Leita í fréttum mbl.is

"Listaverkaþjófar" skila ESB fána

Seint í kvöld var dyrabjöllunni hringt en þegar ég ætlaði að opna var enginn sjáanlegur. Út úr póstkassanum stóð hinsvegar böggull vafinn inn í álpappír og bréf stílað á mig:

bref.jpg

Ótrúlega skemmtilegt bréf og ESB fáni var inn í álpappírnum. Mér er því ljúft og skylt að svara spurningunum sem beint er til mín og einnig birti ég hér fréttatilkynningu sem birtist á bloggsíðu Myndlistarfélagsins fyrir nokkrum dögum og reyndar hafði álíka tilkynning birst á síðunni um miðjan maí þegar sýningin opnaði formlega:

"Sýning Hlyns Hallssonar í Gallerí Víð8ttu601 sett upp aftur og framlengd

esb_hlynur.jpg

Gallerí Víð8tta601

Hlynur Hallsson

Landnám - Ansiedlung - Settlement

16.05. - 23.08. 2009

Verkið sem Hlynur Hallsson setti upp í Gallerí Víð8ttu hefur verið stolið í tvígang en vegna þrjósku listamannsins og sýningarstjóranna hefur það verið sett upp í þriðja skipti og sýningin verið framlengd um mánuð.

Litla Skerið í Tjörninni sem myndaðist þegar Drottningarbraut var lögð árið nítjánhundruð sjötíu og eitthvað er ónumið land. Tunglið var það einnig einu sinni og Norðurpóllinn og Suðurpóllinn líka. Hver verður fyrstur til að stíga á þetta Sker litið persónulegt skref en um leið stórt skref fyrir mannkynið? Ekki Bandaríki Norður Ameríku heldur auðvitað Evrópusambandið. Hið nýja heimsveldi er mætt á staðinn. Þar hefur verið settur upp fáni ESB, sannkallaður landnemafáni.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur verið iðinn við að setja upp sýningar og síðastliðið haust setti hann upp nokkurskonar yfirlitssýningu á verkum sínum í Nýlistasafninu og í A-sal Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur ásamt verslunum, veitingastöðum og þjónustufyrirtækjum í Miðborginni setti hann upp verkið ÚT/INN.
Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur hlotið starfslaun myndlistarmanna og var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Hlynur vinnur með aðstæður, texta, innsetningar, ljósmyndir, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, snjóhúsbygging eða verslunarleiðangur geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de

Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason hafa starfrækt Gallerí Víð8ttu601 frá árinu 2007. Sýningarnar í Hólmanum í tjörninni í Innbænum á Akureyri munu halda áfram fram á næsta ár og þá taka aðrir sýningarstaðir við.

Sýningin hjá Gallerí Víð8ttu601 hefur verið framlengd til 23. ágúst 2009 og vonandi fær fáninn að vera í friði svo lengi. Nánari upplýsingar um Gallerí Við8ttu601 veita Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason í 435 0033 eða 8461314 og í tölvupósti: vid8tta(hjá)simnet.is
Nánari upplýsingar um verkið veitir Hlynur í síma 6594744 og í tölvupósti: hlynur(hjá)gmx.net"

---

Svarið við fyrstu spurningunni er:

Tilgangur verksins er að vekja upp umræðu, setja hlutina í annað samhengi, vekja upp spurningar og viðbrögð.

Svarið við spurningu tvö:

Ég er hvorki að gera lítið úr Evrópusambandinu né að sýna því stuðning með þessu verki en auðvitað getur hver og einn túlkað þennan "landnema" fána á Skerinu í Tjörninni á sinn hátt.

Og svarið við þriðju og síðustu spurningunni:

Ég ætla ekki að setja upp fleiri pólitísk verk eða verk yfirleitt á Skerinu. Sýningunni lýkur 22. ágúst 2009 en á Akureyrarvöku, viku seinna opnar Haraldur Jónsson nýja sýningu sem er jafnframt síðasta sýningin á vegum Gallerís Víð8ttu601 á þessum stað en ég veit að sýningarstjórarnir eru að leita að nýjum stað fyrir áframhaldandi sýningar. Næstu pólitísku verk sem ég set upp eru spreyverk og textaverk á samsýningu um hrunið sem heitir "Lífróður" og verður opnuð í Hafnarborg í Hafnarfirð þann 29. ágúst 2009.

Svo að lokum vil ég þakka drengjunum kærlega fyrir bréfið og fánann og hvet þá til dáða í framtíðinni en hvet þá einnig til að koma fram undir nafni þó að ég hafi auðvitað fullan skilning á því ef þeir vilja ekki gera það.

Skilti sem einnig var við tjörnina með titli verksins og hluta textans sem einnig er hér að ofan úr fréttatilkynningunni var stolið fyrir nokkrum vikum. Vonandi hringir einhver dyrabjöllunni hjá mér og skilar því eða enn betra væri að koma því bara aftur fyrir þar sem það var, við Tjörnina.

Þá eru bara tveir ESB fánar eftir að koma í leitirnar.

Tengill á frétt í Sjónvarpinu.


mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Batnandi fólki er best að lifa. Jón, ekki leggjast svo lágt að setja alla andstæðinga ESB undir sama hatt.

Kristín Dýrfjörð, 28.7.2009 kl. 02:06

2 identicon

Er ekki nóg að hafa þessa sjónmengun á sendiráðum ESB?

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 06:52

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Listaverk eða ekki? Sumir listamenn vinna á jöðrum þess sem í hefðbundinni list væri kallaður jaðar. Til dæmis væri jaðar að hafa hugmynd að málverki en ekki mála neitt, heldur bara kynna hugmyndina og þá á endanum bara í einhverju öðru formi. Ég held fram að þetta sé oftast "auðveldari" list. Meina það ekki neikvætt. En ég held að aðferðin tengist inn í ofureinföldun auglýsingaaðferða sem við erum öll meðvitað eða ekki, undir áhrifum frá. Erfitt að segja hvað mikið af slíku endist, rétt eins og mikið af verkum í málaralist er ekki að vaxa með tímanum. En ég held að með þjófnaðinum hafi þetta verk vaxið, breyzt úr því að vera mynd af ESB að taka yfir sker (metafor fyrir Ísland) í það að vera eins konar Iwo Jima skopmynd þar sem herdeildirnar eru báðar Akureyringar og erfitt að sjá hver er Japaninn og hver er Kaninn.

Kv.

Ólafur Þórðarson

Ólafur Þórðarson, 28.7.2009 kl. 12:29

4 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Áhugaverð umræða um hvað er listaverk og hvað ekki. Kári og Ólafur leggjast  í það eins og margir að vita best sjálfur hvað listin er, vera sjálfskipaðir listfræðingar. Aðrir fara að tuða um ESB með eða móti. 

Kannski er tilgangi verksins einmitt náð þarna. Kannski stendur það algerlega sem listaverk í þeim skilningi að það vekur hughrif, reiði kannski, hneykslan og spurningar. 

En í guðanna bænum ef þið eruð ekki sammála einhverju listaverki ekki stela því. Hrópið á það eða berjiði búsáhöld.

Lárus Vilhjálmsson, 28.7.2009 kl. 13:43

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Hlynur, hvar getur maður keypt fána ESB?

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 28.7.2009 kl. 14:04

6 Smámynd: Hlynur Hallsson

Svona fána er t.d. hægt að kaupa í Kolaportinu.)

Hlynur Hallsson, 28.7.2009 kl. 14:11

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Lárus, hvað ertu að meina? Súludans vekur "hughrif, reiði kannski, hneykslan og spurningar." Er súludans þá list þrátt fyrir að vera aðallega klám? Glæpur getur gert nákvæmlega sama, ekki gerir það glæp að list?

Ég held nefnilega að þjófnaðurinn hafi gefið verkinu nýjann og sterkari flöt, öfugt við það ef einhver fer á staðinn að garga á eitthvað fánatetur. ESB fáninn er heldur ekki verk Hlyns, heldur tákn þjóðabandalags. Hlynur notar kópíu af þessu tákni og stingur í sker. Við það fær fáninn nokkurn veginn sömu meiningu og fáninn sem settur er í staðinn. Hlynur er að stinga erlendum fána í föðurlandið.

Þjófnaðurinn eru eðlileg viðbrögð við svona pólitískri list og kæmi mér ekki á óvart ef Hlynur eða vinir hans hefðu sjálfir rifið niður fána einhvers staðar í mótmælendastuði  ,-)

Ólafur Þórðarson, 28.7.2009 kl. 15:46

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Án þess að lesa bréfið að ofan hver í fjáranum vinn flagga ESB fána. Er fólk ekki með öllu mjalla. Það eru fánalög sem ber að fara eftir og menn gera nema þjóðarlausir skrælingar. 

Valdimar Samúelsson, 28.7.2009 kl. 16:03

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Er þú ætlar að kleima ESB fánan sem þitt listaverk þá ertu heldur betur í deep shit. Ég bið þig að byrta þetta.

Valdimar Samúelsson, 28.7.2009 kl. 16:05

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Umræddir aðilar segjast víst ekki hafa fjarlægt Evrópusambandsfánana í fyrri tvö skiptin þegar þeir voru ekki færðir eigandanum. Spurning hverjir hafi verið þar að verki. Kannski einhverjir Evrópusambandssinnar sem langaði í fána fyrirheitna landsins síns? ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.7.2009 kl. 18:02

11 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Hver er listin á bak við það að stinga niður einhverjum fána ofan í jörðina? Svo er talað um að þessir andstæðingar leggist lágt. Hversu lágt leggst listamaður með því að stinga niður fána ofan í jörðina og kalla það listaverk.

Ég þori alveg að koma undir nafni, ég styð þessa "listaverkaþjófa" heilshugar enda ef um list er að ræða af þinni hálfu þá er hún á frekar lágu plani. Þú verður líka að átta þig á því að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða sem að hefur og á eftir að kalla fram mjög heitar tilfinningar. Einhvern tíma heyrði ég mann segja að Ísland muni ekki ganga í ESB nema að af lokinni borgarastyrjöld. Hvort sem að það eru andstæðingar eða fylgjendur sem að lenda í minnihluta gagnvart aðild, þá mun hvorugur aðilinn sætta sig við niðurstöðu hins.

Þú segir að þú hafir sett upp þetta "listaverk" til þess að kalla fram viðbrögð. Það að stela fánanum má túlka sem viðbrögð og sem listamaður getur þú ekki dæmt viðbrögðin sem að þú færð, sama hver þau eru.

Jóhann Pétur Pétursson, 28.7.2009 kl. 18:13

12 Smámynd: Hlynur Hallsson

Kæri Valdimar Samúelsson, ég vona að þú sért ekki alla daga í svona vondu skapi.

Jóhann Pétur, Samúel og Kári B geta gluggað saman í listasögu síðustu aldar til að skoða hvað hefur verið að gerast í myndlist frá því að Rembrant og félagar voru uppá sitt besta.

Gott að byrja til dæmis á kaflanum um Duchamp og readymade um 1930.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.7.2009 kl. 21:37

13 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Sömu gaurarnir hafa stolið öllum fánanum, en eru búnir að krossa yfir hina með rauðri málingi eða brenna þá að hætti talíbana og annarra vandræðagemlinga. Þess vegna skiluðu hinir fánarnir sér ekki, þetta liggur í augum uppi.

Jón Gunnar Bjarkan, 28.7.2009 kl. 22:42

14 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Kæri Veffari.

Súludans hefur ekkert skylt við klám annað en nektina sem fylgir strípihneigðinni.

Súludans er því visst listform.

Klám hinsvegar er þegar búið er að afbaka það samlíf með leiðinlegum sóðaskap eins og sést á svokölluðum "bláu" spólum. Það að tala um naktar dansandi konur sem klám er eitthvað sem er brenglun á hugsunarhætti hjá fólki svona svipað og að segja að orðið nauðgun sé ógeðslegt.

Ég sé ekkert ógeðslegt við orðið nauðgun, það er verknaðurinn sem slíkur sem er ógeðslegur.

Ég ætla ekki að fara hér of náið útí þá sálma þar sem ég veit ekki hversu ungt fólkið er sem les þessar athugasemdir.

Svo í framhjáhlaupi svona vegna fánamálsins.

Þá var ég að velta fyrir mér hvort hinir meintu "þjófar" hafi nokkuð verið þjófar þar sem þeir komu flagginu til rétts eiganda ásamt skilaboðum. Og svo hitt þá finst mér eins og um listrænan gjörning hafi verið að ræða sem sýnir hvaða skoðun þeir hafa á flagginu og því sem það stendur fyrir.

Með kveðju og von um að listamenn og verk þeirra fái að standa þann tíma sem þeim er ætlað hvort sem menn eru með eða á móti listforminu.

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 28.7.2009 kl. 23:05

15 identicon

Auðvitað á ekki að stela eða spilla listaverki. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem listaverk í hólma er skemmt eða stolið. Í kringum 1960 var hafmeyjan eftir Nínu Tryggvadóttur sprengd í loft upp í Tjarnarhólmanum í Reykjavík. Það var svo sem vitað hverjir voru að verki enda tengdust þekktu verktakafyrirtæki. (dínamitið kom þaðan). Ég óska þér hjartanlega til hamingju með listaverkið og þeim viðbrögðum sem það hefur fengið. Ætli sovéski gamli fáninn fengi sömu útreið?...eða nasistafáninn? Hver veit?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 00:12

16 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Ef ég flagga stórum fána með mynd af Davíð Oddssyni í Viðey, getið þið listfræðingar þá sagt mér hvort þar sé á ferðinni "list"  ??

Sigurður Sigurðsson, 29.7.2009 kl. 10:05

17 identicon

Pétur : "Er ekki nóg að hafa þessa sjónmengun á sendiráðum ESB?"

Þessi  sjónmengun er ekki bara á sendiráðum, þú,  heldur á vörum og  bílnúmerum þar sem menn eru altaf því skildugir til að hafa þetta drasl yfir sér.

Það er spurning hvort þetta Copy /Paste listaverk (ESB fáni) hans Hlyns sé listaverkið hans eða ekki (humm hægt að kaupa í Kolaportinu) ???

KV

Þorsteinn

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 10:41

18 Smámynd: Jens Guð

  Það er alltaf flott þegar myndverk hreyfir verulega við fólki.  Myndlistamaður nær ekki hærri hæðum en þeim viðbrögðum sem myndverkið veldur.  Dúndur góður árangur.  Glæsileg útkoma.  Og pönk.

Jens Guð, 30.7.2009 kl. 00:23

19 identicon

Jens: " Dúndur góður árangur.  Glæsileg útkoma.  Og .."

Já kannski maður ætti bara að fá sér fleiri fleiri Anti-EU fána http://en.wikipedia.org/wiki/File:Anti-EU.PNG

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.