Leita í fréttum mbl.is

Endurbyggjum Hótel Akureyri

bláa kannanÍbúaþingið "Akureyri í öndvegi" er eitthvað það best heppnaða og jákvæðasta sem gert hefur verið í skipulagsmálum á Akureyri á síðustu árum. Það ber fyrst og fremst að þakka dugnaði og atorku Ragnars Sverrissonar kaupmanns í miðbænum sem hefur óbilandi áhuga á því að auka líf og endurreisa virðingu Miðbæjarins á Akureyri. Það gladdi mig mikið að í þeim gögnum sem stuðst var við i tillögugerð fyrir hönnun Miðbæjarins var húsið við Hafnarstræti 98 (oftast kallað Hótel Akureyri) með í nýrri miðbæjarmynd. Það var afar rökrétt enda síðasta húsið í röð fallegra húsa í heildstæðri götumynd Hafnarstrætisins eða "Göngugötunnar" eins og hún er gjarnan kölluð. Götumynd sem enn er til staðar og sem betur fer hafa nokkur þeirra húsa sem standa austan megin í Hafnarstræti verið gerð glæsilega upp af Hólmsteini Snædal listasmiði og félögum á síðustu árum og hlotið nýtt og verðugt hlutverk.

Hamborg, París og "Kaupmannahöfn"

Endurbyggingin var gerð fyrir tilstuðlan hjónanna Ingu og Sigmundar. Það er ekki langt síðan húsið Hamborg var endurbyggt og þar er nú rekin ljómandi matvöruverslun og norðan við Hamborg er húsið París sem var endurbyggt fyrir allnokkru og þar er nú rekið blómlegt kaffihús, tónleikastaður og falleg blómabúð. Síðasta húsið í röðinni er Hótel Akureyri (sem Hólmsteinn Snædal hefur gert tillögu um að nefnt verði "Kaupmannahöfn"). Húsið má muna sinn fífil fegurri rétt eins og París og Hamborg áður en húsin voru gerð upp. Hótel Akureyri á sér merka sögu en hefur verið látið drabbast niður í áratugi. Þar er nú rekin falleg lítil kaffibúð, bakarí miðbæjarins, skrifstofa Vinstri grænna og fyrir skömmu var einnig barnafataverslun í húsinu. Efri hæðir og kjallari hafa lengi verið ónotuð og yfirgefin. Hótel Akureyri (Kaupmannahöfn) er perla sem þarf að pússa ærlega og þá mun hún skína sem aldrei fyrr. Auðvelt væri að koma fyrir íbúðum á efri hæðunum og hafa skrifstofu, bakarí og kaffihús eða verslanir á jarðhæð. Jafnvel væri hægt að byggja við húsið að aftan og nýtt stigahús til að auka notagildi hússins. Úrtölumenn hafa haldið því fram að húsið sé ónýtt og að of dýrt sé að endurbyggja það, þetta sé auk þess ekki fallegt hús. Þessum fullyrðingum vísa ég til föðurhúsanna enda hafa þeir sem best þekkja sagt að vel sé hægt að endurbyggja húsið á skynsamlegan hátt og fegurð hússins og notagildi mun koma í ljós þegar endurgerðinni er lokið.

Stoppum niðurrifið

Það er því í hæsta máta einkennilegt að nú eigi að rífa húsið og byggja steinsteypuglerhýsi á sama stað. Það er ömurleg skammsýni. Þegar þetta er skrifað er einmitt verið að endurbyggja síðustu perluna í Listagilinu, "Bögglageymsluna" og þar verður opnaður glæsilegur veitingastaður í sumar. KEA á heiður skilinn fyrir að ráðast í þessar endurbætur og óskandi væri að Akureyrarbær sem á stærstan hluta í Hafnarstræti 98 sýndi sömu framsýni og gæfi athafnamönnum kost á því að endurbyggja húsið í stað þessa að rífa það niður. Og vonandi verður það gert því nægilega mörg slysin höfum við þurft að horfa uppá þegar gömul hús eru rifin niður og steypuklumpum komið fyrir í staðinn.

Greinin birtist í Vikudegi 7.júní 2007 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni

Heyr heyr!!

Árni "Gamli" Einarsson, 14.6.2007 kl. 11:10

2 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

þörf umræða Hlynur - haltu henni gangandi ..

Pálmi Gunnarsson, 14.6.2007 kl. 11:43

3 Smámynd: Helgi Vilberg

Ágæt grein hjá þér Hlynur um mikilvægt skipulags- og menningarmál. Þakka þér fyrir.

Helgi Vilberg, 14.6.2007 kl. 13:21

4 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Þetta eru áhugaverðar pælingar og líklega mest á þeim nótum sem flestir hugsa um þennan hluta miðbæjar Akureyrar. Af því að einn maður er nefndur til sögunnar sem liðþjálfi/offursti, er ég á því að hann heiti ennþá Ragnar Sverrisson en ekki Sverrir Ragnarsson, sem skiptir hann að sjálfsögðu máli! Það er langt síðan ég hef komið norður, svo að ég sé ekki Hafnarstrætið núna fyrir mér nema á myndum. Ég bendi á fyrirmynd í Reykjanesbæ - nýuppgerða aðalgötuna í Keflavík, sem skarar fram úr á okkar mælikvarða. Langalöng alvöru miðbæjargata ...

Herbert Guðmundsson, 14.6.2007 kl. 21:41

5 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sammála þér með að götumyndina þarf að varðveita, því ekki viljum við lenda í sama skelfilega slysinu og gerðist þar sem áður var bókabúðin Huld. Mér finnst reyndar þessi nafngjöf á Hótel Akureyri útí hött, því hefðir á nöfnum húsa verða ekki til á einni nóttu.

Guðmundur Örn Jónsson, 15.6.2007 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.