Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Auðvitað styðjum við stjórnina

500274A Ríkisstjórnin fær 43% stuðning samkvæmt könnun Fréttablaðsins þrátt fyrir ómaklegar árásir formanna spillingar- og hrunsflokkanna Framsóknar og SjálfstæðisFLokks. Auðvitað á að gagnrýna stjórnina fyrir að ekki gangi nógu hratt að moka skítinn eftir fyrrverandi ráðamenn en við hverju bjóst fólk? Ástandið er miklu verra en frjálshyggjugengið gaf upp enda vissu þeir sennilega ekki einu sinni sjálfir hversu djúpt þeir voru búnir að sökkva þjóðinni. En nú þarf að halda áfram að bjarga því sem bjargað verður og draga þá fyrir rétt sem brotið hafa á þjóðinni.
mbl.is Ríkisstjórnin með 43% stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Listaverkaþjófar" skila ESB fána

Seint í kvöld var dyrabjöllunni hringt en þegar ég ætlaði að opna var enginn sjáanlegur. Út úr póstkassanum stóð hinsvegar böggull vafinn inn í álpappír og bréf stílað á mig:

bref.jpg

Ótrúlega skemmtilegt bréf og ESB fáni var inn í álpappírnum. Mér er því ljúft og skylt að svara spurningunum sem beint er til mín og einnig birti ég hér fréttatilkynningu sem birtist á bloggsíðu Myndlistarfélagsins fyrir nokkrum dögum og reyndar hafði álíka tilkynning birst á síðunni um miðjan maí þegar sýningin opnaði formlega:

"Sýning Hlyns Hallssonar í Gallerí Víð8ttu601 sett upp aftur og framlengd

esb_hlynur.jpg

Gallerí Víð8tta601

Hlynur Hallsson

Landnám - Ansiedlung - Settlement

16.05. - 23.08. 2009

Verkið sem Hlynur Hallsson setti upp í Gallerí Víð8ttu hefur verið stolið í tvígang en vegna þrjósku listamannsins og sýningarstjóranna hefur það verið sett upp í þriðja skipti og sýningin verið framlengd um mánuð.

Litla Skerið í Tjörninni sem myndaðist þegar Drottningarbraut var lögð árið nítjánhundruð sjötíu og eitthvað er ónumið land. Tunglið var það einnig einu sinni og Norðurpóllinn og Suðurpóllinn líka. Hver verður fyrstur til að stíga á þetta Sker litið persónulegt skref en um leið stórt skref fyrir mannkynið? Ekki Bandaríki Norður Ameríku heldur auðvitað Evrópusambandið. Hið nýja heimsveldi er mætt á staðinn. Þar hefur verið settur upp fáni ESB, sannkallaður landnemafáni.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur verið iðinn við að setja upp sýningar og síðastliðið haust setti hann upp nokkurskonar yfirlitssýningu á verkum sínum í Nýlistasafninu og í A-sal Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur ásamt verslunum, veitingastöðum og þjónustufyrirtækjum í Miðborginni setti hann upp verkið ÚT/INN.
Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur hlotið starfslaun myndlistarmanna og var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Hlynur vinnur með aðstæður, texta, innsetningar, ljósmyndir, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, snjóhúsbygging eða verslunarleiðangur geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de

Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason hafa starfrækt Gallerí Víð8ttu601 frá árinu 2007. Sýningarnar í Hólmanum í tjörninni í Innbænum á Akureyri munu halda áfram fram á næsta ár og þá taka aðrir sýningarstaðir við.

Sýningin hjá Gallerí Víð8ttu601 hefur verið framlengd til 23. ágúst 2009 og vonandi fær fáninn að vera í friði svo lengi. Nánari upplýsingar um Gallerí Við8ttu601 veita Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason í 435 0033 eða 8461314 og í tölvupósti: vid8tta(hjá)simnet.is
Nánari upplýsingar um verkið veitir Hlynur í síma 6594744 og í tölvupósti: hlynur(hjá)gmx.net"

---

Svarið við fyrstu spurningunni er:

Tilgangur verksins er að vekja upp umræðu, setja hlutina í annað samhengi, vekja upp spurningar og viðbrögð.

Svarið við spurningu tvö:

Ég er hvorki að gera lítið úr Evrópusambandinu né að sýna því stuðning með þessu verki en auðvitað getur hver og einn túlkað þennan "landnema" fána á Skerinu í Tjörninni á sinn hátt.

Og svarið við þriðju og síðustu spurningunni:

Ég ætla ekki að setja upp fleiri pólitísk verk eða verk yfirleitt á Skerinu. Sýningunni lýkur 22. ágúst 2009 en á Akureyrarvöku, viku seinna opnar Haraldur Jónsson nýja sýningu sem er jafnframt síðasta sýningin á vegum Gallerís Víð8ttu601 á þessum stað en ég veit að sýningarstjórarnir eru að leita að nýjum stað fyrir áframhaldandi sýningar. Næstu pólitísku verk sem ég set upp eru spreyverk og textaverk á samsýningu um hrunið sem heitir "Lífróður" og verður opnuð í Hafnarborg í Hafnarfirð þann 29. ágúst 2009.

Svo að lokum vil ég þakka drengjunum kærlega fyrir bréfið og fánann og hvet þá til dáða í framtíðinni en hvet þá einnig til að koma fram undir nafni þó að ég hafi auðvitað fullan skilning á því ef þeir vilja ekki gera það.

Skilti sem einnig var við tjörnina með titli verksins og hluta textans sem einnig er hér að ofan úr fréttatilkynningunni var stolið fyrir nokkrum vikum. Vonandi hringir einhver dyrabjöllunni hjá mér og skilar því eða enn betra væri að koma því bara aftur fyrir þar sem það var, við Tjörnina.

Þá eru bara tveir ESB fánar eftir að koma í leitirnar.

Tengill á frétt í Sjónvarpinu.


mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími á að frysta eignir?

141578AÞað líður varla sú vika að ekki komi meiri drulla upp úr lánabókum bankanna og fréttir af því hvernig eigendur og stjórnendur þeirra hafa hagað sér á kostnað venjulegs fólks í þessu landi því við þurfum jú að borga brúsann að lokum. Ég er ekkert sérstaklega harðorður en get tekið undir með Agli Helgasyni þar sem hann segir meðal annars:

"Ríkisútvarpið sagði frá lánum Landsbankans til Björgólfsfeðga, eigenda bankans.

Lára Hanna skoðar fréttina í þessari bloggfærslu.

Er kannski komið að því að lánabækur Landsbankans og Glitnis fari að opnast? Að óþverrinn velli þar út líka?

Hingað til hefur lekið mest úr Kaupþingi; lánastarfsemin þar virðist hafa verið með algjörum ólíkindum.

Þetta virðist skiptast alveg í tvennt:

Annars vegar er venjulegt fólk sem fær lán og þarf að borga þau aftur með vöxtum og verðbótum og allt er gjaldfellt ef greiðslur berast ekki með skilum.

Hins vegar eigendur bankanna, stjórnendur og vildarvinir sem fá lán eins og hentar og þurfa varla að borga neitt aftur.

Hvað á að kalla þessa tegund af lánastarfsemi?

Ræningjalán?

Hvers konar lið var þetta sem fékk íslensku bankana nánast gefins?

Voru þetta ótíndir þjófar?"

 

Og Jónas Kristjánsson er ekki að skafa utan af því frekar en fyrri daginn en hann segir í pistli:

"Hafa má til marks um fákænsku og eymd Geirs H. Haarde, að hann sóttist eftir að hitta Björgólf Thor Björgólfsson. Vildi að eigin sögn alltaf tala við hann, þegar Björgólfur væri á landinu. Á þessum tíma sagði ég, að menn ættu ekki að taka mark á Björgólfi. Hann væri aumingi, sem ekki borgaði skatta til samfélagsins. Árum saman var hann skattlaus og fyrir rest borgaði hann vinnukonuskatta. Fólk á ekki að taka mark á manni, sem ekki sinnir skyldum sínum við samfélagið. Fyrir mörgum árum sagði ég ítrekað, að Björgólfur Thor væri bara ómerkur græðgiskarl. Ég held, að Geir hafi ekki fattað það enn."

Þessar skilanefndir bankanna sem hin vanhæfa ríkisstjórn SjálfstæðisFLokks og Samfylkingar setti á fót eru einnig grunsamlegar. Er ekki kominn tími til að fá nýtt fólk þar til starfa?

Og eftir hverju er verið að bíða? Það eru rúmir 9 mánuðir frá hruninu og enginn hefur verið handtekinn og eignir aðalgauranna ekki frystar. Þeir hafa haft nægan tíma til að koma öllu undan eins og er að koma í ljós. Það er sem betur fer ljós í þessu myrkri og það er að ríkisstjórninni tókst að fá Evu Joly til starfa og er að fara eftir leiðbeiningum hennar. Það er gott.


mbl.is Skoða lánveitingar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir með strætó!

straeto3 Það eru góðar fréttir að farþegum Strætó á Akureyri heldur áfram að fjölga. 150% aukning er almennileg. Ég þekki það sjálfur að nú er mun auðveldara fyrir krakkana að tæka strætó á Skautaæfingar og í Tónlistarskólann, þarf ekkert klink og vesen. Sjálfur tek ég strætó gjarnan úr miðbænum upp á Brekku með barnavagninn þunga!)

Nú þarf bara að fjölga leiðum (bæta við leiðum sex og átta) og hafa einhverjar ferðir tíðari. Þá munu enn fleiri sleppa því að fara á bílnum í vinnu og skóla og hvert sem er. Það vantar líka strætó útá flugvöll. Skandall að ferðamenn þurfi að labba af flugvellinum og það er ekki einu sinni gangbraut, fyrir löngu kominn tími á gang og hjólabraut meðfram ströndinni við Drottningabraut.

Myndin er af vef Akureyrarbæjar og ekki örvænta, það er ekki kominn svona mikil snjór hér þrátt fyrir hretið, myndin er tekin um vetur. Áfram Strætó!


mbl.is 150% fjölgun farþega strætó á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.