Leita í fréttum mbl.is

Til varnar fórnarlömbum pyndinga

amnesty_international_candle

Á morgun laugardag stendur hópur ungra Amnesty-félaga á Íslandi fyrir uppákomu á Austurvelli. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að mæta. Þeir sem ekki komast geta skrifað undir undirskriftalista með hvatningu til íslenskra stjórnvalda að fullgilda valfrjálsa bókun við Samning Sþ gegn pyndingum með því að senda tölvupóst með upplýsingum um nafn, kennitölu og aðsetur á netfangið ie(hjá)amnesty.is

Hér er tilkymmingin fra Amnesty: 

Til varnar fórnarlömbum pyndinga
Amnesty International á Austurvelli laugardaginn 30. júní 13-17


Laugardaginn 30. júní kl. 13-17 stendur hópur ungra Amnesty-félaga fyrir uppákomu á Austurvelli þar sem vakin verður athygli á þeim pyndingaraðferðum sem eiga sér stað í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ en teljast, samkvæmt endurskilgreiningum ýmissa ríkja á hugtakinu, yfirheyrsla. Gestir og gangandi geta kynnt sér aðferðirnar og þann skaða sem þær valda og gripið til aðgerða gegn pyndingum og illri meðferð.

Arnar Grant einkaþjálfari, Ásgeir Kolbeinsson sjónvarpsmaður og Lóa Fatumata Touray fyrirsæta hafa gengið til liðs við hópinn til að vekja athygli á pyndingum og hlutskipti þolenda. Þau sitja fyrir í sárum á plakötum sem nú prýða strætóskýli víða um bæinn.

Félagar eru hvattir til að mæta, kynna sér málið og grípa til aðgerða til varnar fórnarlömbum pyndinga.

Þann 26. júní voru liðin 20 ár frá gildistöku Samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. 144 ríki hafa fullgilt hann og önnur 8 hafa skrifað undir hann. Einnig hafa 56 ríki fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn sem heimilar eftirlitsfólki að heimsækja fangelsi og aðrar varðhaldsstofnanir án fyrirvara.

Þrátt fyrir það sýna ársskýrslur Amnesty International, ár eftir ár, að í meirihluta ríkja heims er fólk pyndað eða látið sæta illri meðferð. Ársskýrslan árið 2007 fjallaði um 153 ríki og af þeim höfðu minnst 102 beitt pyndingum eða annars konar illri meðferð.

Ein þeirra áskorana sem mannréttindasamtök standa nú frammi fyrir eru tilraunir sumra ríkja til að grafa undan skilyrðislausu banni gegn pyndingum og annarri illri meðferð, t.d. með þeirri rökfærslu að slík meðferð sé nauðsynlegt vopn í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Þessar staðhæfingar hafa mætt mikilli andstöðu en þá hafa ríkisstjórnir gripið til orðaleikja og reynt að túlka og skilgreina hugtök upp á nýtt, t.d. með því að;  

- halda því fram að ákveðnar yfirheyrsluaðferðir eða refsingar teljist ekki til pyndinga
-halda því fram að bannið við grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð sé ekki eins afdráttarlaust og bannið gegn pyndingum og því megi ríki láta fanga sæta illri meðferð í ákveðnum tilfellum
- framselja pyndingar til annarra ríkja og staðhæfa að þau ein beri ábyrgðina
-nota t.d. diplómatískar tryggingar til að sniðganga skuldbindingar til að framselja ekki fanga til landa þar sem hætta er á að þeir verði pyndaðir


Austurvöllur á morgun og undirskriftalisti gegn pyndingum

Við minnum á uppákomu sem hópur ungra Amnesty-félaga stendur fyrir á morgun laugardaginn 30. júní á Austurvelli. Þar verður vakin athygli á þeim pyndingaraðferðum sem eiga sér stað í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ en teljast, samkvæmt endurskilgreiningum ýmissa ríkja á hugtakinu, yfirheyrsla. Gestir og gangandi geta kynnt sér aðferðirnar og þann skaða sem þær valda og gripið til aðgerða gegn pyndingum og illri meðferð.

Meðal aðgerða verður undirskriftalisti með hvatningu til íslenskra stjórnvalda að fullgilda valfrjálsa bókun við Samning Sþ gegn pyndingum (sjá fylgibréf hér að neðan). Þeir sem sjá sér ekki fært að mæta á Austurvöll en vilja bæta nafni sínu við listann geta sent tölvupóst með upplýsingum um nafn, kennitölu og aðsetur á netfangið ie(hjá)amnesty.is.


Háttvirti utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Þann 26. júní voru 20 ár liðin frá gildistöku Samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. 144 ríki hafa fullgilt samninginn og önnur 8 hafa skrifað undir hann. Einnig hafa 56 ríki fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn sem heimilar eftirlitsfólki að heimsækja fangelsi og aðrar varðhaldsstofnanir án fyrirvara.

Ísland hefur undirritað valfrjálsu bókunina en ekki fullgilt hana. Í tilefni af alþjóðlegum degi í þágu fórnarlamba pyndinga 26. júní sl. skorum við undirrituð á íslensk stjórnvöld að fullgilda valfrjálsa bókun við Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einnig hvetjum við þig, háttvirti utanríkisráðherra, að beita þér á alþjóðvettvangi fyrir því að önnur ríki fullgildi samninginn og valfrjálsa bókun við hann.

Viðingarfyllst

Hlynur Hallsson 


Sonic Youth tónleikar í gær

sy

Við Hugi skelltum okkur á tónleika með Sonic Youth í Columbiahalle í gærkvöldi. Þetta voru frábærir tónleikar. Þau spiluðu nýju plötuna "Daydream Nation" eins og hún lagði sig og töku svo nokkur aukalög í lokin. Þvílíkur hávaði og stuð. Ekki beint verið að hlífa gíturunum. Ég sá Sonic Youth á tónleikum í New York fyrir tæpum 15 árum í skólaferðalagi MHÍ. Það var frábært og gott að rifja upp fjörið í gærkvöldi. Áhorfendur gáfust ekki upp á að klappa þau upp og seinna uppklappið stóð í hálftíma. Það margborgaði sig.

SYDDN

Ég efast um að "Daydream Nation" fari á íslenska vinsældarlistann enda ekki beint um vinsældarpopp að ræða, en samt aldrei að vita. Þau verða að túra út árið og spila í Marfa, Texas þann 6. október 2007. Ég reikna ekki með að Bush mæti þó að það sé ekki svo langt fyrir hann að fara af búgarðinum sínum.


mbl.is Sprengjuregn og dansandi Bítlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna

álverumallt

Samtökin Saving Iceland boða til áhugaverðrar ráðstefnu helgina 7. og 8. júlí 2007 á Hótel Hlíð í Ölfusi. Hér eru upplýsingar fyrir þá sem vilja taka þátt í þessari ráðstefnu þar sem fulltrúar samtaka frá Trinidad og Tóbagó, Indlandi, Brasilíu, Canada, Bretlandi, Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum mæta:

Ráðstefna „Saving Iceland" 2007

Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna

Helgina 7. og 8. júlí 2007

Fyrir hönd Saving Iceland, viljum við bjóða ykkur velkomin á ráðstefnuna, auk þess sem við viljum fá ykkur til þess að taka þátt í pallborðsumræðum. Innlegg ykkar væri okkur mikils virði og er nauðsynlegt á tíma stóriðjuvæðingar á kostnað ómetanlegra íslenskra náttúruundra. Það væri okkur ánægja ef þið sæjuð ykkur fært að taka þátt í þessu verkefni: fyrstu ráðstefnunni á Íslandi sem gefur sanna hnattræna sýn yfir nútíma borgaralega umhverfisbaráttu og ástæðurnar sem liggja henni að baki.

Ráðstefnan hefst kl. 11 á laugardaginn og fer fram á Hótel Hlíð, Ölfusi (6 km. frá Hveragerði á leiðinni þaðan til Þorlákshafnar.) Hún er einn fjölda atburða sem "Saving Iceland" hafa staðið að, og munu standa að á árinu, í baráttunni gegn eyðileggingu ósnortnar íslenskrar náttúru.

Nú hafa fulltrúar samtaka frá Trinidad og Tóbagó, Indlandi, Brasilíu, Canada, Bretlandi, Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum tekið boði Saving Iceland um að taka þátt í ráðstefnunni. Hér gefst því einstakt tækifæri til að hitta erlent fólk sem stendur í svipaðri baráttu og við sjálf gegn stíflum og meira að segja sömu stórfyrirtækjum. Fólki úr íslenskum umhverfissamtökunum hefur verið boðið á ráðstefnuna og gefst okkur þar gott tækifæri til að bera saman bækur okkar við erlenda aðila sem standa í baráttunni gegn álvæðingunni.

Saving Iceland eru ekki meðlimasamtök, heldur hópur einstaklinga alls staðar að úr heiminum, sem eru staðráðnir í að standa gegn því að íslensk náttúra sé eyðilögð fyrir hagsmuni stóriðjufyrirtækja. Rétt eins og stórfyrirtækin sjálf eru alþjóðleg er baráttan gegn þeim einnig alþjóðleg.

Við byggjum okkar starfssemi á jafnræði þar sem enginn er yfir aðra hafinn í ákvarðanatöku og ákvarðanir eru teknar með upplýstu samþykki (“consensus decision”). Við erum samtaka um að gefa aldrei eftir grundvallarkröfur okkar. Engar málamiðlanir þegar kemur að því að vernda náttúruna.

Ef þið hafið einhverjar spurningar, hikið þá ekki við að hafa samband. Við værum þakklát ef þið létuð okkur vita sem fyrst hvort þið hafið áhuga á því að koma og taka þátt.

Meðfylgjandi er listi yfir helstu umfjöllunarefni erinda og umræðna á ráðstefnunni.

Drög að helstu umfjöllunarefnum erinda og umræðna

* Íslandi ógnað/
Kynning á þeirri ógn sem steðjar að Íslandi vegna stóriðju.

* Stórar stíflur, áliðnaðurinn og loftslagsbreytingar/
Ekki aðeins álframleiðsla – loftslagsáhrif metans og perflúorkolefna.

* Áhrif stórstíflna á vistkerfi vatnsfalla/
Vistfræði og líffræðileg fjölbreytni – áhrif stórra stíflna.

* Saga borgaralegrar óhlýðni og beinna aðgerða/
Frá fortíð til framtíðar – Hvernig beinar aðgerðir geta breytt gangi sögunnar

* Græn eða grá framtíð?/
Mismunandi framtíðarsýn

* Orkuöflun til stóriðju - Frá Kyoto til Peak Oil/
Stóriðja í leit að hernaðarlega hentugri staðsetningu orkuvera

* Barátta í Trinidad/
Barátta fólks gegn nýjum bræðslum ALCOA og Alutrint í Trinidad & Tobago.

* Narmada Bachao Andolan/
Best þekkta alþýðuhreyfingin á Indlandi,sem berst fyrir réttindum adivasi-ættbálksins sem hrakinn hefur verið frá heimkynnum sínum vegna stórstíflu.

* Baráttan í Kashipur/
Barátta gegn yfirborðsnámu ALCAN í Kashipur, norðaustur Indlandi.

* Stíflur á Amazonsvæðinu/
Ál ógnar regskógunum.

* Rannsókn á áliðnaðinum/
Kynntir helstu aðilar til leiks og greint frá nýjustu þróun í áliðnaði

* Stærsta ósnortna víðernið í Evrópu/
Landslag og lífríki sem ógnað er á Íslandi

* Breytingar á erfðavísum á Íslandi/
Víðara sjónarhorn á erfðabreytt bygg á Íslandi.

* Vaxandi þungi gegn risavélinni/
Að bera saman bækur: alþýðuhreyfingar gegn stóriðju, stórstíflum og hnattvæðingu.

Eftir þriggja ára baráttu gegn stórstíflum og stóriðju mun herferð „Saving Iceland" tengjast baráttunni um heim allan. Um víða veröld hafa stóriðja og stórstífluframkvæmdir hrakið á brott fólk í milljónatali, að mestu án þess að bætur hafi fengist fyrir þann skaða sem hefur orðið. Þessi mannvirki hafa eyðilagt vistkerfi á sjó og landi og eytt dýralífi. Þau hafa mengað andrúmsloft okkar og vötn og breytt loftslagi á óbætanlegan hátt – í nafni framfara. Fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, orðaði það svo: „Ef þú þarft að þjást, ættirðu að gera það í þágu lands þíns", í ræðu yfir þorpsbúum sem átti að hrekja frá heimilum sínum vegna Hirakud-stíflunnar árið 1948. Ríkisstjórnir Íslands og Indlands telja risaraforkuver enn vera tákn um hugvitsemi, framfarir og þjóðarstolt. Í Trinidad og Tobago, sem og á Íslandi leitar áliðnaðurinn að óþrjótandi orkulindum á tímum vaxandi óvissu í orkumálum.

Samt hefur sagan alltaf sýnt undirstrauma sem ekki eru í samræmi við hin ríkjandi framfaraviðhorf. Fjöldi fólks berst gegn því að vera fórnað í þágu lands síns eða efnahagsins og margir hafa barist gegn því að landi þeirra og óbyggðum sé fórnað.

Ráðstefna „Saving Iceland" 2007 mun auka og dýpka þekkingu þína á baráttunni gegn stóriðjunni, í rúmi og tíma.


Stórtónleikar til verndunar náttúru Íslands og gegn stóriðju

SAVING ICELAND KYNNIR:

STÓRTÓNLEIKAR Á NASA – TIL VERNDUNAR NÁTTÚRU ÍSLANDS OG GEGN STÓRIÐJU, MÁNUDAGINN 2. JÚLÍ KL 20.00

Hljómsveitir og tónlistamenn sem fram koma eru meðal annarra:

maggaMúm, Ólöf Arnalds, Bogomil Font og félagar, Magga Stína, Rúnar Júl, Ellen Eyþórs, Mr. Silla og Mongoose, Bloodgroup, Evil Madness, Skátar, Ljótu Hálfvitarnir, Retro Stefsson, Strakovsky Horo, Dj Árni Sveins.

Miðaverð er 2500,- og rennur allur ágóði til náttúruverndar. Miðar verða seldir við innganginn. Frjáls framlög eru einnig vel þegin. Allir listamennirnir gefa vinnu sína til stuðnings samtakana Saving Iceland og verndunar náttúru Íslands.

Þeir sem að tónleikunum standa að þessu sinni eru samtökin Saving Iceland, sem verða með mótmælabúðir í sumar þriðja árið í röð, og standa einnig fyrir ráðstefnunni Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna, um helgina 7. - 8. júlí að Hótel Hlíð, Króki, Ölfusi, þar sem fjöldi fyrirlesara mun flytja erindi og innlendir og erlendir náttúruverndarsinnar munu bera saman bækur sínar.

Náttúruverndarsinnar og aðrir sem áhuga hafa eru hvattir til að mæta og sýna góðu málefni stuðning í sumri og sól.

Látið ekki þessa stórtónleika fram hjá ykkur fara.

Eins og fyrr segir hefjast tónleikarnir kl 20.00, mánudaginn 2. júlí. Húsið opnar kl 19.30.

BJÖRGUM ÍSLANDI FRÁ STÓRIÐJU!

Nánari upplýsingar hjá www.savingiceland.org, Sigurði Harðarsyni - 6637653 Jason Slade - 6902862

Fimm látnir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar

Hverjir bera ábyrgð á því að það hafa fimm manns látið lífið við byggingu þessarar virkjunar?...

mbl.is Lést á leið í sjúkraflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámvæðing eða kynfræsla

abort445

Það er athyglisverð frétt á mbl.is um mikla fjölgun á fóstureyðingum meðal unglingsstúlkna í Svíþjóð. Fréttin er af fréttavef Dagens Nyheter um könnun sem gerð var við háskólann í Uppsala og þar kemur fram að breytt viðhorf til kynlífs meðal unglinga sé um að kenna að fóstureyðingar eru flestar í Svíþjóð af öllum Norðurlöndunum og að aukningin sé mest meðal unglingsstúlkna. Ennfremur segir á mbl.is "Þar er klámvæðingu meðal annars kennt um og tekið fram að unglingar sæki kunnáttu sína nú í auknum mæli í klámmyndir fremur en að fá fræðslu í skólunum og því skorti mjög á fræðslu um getnaðarvarnir, ábyrgð og tillit." Þetta er alvarlegt mál og ber að skoða einnig hér á landi. Það er ljóst að klámvæðingin í samfélaginu hefur víðtæk áhrif og það er okkar að finna leiðir til að sporna gegn henni. Þegar unglingar telja sig fá meiri "kynfræslu" úr klámmyndum en í kynfræðslu í skólanum. Einnig á Íslandi þarf að auka kynfræðslu í grunnskólum og hefja hana fyrr en nú er. Jafnréttisfræðsla og aukin kynfræsla er eitt af því sem leggja þarf meiri áherslu á. Fagna ber tillögunni sem Vinstri græn lögðu fram í borgarstjórn og fékkst samþykkt með öllum greiddum atkvæðum um að koma á jafnréttisfræðslu í skólum í Reykjavík. Það er fyrsta skrefið í rétta átt.

Hér eru svo tölulegar upplýsingar um fóstureyðingar á Noðrulöndunum af fréttavef Dagens Nyheter.

Og hér er greinin öll þar sem meðal annars segir: "Vår forskning gör klart att unga män tycker att de lär sig mycket om sex via pornografi, säger Tanja Tydén [barnmorska och professor vid Uppsala universitet]. För dem har pornografin övertagit skolans roll. Ansvar, hänsyn och kondomanvändning lyser dock med sin frånvaro i porrfilmerna de hämtar sin kunskap ifrån.


mbl.is Mikil fjölgum meðal unglingsstúlkna sem fara í fóstureyðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksleiðtogi eða formaður

Titillinn "aðstoðarflokkleiðtogi" er einhver sá óþjálasti sem ég hef heyrt lengi og eru þó til margir óþjálir titlar innan embættismannakerfisins (einnig óþjált) og í stjórnmálunum. En af hverju kallar mbl.is Gordon Brown nýkosinn formann breska verkamannaflokksins "flokksleiðtoga" og Harriet Harman "aðstoðarflokkleiðtoga" en ekki bara varaformann? Nú getur vel verið að titlarnir í Bretlandi heiti einhverjum furðulegum nöfnum og að það sé ástæðan fyrir þessari þýðingu. Yfirleitt er talað um "leader" sem vissulega er beint þýtt sem leiðtogi en getur auðvitað einnig verið bara formaður.

En burtséð frá titlatogi þá segir eyjan.is frá því að Björgvin G. viðskiptaráðherra sé gestur á flokksþingi Verkamannaflokksins og þar sé mikill baráttuandi og menn gera sér vonir um auknar vinsældir eftir að hafa loksins losnað við Tony B.liar. Til hamingju Harriet Herman með varaformennskuna og Gordon Brown með formennskuna. Hér eru fréttir af kosningunum á Guardian:

Harman elected Labour deputy leader

Blair hands power to Brown

Og hér er fréttaskýring bloggfélaga míns Stefáns Friðriks


mbl.is Gordon Brown orðinn flokksleiðtogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

500.000 ný bílnúmer ættu að duga í nokkur ár

bílastafliHvað er málið með þessi bílakaup okkar Íslendinga? 30.000 nýskráðir bílar á ári hjá þjóð sem telur rúmlega 300.000 manns (og ekki allir með bílpróf!). Hér í Þýskalandi er ef til vill eðlilegt að allir séu hvattir til að kaupa nýja þýska bíla til að halda verksmiðjunum gangandi og skapa þar með vinnu. En á Íslandi eru allir bílar innfluttir og kosta bara gjaldeyri. Vegirnir taka ekki við öllum þessum bílum það sjá allir. Lausnin er ekki mislæg gatnamót á hverju horni og allir vegir fjórbreiðir. Lausnin er almenningssamgöngur, lestir, og strætó, reiðhjól og tími til að ganga. En í staðinn er einn maður í hverjum einkabíl og þarf að gangsetja og rúlla áfram einu og hálfu tonni af drasli til að flytja sinn 60-100 kílóa skrokk. Komum upp góðu kerfi almenningssamgangna og auðveldum fólki að hjóla og ganga og þá þarf ekki að flytja inn alla þessa bíla endalaust. Auðvitað höldum við áfram að eiga bíla en það er óþarfi að hver og einn eigi þrjá! En vonandi duga þessi nýju númer í nokkur ár.
mbl.is Fjöldi fastanúmera á bílum uppurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flughræddur hvítur karlmaður rífur sæti í flugvél í BNA og er snúinn niður af löggu á frívakt

us

Hér kemur nánar fréttaskýring af þessum atburð sem átti sér stað um borð í vél US Airways á leið frá Phoenix til Seattle þann 12. júní síðastliðinn því öll kurl eru ekki komin til grafar.

Það er eitthvað sem segir manni að gúrkutíð sé upphafin. Mbl.is er farið að vitna í blaðið "Tri-City Herald"! Og það með frétt sem átti sér stað 12. júní eða fyrir 10 dögum! Þetta er hinsvegar svo skemmtilegt að full ástæða er til að kryfja málið nánar:
"Lögreglumaður á frívakt kom í veg fyrir að óður farþegi opnaði neyðarútgang flugvélar í áætlunarflugi í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum."
Semsagt alltaf gott að hafa sem flestar löggur á frívakt í flugvélum. Þetta er eins og byrjun á "góðri" bíómynd: Þreytta löggan á leið heim til konu og barna reddar málunum, réttur maður á réttum stað.
"Eftir lendingu tók lögregla við manninum og var farið með hann á sjúkrahús til athugunar."
Hér vantar hver sjúkdómsgreiningin var: flughræðsla, fullur maður eða bara brjálaður farþegi eða þá frjálshyggjumaður sem ekki lætur fosjárhyggjuleiðindapúka segja sér hvenær hann eigi að spenna belti og hvenær ekki!
"Lögreglumaðurinn verður heiðraður fyrir snör viðbrögð."

Þó það nú væri enda maðurinn ekki einu sinni við skyldustörf heldur á frívakt. Fálkaorðu handa löggunni duglegu.
"Atvikið átti sér stað um borð í vél US Airways á leið frá Phoenix til Seattle 12. júní, að því er blaðið Tri-City Herald greinir frá."
Þetta er mikilvægt, best að forðast þessa flugleið í framtíðinni, eða voru ef til vill einhverjir íslendingar um borð í vélinni eða ætluðu að taka þetta flug en misstu af því? Aðeins farið að slá í 9 daga gamla frétt en samt góð fyrir því og blaðið Tri-City Herald örugglega gott blað, fyrst með fréttirnar.
"Þegar hafin var lækkun til lendingar í Seattle neitaði farþeginn að festa öryggisbeltið og fór að rífa sætið í sundur."
Hérna koma mikilvægar upplýsingar fram, allt annað mál hefði verið ef þetta hefði verið í flugtaki. En af hverju fór hann að rífa sætið í sundur? Ætlaði hann að setja það saman aftur? Var sætið óþægilegt? Var þetta leðursæti eða var það ef til vill ástæðan fyrir því að maðurinn byrjaði að rífa það í sundur að þetta var ekki leðursæti eins og hann vildi? Kannski er maðurinn bólstrari?
"Flugliðar reyndu að fá hann til að setjast og festa beltið, en þá teygði hann sig í handfangið á neyðarútganginum, sagði lögreglumaðurinn, sem skarst í leikinn, hafði óða farþegan undir og fór með hann aftur í vélina þar sem tókst að koma á hann böndum."
Sat maðurinn semsagt við neyðarútgang? Og hvar sat löggan? Við hliðina á manninum? Af hverju fór löggan með manninn afturí? Er ekki líka neyðarútgangur þar?
Ég krefst þess að mogginn fari í málið og komst að öllu því mikilvæga í þessu máli svo við lesendur mbl.is sitjum ekki uppi með helling af óleystum ráðgátum.


mbl.is Óður farþegi reyndi að opna neyðarútgang á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin útgjöld til hermála og áfram tryggustu bandamenn Bush

ogmundur.is

Utanríkisráðherrann Ingibjörg Sólrún er í heimsókn hjá vinum okkar í austrinu (Norðmönnum) og er að spjalla um "varnarmál" og hvað það muni kosta okkur að hafa norskar herþotur yfir hausunum á okkur: "Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að Íslendingar þurfi að horfast í augu við verulega aukningu í útgjöldum vegna varnarmála en sá útgjaldaliður verður í fyrsta sinn í næstu fjárlögum."
Ögmundur Jónasson skrifar góðan pistil um annan "varnarfund" Ingibjargar Sólrúnar og Geirs H. Haarde með Nicolas nokkrum Burns aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Pistill Ögmundar er þrusugóður og yfirskriftin er: STÓÐ EKKI TIL AÐ NÝ RÍKISSTJÓRN MÓTMÆLTI ÍRAKSSTRÍÐINU?


mbl.is Utanríkisráðherra ræddi varnarmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bömmer fyrir Repúblikana

bloombergMichael R. Bloomberg, borgarstjóri í New York, sagði sig úr Repúblikanaflokknum í gær til að bjóða sig fram sem óháður fulltrúi í forsetakosningunum á næsta ári. Bloomberg er fullkominn tækifærissinni því árið 2000 sagði hann sig úr Demókrataflokknum til að vera fulltrúi Repúblikana í borgarstjórakosningunum í New York. Þetta er mikill bömmer fyrir Repúblikana því það er augljóst að hann mun aðallega taka atkvæði frá forsetaframbjóðenda þeirra. Þetta eykur því líkurnar á því að Hillary Clinton eða Barak Obama verði forseti. Michael Moore sagðist í viðtali ennþá vona að Al Gore verði frambjóðandi Demókrata en það þykir flestum ósennilegt. En þetta skref Bloombergs eykur líkurnar á því að það séu skárri tímar framundan í BNA og var kominn tími til eftir hið svarta Bush tímabil.


mbl.is Bloomberg segir sig úr Repúblikanaflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðlistana burt og málum bæinn bleikan

19.júníKönnunin á áhrifum biðlista á eldra fólk er þarft innlegg í umræðuna um stöðu aldraðra og kemur ekki á óvart. Að hverju er Samfylkingin hætt að hrópa "biðlistana burt"? Og var Ingibjörg Sólrún ekki strax farin að draga í land með að útrýma biðlistum og farin að halda því fram að það verði alltaf til biðlistar? En er ekki allavega málið að stytta þá eins og kostur er eða á að halda áfram að búa til fleiri sjúklinga með þessum bilistum? Steinunn Arna Þorsteinsdóttir og Díana Dröfn Heiðarsdóttir eiga þakkir skildar fyrir að vekja áthygli á tengslum þunglyndis og biðlist. Nú þarf bara að vinna í málunum en ekki yppta öxlum. 

Til hamingju með daginn konur og karlar. Ég ætla að fá lánaðan bleik/hvítan arabaklút sem Lóa Aðalheiður skilur helst ekki við sig. Hún á nóg af bleikum flíkum en ég ekki. Þá get ég sagt fólki hér í Berlín að það sé hátíðisdagur á Fróni og allir í bleiku. 


mbl.is Aldraðir á biðlistum þjást af þunglyndi og kvíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veisla í Berlín

17.juni

Ég veit ekki betur en að 17. júní hátíðarhöldin hafi farið vel fram einnig hér í Berlín. Það voru allavega flestir í sólskinsskapi í veislu í sendiherrabústaðnum og Ólafur Davíðsson ásamt konu sinni Helgu og tveim sonum tóku á móti gestum. Það var fjöldi fólks, íslendinga og þjóðverja og fleiri sem gæddu sér á pylsum og kóki. Svanir, endur og fólk synti framhjá og stemningin var fín. Húsið er flott og á frábærum stað svo það er ekkert skrítið að það hafi kostað eitthvað. En mér sýnist þeim peningum hafi verið vel varið og húsið kemur að góðum notum. Hugi tók mynd af sendiherrabústaðnum og veislugestum og svo er hægt að skoða fleiri myndir sem hann tók í Feneyjum og á tvíæringnum hér

Egill Helga missti semsagt af góðri 17. júní veislu hér í Berlín og flaug í staðinn til Grikklands ennþá með einhverjar ranghugmyndir um DIE LINKE og Vinstri græn. En það verður bara að hafa það.


mbl.is Hátíðarhöld fóru vel fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. júní, DIE LINKE og Sendiherrabústaðurinn í Berlín

stage_logo17. júni heilsar með sól og blíðu hér í Berlín. Þetta er einnig hátíðisdagur hér því þess er minnst að þennan dag fyrir rímlega 50 árum gerðu verkamenn í austurhluta Þýskalands uppreisn sem var barin niður. Í gær var svo sögulegur dagur þegar stjórnmálaflokkurinn DIE LINKE var formlega stofnaður og Oskar Lafontaine kosinn formaður með meira ein 80% atkvæða og einnig Lothar Bisky. Framtíðarformaðurinn hlýtur svo að vera Katja Kipping, ung og hress baráttukona sem setið hefur á þinginu frá 2005 og lagt áherslu á umhverfismál, alþjóðavæðingu og femínisma. Hún fékk glæsilega kosningu sem varaformaður og hefur verið gagnrýnin á gömlu karlana í forystunni. Í gærkvöldi lauk glæsilegum fundi sem blés baráttukrafti í brjóst og bjartsýni á komandi tíma með nýjum fe´lögum sem gengu til liðs við DIE LINKE einnig frá Sósíaldemókrötum og Græningjum.

070616_parteitag_eroeffnungVið ætlum að skreppa í Grunewalds og heilsa uppá sendiherrahjónin sem bjóða til grillveislu og það verður spennandi að sjá þennan rándýra sendiherrabústað sem olli miklu fjaðrafoki á Íslandi fyrir nokkrum árum. Það verður einnig gaman að hitta þær systur Bjarnheiði og Líneyju Höllu sem eru hér við nám og störf. Þetta verður vonandi góður dagur í góðum hópi og mikill hátíðisdagur.


mbl.is Dagskrá hátíðarhalda þjóðhátíðardaginn 17. júní á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstriflokkurinn formlega stofnaður á morgun

parteitag1003_ankuendigung

Ég er staddur á landsfundi Die Linke.PDS í Berlín sem fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það er mikið stuð því það stendur heldur betur mikið til: á morgun verður Vinstriflokkurinn formlega stofnaður og það eru söguleg tíðindi að fólk úr vestri og austri myndar öfluga hreyfingu sem mun hafa mikil áhrif á stjórnmál og þjóðmál í Þýskalandi og í Evrópu.
Die Linke mun hafa öflugan stuðning í austurhluta Þýskalands þar sem flokkurinn myndar meirihluta í mörgum sambandslöndum og borgum með 130 bæjar- og borgarstjóra og um 6500 fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum. Hingað til hefur landið verið erfiðara í vesturhlutanum en það er að breytast til dæmis með tilkomu vinsælla og öflugra stjórnmálamanna á borð við Oskar Lafontain sem er formaður WASG sem kemur til liðs við Vinstriflokkinn.

gruendungsparteitag_ankuendigung
Formaður DieLinke.PDS Lothar Bisky var að halda þrumuræðu og kveðja PDS nafnið formlega og hefja nýja sókn með nýju fólki og nýjum hugmyndum en sömu hugsjónum um félagslegt réttlæti, frið og velferð fyrir alla.
Aðeins of mikið klappað inní ræðuna hans Lothars en stemningin er þannig að fólk ræður sér ekki fyrir kæti. Það er mikill heiður að fá að vera fulltrúi Vinstri grænna á þessum sögulega landsfundi og verða viðstaddur stofnun Vinstriflokksins hér í Berlín.
Ég hef auðvitað fylgst náið með þýskum stjórnmálum síðustu 15 árin og hallaðist í upphafi mjög að Græningjum en er nú sannfærður um að nýtt upphaf Die Linke og vinstrifólks með áherslu á umhyggju fyrir umhverfinu, og félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og friði sé rétt skref.
Það eru mikilvæg verkefni framundan. Barátta gegn uppgangi hægri öfgamanna, nýnasista. Barátta gegn eyðileggingu velferðarkerfisins sem stóra samsteypustjórn krata og íhaldsmanna stendur fyrir. Það er fjöldi landsþingskosninga á næsta ári þar sem Vinstriflokkurinn ætlar að stimpla sig rækilega inn, í Hamborg, neðra-Saxlandi, Hessen og Bæjarlandi sem verður sennilega erfiðasta verkefnið því Bæjaralandi ert kaþólskt og íhaldsamt en sem betur fer er þar einnig skapandi fólk og bjartsýnt sem styður félagslegt réttlæti og því fólki fer fjölgandi og þau munu kjósa Vinstriflokkinn.
Það eru því bjartir tímar framundan og næg verkefni fyrir Vinstriflokkinn "Die Linke" hér í Þýskalandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.