokkrum dögum seinna var greinin tilbúin. Hún hafði lagt mikla vinnu í hana, farið og aflað sér upplýsinga, talað við konurnar hjá Krabbamenisfélaginu á Akureyri og komist að því að sífellt var verið að skera niður framlög til félagsins þrátt fyrir að hægt væri að sýna fram á að fjármagnið nýttist vel þeim sem á þurftu að halda.
Á föstudegi var Lilja hrókur alls fagnaðar í grilli ungra vinstri grænna fyrir utan kosningamiðstöðina okkar. Um kvöldið hittumst við öll heima hjá Stínu til að klára drög að stefnuskránni og Lilja kom með marga góða og mikilvæga punkta um menningarmál og stuðning við öryrkja. Á laugardagsmorgni var hún mætt á fund til ræða jafnrétti og femínisma og hafði þar margt gott til málanna að leggja og hlustaði á umræðurnar af áhuga. Hún hlakkaði til að að taka þátt í 1. maí og fagna Óla og Svandísi sem ætluðu að gifta sig hjá sýslumanni á þessum baráttudegi verkafólks. Um morguninn var fundur hjá Stefnu, félagi vinstri manna, og þar ætlaði Lilja auðvitað að vera. En á fundinn bárust okkur þær fréttir að hún hefði látist um nóttina. Það var verið að syngja maístörnuna og Lilja var maístjarnan okkar sem skín.
Kæra Lilja þin er sárt saknað en það er gott að vita af því að þú verður með okkur áfram í baráttunni. Fjölskyldu Lilju, vinum og öllum aðstandendum votta ég samúð mína við fráfall bjartsýnnar baráttukonu af lífi og sál.


Ungt fólk fái að kjósa

hendur
Það er fyrir löngu kominn tími til að auka réttindi og áhrif ungs fólks í samfélaginu. Einn þáttur í því er að allir 16 ára og eldri fái að kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir og á Alþingi, það er aukið lýðræði. Með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og því gert kleift að taka þátt í mótun samfélagsins eins og það á réttmæta kröfu á.
Árið 1984 var almennur kosningaaldur á Íslandi lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Nú er tími til að auka enn þátttöku ungs fólks í lýðræðinu og færa kosningaaldur í 16 ár. 16 ára einstaklingur í íslensku samfélagi er orðinn virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, hefur lokið grunnskóla og ætti að vera tilbúinn til að taka á sig á þá ábyrgð sem felst í því að kjósa sér fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir. Það ætti einnig að vera sjálfsagður réttur þessa unga fólks.

ungt
Frumkvæði í lýðræði
Í nágrannalöndum okkur er verið að kanna þessi mál og það væri óskandi að Íslendingar tækju frumkvæði í því að auka lýðræði og þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu. Kosningaréttur allra eldri en 16 ára er í athugun í Bretlandi og hefur Græniflokkurinn í Englandi og Wales sett þessa kröfu í stefnuskrá sína og það sama hafa Frjálslyndir demókratar í Bretlandi og Þjóðarflokkurinn í Skotlandi gert. Í Finnlandi hefur Miðjuflokkurinn lagt til að tilraun verði gerð á einstökum svæðum í næstu sveitastjórnarkosningum, sem verða 2008, þar sem 16 ára Finnar fengju að kjósa. Í Svíþjóð hefur Umhverfisflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni að lækka kosningaaldur niður í 16 ár til þess að freista þess að auka þátttöku ungmenna í pólitískri umræðu. Í Noregi hefur Frjálslyndiflokkurinn sett þetta mál í stefnuskrá sína og það sama má segja um flokka á hollenska þinginu, í Kanada, Ástralíu og í Austurríki svo nokkur lönd séu nefnd.
Nú þegar hafa 16 ára ungmenni kosningarétt í löndum eins og í Brasilíu, Níkaragúa og á Kúbu. Í Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi hafa ungmenni á vinnumarkaði og eru orðin 16 ára einnig kosningarétt.
Norski félagsfræðingurinn Stein Ringen hefur fjallað um þátttöku ungs fólks og barna í lýðræðinu (Citizens, Families and Reform, Clarendon Press, Oxford 1997) og Torfi H. Tulinius prófessor við Háskóla Íslands hefur einnig fjallað um málið á áhugaverðann hátt.
ungt_folk
Rök með og á móti
Helstu rökin fyrir því að 16 ára einstaklingar hljóti kosningarétt eru þau að það muni smám saman leiða til breyttra áherslna í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar landsins myndu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar. Kosningaréttur hefði þroskandi áhrif á ungt fólk og það yrði að ábyrgum þátttakendum í samfélaginu.
Rök gegn því að ungt fólk fái kosningarétt eru til dæmis þau að börn og unglingar búi ekki yfir vitsmunaþroska til að taka afstöðu í þjóðmálum eða sveitastjórnarmálum, að þau láti tilfinningar ráða fremur en dómgreindina og séu líklegri til að verða fórnarlömb áróðursmeistara. Öll þessi rök lýsa vantrausti á ungt fólk og hafa reyndar einnig verið notuð á liðnum tímum til að koma í veg fyrir að konur, eignalausir, undirokaðir kynþættir og jafnvel almenningur hljóti kosningarétt!
Krafa okkar í upphafi 21. aldarinnar hlýtur að vera sú að allir 16 ára og eldri fái kosningarétt.

ung


Fyrir friði og gegn stríði

ganga

Ávarp flutt á Ráðhústorgi á Akureyri í blysför fyrir friði á Þorláksmessu.

Gott fólk, þetta er fimmta skipti sem við göngum í þágu friðar á Þorláksmessu hér á Akureyri. Þá var þessi góði siður tekinn upp aftur eftir nokkurrar ára hlé en tilefnið var því miður ekki ánægjulegt. Bandaríkjastjórn með forsetann George Bush í fararbroddi hafði ítrekað hótað því að gera innrás í Írak. Fólk um allan heim mótmælti þessum fyrirætlunum, svo kröftuglega að milljónir komu saman þegar mótmælin náðu hámarki sínu um allan heim. Í Bandaríkjunum, á Bretlandi, í Japan, Þýskalandi, Frakklandi, Suður-Afríku, Ástralíu og víðar og víðar og einnig hér á Íslandi. Aldrei höfðu jafn margir komið saman til friðsamlegra mótmæla í heiminum, ekki einu sinni í aðdraganda og á tímum Víetnamstríðsins voru svo margir samankomnir um allan heim til að andæfa stríðsbrölti valdahafanna. En allt kom fyrir ekki. Með lygum og blekkingum í andstöðu við Sameinuðu Þjóðirnar réðust Bandaríkin inn í Írak. Bush fékk til liðs við sig Tony Blair á Bretlandi og nokkrar aðrar leppþjóðir þar á meðal okkur Íslendinga. Tveir menn, formenn ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi tóku ólöglega ákvörðun um að gerast aðilar að þessu viðbjóðslega stríði. Meigi þeir hljóta ævarandi skömm fyrir.
Ég ætla ekki að fara yfir hörmungar þessa stríðs sem ekki sér fyrir endann á því á hverjum degi fáum við hrylliegar fréttir af limlestingum og glæpum sem framdir eru í nafni lýðræðis og frelsis. Og þó að Bush hafi lýst yfir sigri í stríðinu aðeins nokkrum vikum eftir innrásina árið 2003 hefur mannfall aldrei verið meira en þessa síðustu daga. Nóvembermánuður var sá blóðugasti til þessa.  
Það er sárara en nokkru nemur að enn þann dag í dag eru heilu stjórnmálaflokkarnir sem réttlæta og verja ákvörðun þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrimssonar þó að mikill meirihluti almennings á Íslandi hafa alltaf verið andvíg þessu stríði og þátttöku Íslands í því.
Það er aldrei hægt að réttlæta stríð og þessvegna er það óhugnanlegt að síðast í gær ítrekaði utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice þá skoðun sína að stríðið í Írak sé nauðsynlegt og að sú „fjárfesting” sem stríðið er bæði í bandaríkjadölum og lífum fallinna bandarískra hermanna sé þess virði.
Samkvæmt fréttavef BBC lét Condoleezza Rice þessi orð falla skömmu eftir að átta bandarískir landgönguliðar voru kærðir fyrir morðin á 24 íröskum óbreyttum borgurum í Haditha í fyrra.

Miskunnarleysi og grimmd einkennir þetta stríð eins og öll önnur stríð, sama hvort þau hafi verið háð með háleitum hugsjónum eða bara útaf græðgi.
natodrepur
Þeir sem fara verst út úr stríðinu eru ekki hermenn, ekki stjórnmálmenn , ekki forsetar og alls ekki hergagnaframleiðeindur, nei stríð bitnar helst á þeim sem síst skildi. Saklausu fólki sem á sér enga ósk æðri en að fá að lifa í friði og ala upp börnin sín fyrir þennan heim. Stríð bitnar á börnum, börnum um allan heim. Mig langar til að lesa fyrir ykkur ljóð eftir Dag Sigurðarson sem heitir "Mynd eftir barn (20x25 cm, blýantur og vaxkrít)"
I
Köttur...

Upp á síðkastið hafa hleranir stjórnvalda á tímum "kalda stríðsins" verið mikið í umræðunni. Það er ef til vill engin tilviljun að þau sem helst voru hleruð og talin vera mestu "óvinir ríkisins" vou friðarsinnar. Fólk sem kom saman til að mótmæla stríðsbrölti og þátttöku Íslands í hernaðarbandalögum, mótmæla heimsóknum herforingja til landsins. Símar þessa fólks voru hleraðir eins og um glæpamenn væri að ræða. Fólk sem átti draum um friðsamlegan heim og vildi berjast gegn þóknun íslenskra stjórnvalda við heimsvaldastefnuna. Það hlýtur því að vera krafa okkar að allir þættir þessara hlerana verði rannsakaðir. Ekki til að finna sökudólgana heldur til að fá allt upp á borðið til að svona hlutir eigi sér ekki stað aftur í lýðræðisríki. Núverandi stjórnvöld mega ekki koma í veg fyrir það að mannréttindi þeirra sem urðu fyrir hlerunum séu brotin áfram.
fridarganga
Það er góður siður á Þorlaksmessu að ganga fiðargöngu, koma saman og hugsa til þeirra sem þurfa að þola nauð og fá ekki að búa við frið. Ekki til að fría okkur ábyrgð heldur einmitt til þess að sína ábyrgð og sína valdhöfum að við viljum ekki taka þátt í þeirra stríðum. Aldrei.
Og sum stríð eru endalaus, borgarastyrjaldir, hefndir og glæpir. Eitt þessara stríða geisar í Palestínu á hernumdu svæðunum. Kristján frá Djúpalæk orti ljóð um ástandið þar fyrir margt löngu og þó að það séu ekki bretar sem herja á palestínumenn í dag heldur ísraelsmenn þá gæti ljóðið átt við enn þann dag í dag.
"Slysaskot í Palestínu"...

Því miður er útlituið í heimsmálunum ekki þannig að það líti út fyrir að við getum hætt að ganga fyrir friði. En óskin um frið er ekki barnaleg, hún er sjálfsögð og hvert og eitt okkar getur lagt eitthvað af mörkum til að stuðla að friði í heiminum og við eigum að nýta hvert tækifæri til að látta gott af okkur leiða. Þessvegna munum við halda áfram að ganga fyrir friði og gegn stríði á Þorláksmessu. Takk fyrir komuna og gleðileg jól.


mbl.is Gengið til friðar á Þorláksmessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband