Leita í fréttum mbl.is

Opnun í DaLí Gallery á föstudaginn klukkan 17

hallson_p_04

Það verður mikið um að vera hér á Akureyri um næstu helgi þegar Sjónlistaverðlaunin verða afhent. Megas er líka með tónleika og mikið fjör. Ég ætla að opna sýningu hjá Dagrúnu og Línu í DaLí galleríinu og hér er fréttatilkynning um sýninguna: 


HLYNUR HALLSSON

ÞETTA - DAS - THIS

21.09. - 11.10.2007 
  

Opnun föstudaginn 21. september 2007 klukkan 17-19

DaLí Gallery
Brekkugata 9
600 Akureyri
http://daligallery.blogspot.com

Opið föstudaga og laugardaga kl. 14-17
og eftir samkomulagi.

http://www.hallsson.de
http://www.hlynur.is

Hlynur Hallsson opnar sýninguna ÞETTA - DAS - THIS í DaLí Gallery, Brekkugötu 9, á Akureyri, föstudaginn 21. september 2007, klukkan 17-19.

Sýningin samanstendur af spreyji á vegg, myndbandi, stórri ljósmynd með texta, litakúlum og minni textamyndum sem gestir geta tekið með sér.


hallson_p_02

Litakúlurnar koma frá sýningu sem Hlynur setti upp á Bókasafni Háskólans á Akureyri 2005 en myndbandið er frá því í sumar og hægt að sjá það nú þegar á netinu á http://youtube.com/watch?v=Hr7dcL6mp3U
Hlynur hefur verið að vinna með textamyndirnar síðustu ár og nú er væntanleg bók með öllum myndunum. Á sýningunni í DaLí Gallery þekur ein myndin heilan vegg en tvær aðrar eru í stöflum á gólfinu og geta gestir tekið með sér eintak. Hlynur var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2005 og gefur nú Akureyringum og öðrum sýningargestum myndir sem hægt er að hengja upp í  til dæmis í eldhúsinu eða svefnherberginu. Textinn sem Hlynur spreyjar á vegginn í sýningarrýminu er splunkunýr. Sýningin í DaLí Gallery stendur til 11. október 2007 en þann dag opnar Hlynur sýningu hjá E.ON í München.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur sett upp um 50 einkasýningar og tekið þátt í um 70 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997 og verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2005. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006.
Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu.
Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga, myndbönd, teikningar og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferð, gönguferðir eða snjóhúsbygging geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, litir, stjórnmál, samskipti fólks og viðhorf okkar.

Hægt er að sjá verk Hlyns á sýningunni "Skyldi´ ég vera þetta sjálfur!" til heiðurs Jónasi Hallgrímssyni í Ketilhúsinu sem lýkur sunnudaginn 23. september og þátttökuspreyverk í verslun Pennans-Eymundson í Hafnarstræti á Akureyri til 31. nóvember.

Hlynur býr ásamt konu og þremur börnum á Akureyri og í Berlín.
Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de

bloggsíða: www.hlynur.is
sími: 6594744
netfang: hlynur(hjá)gmx.net

Meðfylgjandi eru tvær myndir úr röðinni MYNDIR -  BILDER - PICTURES og texti eftir Raimar Stange í Berlín sem er einn af textunum sem verða í samnefndri bók.

--
DaLí Gallery
Dagrún Matthíasdóttir s.8957173
Sigurlín M. Grétarsdóttir s.8697872
Brekkugata 9
600 Akureyri
http://daligallery.blogspot.com
dagrunm(hjá)snerpa.is

bush2881

Make words not war!

Raimar Stange fjallar um textaverk Hlyns Hallssonar

Það var á seinni hluta tíunda áratugarins sem Hlynur Hallsson sendi mér póstkort frá ýmsum heimshornum. Þar skrifaði hann á íslensku þótt hann vissi mætavel að ég hef alls engan skilning á því tungumáli, en á þeim tíma var skilningsleysið - það að skilja eitthvað ekki – og fagurfræðileg gæði þess aðalmálið í hinni fagurfræðilegu heildarsýn. Slíkt er jú alveg í anda Jóhanns Heinrich Pestallozi, svissneska menntafrömuðarins.  Pestallozi kom einmitt með þá hugmynd að börn ættu að umgangast framandi tungumál til þess að þeim yrði ljóst að maður getur ekki skilið allt, að skilningur manns er takmarkaður.
En pólitískar aðstæður hafa undið enn meira upp á sig. Hrottaleg nýfrjálshyggja og miskunnarlaus alþjóðahyggja skilja varla eftir nokkurt rými hvorki fyrir næma íhugun um fagurfræði samtímans né heldur (hugmyndafræðilausa) heimssýn. Þýski rithöfundurinn Hermann Hesse orðaði þetta svona: "Drukknandi syngja engar aríur". Á nýju árþúsundi syngur Hlynur Hallsson heldur engar aríur lengur, nýju textaverkin hans eru að vísu oft enn á mörgum tungumálum, en í því fjöltyngi er minni ráðgáta en lífsmáti hans í alþjóðavæddri fjölþjóðahyggju, sem Hlynur tjáir nú í verkum sínum. Auk þess, en þó reyndar fyrst og fremst, eru textaverk Hlyns Hallssonar með auðþekkjanlegu pólitísku, já, ef ekki árásargjörnu innihaldi. Það er ekki tilviljun að þau minna á nafnlaust veggjarkrot, eins og  þetta hér til dæmis:
"BUSH+BLAIR
TERROR+FEAR"
slagorð sem hinn ungi Íslendingur skrifaði á húsveggi Feneyja á meðan Feneyjartvíæringnum 2005 stóð. Og sýningarrýmið í Charlottenborg í Kaupmannahöfn breyttist árið 2004 beinlínis í pólitískan vettvang með orðunum:
"WAR IS TERRORISM WITH A BIGGER BUDGET
FIGHT TERRORISM WITH ALL POWER"
Slagorð gegn nýlendustefnunni sem fylgdi í kjölfar auðvaldsstefnunnar og eins slagorð gegn (Íraks-)stríði eru orðin að lögreglufyrirskipunum sem Sameinuðu þjóðirnar þurfa ekki einu sinni að samþykkja. En Antonio Negri og Michael Hardt benda einmitt á þetta í Empire eða Heimsveldi, áróðursverki sínu gegn alþjóðavæðingunni. Í verkum Hlyns virka slík slagorð egnandi, geta þýtt allt og ekkert. Það er ekkert nema gott um það að segja, því þeim mun spennandi verður myndlistin, einnig þótt slíkt gleymist auðveldlega á tímum nýformalisma í myndlist og innileiksmiðjaðrar málaralistar, svo ekki sé minnst á innprentun mórals og samvisku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Mikið svakalega sem ég vildi geta verið á opnun hjá þér Hlynur, en verð að láta nægja að hugsa til ykkar sem verðið þar. Hins vegar panta ég eintak af væntanlegri bók.

Já og til lukku með sýninguna.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.9.2007 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.