Leita í fréttum mbl.is

Svíar sýna fordæmi: sleppum þessum "fegurðarsamkeppnum"

steriEnn og aftur ganga Svíar á undan með gott fordæmi. Sleppa því að senda fulltrúa á þessa hallæris "keppni" kennda við fegurð. Annar vinkill á málið er keppnin sem haldin var á Ísafirði með raunverulega fallegu fólki. Þar sem allt snérist ekki bara um útlit og að ganga á palli í bikini. Í frétt á ruv.is segir: 

"Svíar hafa ákveðið að senda ekki fegurðardrottningu sína í keppnina um fegurstu konu heims, Miss Universe, sem fer fram í kvöld i Mexíkó. Ástæðan er sú að Svíar telja að keppnin lítillækki konur.

Umboðsmaður sænsku keppninnar hefur einnig breytt um aðferð til að hafa uppi á fegurstu konu landsins. Hin hefðbundna sýning þar sem keppendur ganga um á sviði í baðfötum og kvöldkjólum heyrir sögunni til. Þess í stað geta stúlkur sótt um að verða fegurðardrottning, rétt eins og hvert annað starf. Þar af leiðandi þykir það ekki hæfa fyrir ungfrú Svíþjóð, Isabel Lestapier Winqvist, að taka þátt í keppninni í kvöld, þar sem þeir mælikvarðar sem þar er notast við séu ekki lengur í gildi í heimalandi hennar."

Til hamingju með þetta Svíar! Vona að fleiri þjóðir fylgi í kjölfarið t.d. við Íslendingar. Ég læt svo fylgja mynd af einhverjum voða fallegum sterabolta.


mbl.is Ungfrú Alheimur krýnd í Mexíkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóflóð og menningarflóð

Þórunn.EymundardóttirÞað má teljast mesta mildi að enginn sjömenninganna skyldi hafa slasast eða eitthvað þaðan af verra hent þau í snjóflóðinu. Ég var nýbúinn að ná í Huga og félaga hans aftur úr Fjallinu þegar þetta gerðist. Það hljómar dálítið spennandi af fá far niður af toppnum á snjóbreiðu en sennilega skemmtilegra eftir á heldur en að lenda í því.

Í Morgunblaðinu á föstudaginn skrifaði Anna Jóa svo um annarskonar flóð nefnilega myndlistarflóðið á Akureyri undir fyrirsögninni "Kraumandi listalíf". Þetta er áhugaverð grein og ég stal henni af síðunni hans Jónasar Viðars félaga míns og birti hér með nokkrum tenglum. 

MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. MAÍ 2007 BLS. 19

Kraumandi listalíf

Athafnasemi á myndlistarsviðinu á Akureyri takmarkast ekki viðviðburði á Listasumri, heldur ríkir þar í bæ mikill myndlistaráhugi og gróska í sýningarhaldi allan ársins hring. Listasafnið á Akureyri hefur fyrir löngu sannað gildi sitt meðmetnaðarfullu sýningarhaldi, líkt og hið einstæða Safnasafn við Svalbarðsströnd.

Gróskuna í listalífi bæjarins má ekki síst rekja til starfsemi Myndlistaskólans á Akureyri sem nýlega fagnaði 33. starfs ári sínu með árlegri útskriftarsýningu. Skólinn býður upp á nám á háskólastigi í myndlist og listhönnun og er sem slíkur valkostur við höfuðborgarsvæðið. Skólinn stendur einnig fyrir námskeiðum fyrir börn, unglinga og fullorðna og þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þeirrar starfsemi í samfélaginu. Myndlistaskólinn á Akureyri er viðurkenndur afmenntamálaráðuneytinu og styrktur af ríki og bæ en tryggja þyrfti fjárhagslegan rekstrargrundvöll hans til framtíðar.

Á Akureyri eru starfrækt fjölmörg sýningarrými og gallerí. Pistilhöfundur brá sér norður á dögunum og heimsótti sýningarrýmið galleriBox sem Menningarmiðstöðin Listagil við Kaupvangsstræti hefur umsjón með og rekið er af hópi myndlistarmanna sem hafa þar vinnustofur. Á sýningu Þórunnar Eymundardóttur „Hornberi“ hafði Boxinu verið pakkað inn og sviðsett þar nokkurs konar gægjusýning með hreindýraívafi. Næsti sýnandi er Margrét H.Blöndal sem tilnefnd var til íslensku sjónlistaverðlaunanna á síðasta ári en stofnað var til þeirra að frumkvæði Listasafnsins á Akureyri.

Listalífið er sérstaklega blómlegt við Kaupvangsstrætið. Í Jónas Viðar Gallery sýnir nú Þorvaldur Þorsteinsson en hann er Akureyringur að uppruna og hóf einmitt myndlistarnám sitt í Myndlistaskólanum. Áhugaverðar myndlistarsýningar hafa verið í Populus Tremula, menningarsmiðju í Listagilinu. Í Deiglunni í Listagilinu sýnir um þessar mundir Pétur Örn Friðriksson verk sem lúta m.a. að ferðalögum og farartækjum.

Brekkugatan státar af tveimur galleríum. Þar er Gallerí DaLí rekið, ásamt vinnuaðstöðu, af tveimur nemendum Myndlistaskólans, þeim Sigurlínu M. Sveinbjörnsdóttur eða Línu, sem nú sýnir í galleríinu í tengslum við útskrift sína, og Dagrúnu Matthíasdóttur. Framtak þeirra endurspeglar þann myndlistaráhuga sem starfsemi skólans hefur í för með sér.

Gallerí + við Brekkugötu 35 hefur verið starfrækt frá 1996 af hjónunum Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur og Joris Rademaker – af löngun til að skapa „viðbót“ (samanber „+“) í listaflóru bæjarins. Nú er þar sýning Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, sem framlengd hefur verið þrisvar sinnum vegna mikillar aðsóknar. Vel heppnuð sýning Aðalheiðar samanstendur af skúlptúrum og lágmyndum auk blárrar birtu úr lofti og er byggð inn í rýmið. Í sumar verður þarna sýning Guðrúnar Pálínu sem fjallar um sjálfsmynd hennar út frá stjörnukorti. Gallerí +er rekið í sjálfboðavinnu og nýtur lítilla sem engra styrkja og virðist sú vera raunin með ýmis önnur sýningarrými á Akureyri – þau virðast ekki rekin með hagnað að leiðarljósi. Mikilvægt er að styðja við bakið á slíkri hugsjónastarfsemi sem er mikilvægur þáttur í aðdráttarafli bæjarins.

Anna Jóa


mbl.is Sjö manns lentu í snjóflóðinu í Hlíðarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullpálminn til Rúmeníu

Cristian.MungiuÞað mætti halda að þetta væri samsæri austurblokkarinnar. Allt svindl og svanárí...? Reyndar ekki, frekar en annarsstaðar, heldur er myndin 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile (4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar) sennilega bara afar góð mynd og á þennan Gullpálma fyllilega skilinn. Til hamingju Cristian Mungi með myndina og pálmann. Myndin gerist í Rúmeníu seint á níunda áratugnum segir frá tveimur vinkonum sem leita allra leiða til að koma annarri þeirra í ólöglega fóstureyðingu. Löng skot einkenna víst myndina og eru hennar aðal sjarmi auk aðalleikkonunnar, Anamaria Marinca, sem heldur myndinni uppi með mögnuðum en hófstilltum leik samkvæmt lýsingum Birtu Björnsdóttur í Cannes. Aðdráttarafl myndarinnar felst ekki síður í þeirri yfirvofandi eymd sem áhorfandinn skynjar allan tímann án þess að verið sé að velta sér uppúr því dapurlega. Umsögn tyrkneska rithöfundarins og Nóbelsverðlaunahafans Orhan Pamu lofar góðu en hann segir „Þetta er alveg ótrúlega falleg mynd og maður naut hverrar sekúndu við að horfa á hana. Við vorum næstum öll á einu máli um, að þetta væri besta mynd hátíðarinnar.”
Vonandi fáum við að sjá myndina hér uppfrá fljótlega sem kærkomna hvíld frá Hollywoodvellunni. Mig langar auðvitað líka til að sjá myndina No Country For Old Men þeirra Coen bræðra en mér fannst ansi slappt af þeim að mæta ekki á lokaathöfnina þó að þeir hafi ekki hlotið gullið að þessu sinni. En kannski komust þeir bara ekki eða vissu ekki að Jane Fonda myndi mæta til að afhenda verlaunin og fara í smá leikfimi. Synd að missa af þessu.


mbl.is Fagnað þegar tilkynnt var að gullpálminn færi til Rúmeníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúkað á Bush

bushSennilega táknrænt að þegar Bush er að reyna að verja dómsmálaráðherrann Alberto Gonzales sem er í djúpum skít að þá skuli lítill fugl kúka á hann. Hefði verið enn skemmtilegra ef hann hefði hitt hann beint á kollin.

mbl.is Bush fékk óvænta flugsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyringar taka af skarið

dreggÞað er frábært að nú eigi að hefja strandsiglingar að nýju. Forsvarsmenn fyrirtækisins Dregg á Akureyri eiga heiður skilinn fyrir að taka af skarið. Það er ánægjulegt að einnig verða teknir upp beinir sjóflutningar frá landsbyggðinni til meginlands Evrópu. Þetta er einnig mun umhverfisvænni flutningar en að flytja allt á vörubílum til Reykjavíkur fyrst. Þetta eru aðrar góðu fréttirnar með stuttu millibili af flutningum frá Akureyri beint til Evrópu því Norðurflug er að hefja beint fraktflug frá Akureyri í byrjun júní. Ég vona að þessi starfsemi eigi eftir að blómstra. Því þó að maður sé stoltur af höfuðborginni þá er hún ekki nafli alheimsins og óþarfi að öll samskipti okkar fari þar í gegn. Við þurfum fleiri frumkvöðla eins og Ara Axel Jónsson eiganda fyrirtækisins Dregg.
mbl.is Strandsiglingar hefjast aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með það

Ánægjulegt að þeir sem stjórna þessari vefsíðu með aðganginum að nauðgunarleiknum hafi séð að sér og skipt um skoðun og fjarlægt leikinn. Batnandi mönnum er best að lifa. Þetta er vonandi bara fyrsta skrefið í auknu siðferði á Netinu.
mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brengluð siðferðiskennd

nei.vid.naudgunum

Það er eitthvað að siðferðiskennd þeirra sem hafa gaman að því að spila svona nauðgunarleiki eins og líst er í frétt mbl.is. Þetta er hreinn viðbjóður af lýsingum að dæma. „Maður verður ekki nauðgari af því að spila leikinn, ekki frekar en maður verður morðingi af því að spila morðleiki," segir náunginn sem stendur fyrir síðunni þar sem hægt er að spila "leikinn". Þetta gerir hinsvegar nauðganir að "leik" og fá einhverja til að finnast nauðgun ekki vera alvarlegur glæpur. Það er málið.


mbl.is "Afar ósmekklegur leikur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60 metra eldsúlur úr olíuhreinsistöð

statoilÞessi bruni í olíuhreinsistöðinni í Bergen ætti að vera okkur víti til varnaðar. Frekar fáranleg hugmynd að ætla að klessa einni svona á Vestfirði. Af hverju geta stjórnvöld ekki einbeitt sér að vandanum sem liggur fyrir, kvótaruglinu og byggt heldur upp lífvænlega atvinnustarfsemi á Vestfjörðum frekar en að villa um fyrir fólki með einhverjum stóriðjudraumum. Það er nóg af fínum hugmyndum sem eru smáar en margt smátt gerir eitt stórt og það er auk þess betra fyrir alla. Fréttin af brunanum mikla á visir.is er betri en sú á mbl.is.
mbl.is Mikill bruni í olíuhreinsunarstöð skammt frá Bergen í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru málin?

geirogsollaÞessi sáttmáli er vonbrigði. Hvað um að taka okkur af lista hinna viljugu? Hvað með stóriðjuhléið? Samfó virðist hafa guggnað á öllu. Íhaldið heldur í sína ráðherra og bætir við sig heilbrigðismálum. Staðan er 5-1 fyrir karlana hjá íhaldinu sem er ekki góð byrjun fyrir konurnar. Eru þær vanhæfar að mati Geirs?  Gott að samgöngumálin eru samt komin úr höndum Sturlu. Kristján Möller drífur vonandi í að koma á strandsiglingum, lengingu flugbrautar á Akureyri og bora Vaðlaheiðargöng um leið.  Heilt á litið er þessi stjórn ekki sú framfarastjórn sem var lofað. Frekar óbreytt ástand hjá Sjöllunum og Samfó því miður ekki að standa við stóru orðin. Ég sé ekkert um afnám biðlistana þarna! Átti ekki að fækka ráðuneytum?

mbl.is Ágreiningur um þjóðareign á náttúruauðlindum verði leiddur til lykta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppniseftirlitið að standa sig

frumherji adalskodun

Loksins er Samkeppniseftirlitið að virka. Það vakti furðu þegar Frumherji keypti Aðalskoðun í vetur. Ég bloggaði um málið og DV tók málið upp. Það er ástæða til að óska Samkeppniseftirlitinu til hamingju með þessa ógildingu á samrunanum. Menn eru að vinna vinnuna sína með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Í frétt mbl.is segir:

"Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna Frumherja og Aðalskoðunar og segist telja, að samruni félaganna hindri virka samkeppni á markaði fyrir skoðun skráningarskyldra ökutækja og markaðnum fyrir skoðun á aðstöðu, hreinlæti og innra eftirliti vinnsluleyfishafa í sjávarútvegi.

Frumherji keypti í janúar allt hlutafé Aðalskoðunar og segir Samkeppniseftirlitið, að í því felist samruni félaganna tveggja í skilningi samkeppnislaga. Félögin séu hin einu sem starfi á fyrrgreindum mörkuðum og því sameiginlega í einokunarstöðu þar. mörkuðum. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samruni félaganna hindri virka samkeppni á þessum mörkuðum og vinni þannig gegn markmiði samkeppnislaga."


mbl.is Samruni Aðalskoðunar og Frumherja ógiltur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint fraktflug frá Akureyri til Evrópu

ak.flugvöllurÞað eru gleðileg tíðindi að Norðanflug sé að hefja beint fraktflug frá Akureyri til Evrópu. Nú þarf ekki að keyra allan fiskinn suður í flug svo þétta léttir á vegakerfinu og er afar umhverfisvænt. Í frétt á mbl.is segir:

"Starfsemi Norðanflugs ehf., félags um fraktflug frá Akureyri til meginlands Evrópu, er formlega hafin. Segir félagið, að fyrsta fraktflugið á vegum félagsins verði þann 3. júní en þá verði flogið með vörur frá Akureyri til Oostende í Belgíu.

Norðanflug mun fljúga þrisvar í viku til að byrja með, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum. Segir félagið að Oostende í Belgíu hafi orðið fyrir valinu vegna góðrar legu með tilliti til dreifingar á fiski innan Evrópu. Þaðan sé einungis um tveggja stunda akstur til Boulogne sur Mer í Frakklandi, sem sé áfangastaður stærsta hlutar þeirra fersku fiskflaka sem fara með flugi frá Íslandi."

Daginn eftir hefst svo beint flug til Köben á vegum IcelandExpress eftir hlé. Nú þarf að ganga í það að lengja flugbrautina og taka upp flug allt árið til Evrópu því það munar miklu fyrir okkur íbúana hér og einnig fyrir ferðamennskuna á Norðurlandi. Hingað til hefur áhuga skort hjá samgönguráðherra en nú getur maður verioð bjartsýnn því ástandið getur ekki versnað.


mbl.is Norðanflug hefur fraktflug í byrjun júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskriftarsýning nemenda Myndlistaskólans á Akureyri opnar í dag, laugardag klukkan 14

mynd_list

Þrítugasta og þriðja starfsári Myndlistaskólans á Akureyri lýkur með veglegri sýningu á verkum nemenda í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16. Sýnd verða verk nemenda fornámsdeildar, listhönnunar- og fagurlistadeildar. Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári.

Eftirtaldir nemendur útskrifast úr sérnámsdeildum skólans: Aðalbjörg Kristjánsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Charlotta Þorgils, Sigurlín Margrét Grétarsdóttir, Steinn Kristjánsson, Steinunn Ásta Eiríksdóttir, Sveinbjörg Ásgeirsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Hjalti Jónsson, María Hafsteinsdóttir og Petra Sæunn Heimisdóttir.

Einnig verða sýnd verk eftir nemendur sem voru á barna- og unglinganámskeiðum á vorönn. Allir eru hjartanlega velkomnir í Myndlistaskólann á Akureyri um helgina. Sýningin verður opin kl. 14 til 18 laugardaginn 19. maí og sunnudaginn 20. maí.

Hér er svo glæsileg heimasíða skólans. Þar má meðal annars fá allar upplýsingar um skólann, umsóknarblöð og sjá útskriftarverk Eyrúnar Eyjólfsdóttur frá því í fyrra sem var svo tilnefnt til Eddu verðlaunanna 2007.


Ríkisstjórnin steig niður á uppstigningardag

Geir.Haarde jón.sig

Ríkisstjórnin steig niður á uppstigningardag, Geir og Ingibjörg Sólrún ætla að "ræðast við" og ég er með gubbupest. Þetta er einhvernvegin allt í stíl.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti kosturinn í stöðunni

ny-vgstjorn

Það eru blendnar tilfinningar sem maður ber í brjósti eftir þessar kosningar. Vissulega er maður glaður yfir því að Vinstri græn eru ótvíræðir sigurvegarar og bæta við sig 4 þingmönnum. Ég hefði samt viljað að Lilja hefði einnig komst á þing og orðið 10 þingmaður VG. Það að ríkisstjórnin slefist til að halda meirihluta þingmanna með langt undir helmingi atkvæða er náttúrulega skandall.  En það verður bara að bíta í þetta súra epli enda eru súr epli holl fyrir mann.

Það er vissulega besti kosturinn í stöðunni að Vinstri græn myndi minnihlutastjórn með Samfylkingunni og með stuðningi Framsóknar. Ég er afar bjartsýnn að eðlisfari en verð samt að segja að mér finnst frekar ósennilegt að Framsókn sé í stuði til að gera þetta góðverk fyrir þjóðfélagið. Ég vona samt að Framsókn gangi ekki á baka orða sinna og hangi áfram í stjórn með íhaldinu. Valgerður, Jón og Guðni lýstu öll yfir fyrir kosningar að það kæmi ekki til greina yrðu úrslitin eins og þau svo urðu: Afhroð Framsóknarflokksins. 

Vinstri græn koma tvíefld út úr þessum kosningum og það er gott veganesti inn í framtíðina.


mbl.is Hafa áhuga á myndun minnihlutastjórnar í skjóli Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur til að kjósa Vinstri græn

graentflurlogo

Í dag höfum við tækifæri til að gera upp við ríkisstjórn ójöfnuðar og ólaga og snúa við blaðinu með því að kjósa Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Flokkinn sem hefur staðið í lappirnar í umhverfismálum, jafnréttismálum, velferðarmálum og utanríkismálum.  Hér eru nokkrar góðar ástæður fyrir því að skipta um ríkisstjórn og gera daginn að V degi:

Lýðræði!

-Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.

- Eflum grasrótarsamtök og tryggjum aðkomu almennings og frjálsra félagasamtaka að lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Samfélag fyrir alla!

- Burt með komugjöld og sjúklingaskatta.

- Tryggjum almenningi lægra orkuverð og nýtum hlut ríkisins í Landsvirkjun í þágu skynsamlegrar orkunýtingar. Afturköllum lög um einkaeign á vatni og tryggjum að aðgangur að vatni verði áfram hluti af grunnréttindum okkar, líkt og andrúmsloftið.

Græn framtíð!

- Stöðvum frekari stóriðjuframkvæmdir og ákveðum hvaða svæði við ætlum að vernda til framtíðar.

- Stofnum loftslagsráð sem vinnur markvisst gegn losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með vistvænum samgöngum og fræðslu um umhverfismál.

Kvenfrelsi!

- Afnemum launaleynd strax og eflum Jafnréttisstofu.

- Vinnum að því að tryggja a.m.k. 40% hlut kvenna á þingi og í sveitarstjórnum, t.d. með því að hvetja til að fléttulistum verði beitt.



Ég ætla að mæta snemma á kjörstað (er að leggja af stað) og kjósa X - V


mbl.is Búið að opna kjörstaði um allt land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband