Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eru karlmenn letingjar?

445707A... ef til vill að mati þeirra sem stjórna hjá Hagkaupum. Hugmyndin er samt ekki alveg ný því um daginn var síðasta fréttin í Sjónvarpinu einmitt um svona pössunarherbergi fyrir karla í einhverri verslunarmiðstöð á Spáni.

Ef karlarnir nenna ekki að fara með til að kaupa inn þá væri nú tilvalið að vera bara heima og ryksuga eða vera búnir að elda þegar konan kemur frá því að kaupa inn fyrir heimilið. Með þessu herbergi eru karlarnir settir á leikskólaaldurinn og það er nú ekki alveg það sem við viljum, eða hvað?

Auðvitað eiga karlar að taka þátt í innkaupum heimilisins eins og konurnar og mér hefur sýnst margir karlar vera að kaupa inn í Bónus svo ástandið er nú ekki eins alvarlegt og forsvarmenn Hagkaupa virðast halda.


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipting í bleikt og blátt er úrelt

423886AGott hjá Kollu að benda á að það sé dálítið einkennilegt að enn sé viðhaldið einhverri úreltri kynskiptingu strax við fæðingu barnanna okkar. Það er árið 2007 og auðvitað er fyrir löngu kominn tími til að afnema þessa skiptingu. Það væri líka mun hentugra að hafa börnin í hvítum göllum, lítið mál að breyta þessu á fæðingardeildinni. Það er eins og það sé verið að innprenta foreldrum að stelpur eigi að vera í bleiku og strákar í bláu. 

Ég spái því að (aðallega) karlkyns bloggarar fara hamförum hér í athugasemdum og sé að það eru reyndar nú þegar langar runur af skrifum um þessa frétt og flestar fyrirsagnirnar mjög í eina átt, að fordæma þessa fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur. 

Yngsta stúlkan okkar, hún Una Móeiður fæddist heima svo henni var bara skellt í ullargallann þar og Lóa Aðalheiður er einnig fædd heima, þá í Þýskalandi en Hugi fæddist hér á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég hélt reyndar að það væri fyrir löngu búið að afnema þessa skiptingu í bleikt og blátt en betra er seint en aldrei.


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur Egils er karlakjaftaþáttur

445564AÉg skil vel að Katrín Anna, Sóley og Drífa hafi ekki áhuga á að mæta í aðalkarlakjaftaþáttinn í sjónvarpinu til að Egill geti hamast á þeim. En Sigríður Andersen mætti! Egill leggst samt ansi lágt að gera blaðamanninn Elías Jón Guðjónsson tortryggilegan af því að hann er í UVG. Egill skellir inn pistli sem má lesa hér.

Það er nokkuð til í því sem Katrín segir: "Egill hefur hingað til ekki haft fyrir því að hafa samband við femínista nema þegar umræðan snýst um klám og þess háttar málefni en það væri ærin ástæða til að tala um fleiri mál."

Af blogginu að dæma fagna þeir karlar sem halda uppi málstað gegn jafnrétti og froðufella alltaf þegar minnst er á femínisma. Þeir styðja Egil.

Ég er hættur að nenna að horfa á þennan útvarpsþátt í sjónvarpi sem Silfrið er. Geisp.


mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær Frelsari

big-Frelsarinnjpg Magnús Geir hefur staðið sig afar vel sem leikhússtjóri hér fyrir norðan og það væri synd ef hann færi strax suður aftur, en auðvitað vel skiljanlegt. LA hefur blómstrað og á laugardaginn sáum við stórkostlega sýningu þar, gestasýningu Kristjáns Ingimarssonar, Frelsarann. Þetta er almennilegt leikhús og maður á eiginlega ekki orð til að lýsa verkinu. Það er bara fúlt að það voru ekki fleiri sýningar en tvær hér fyrir norðan og aðeins ein í Þjóðleikhúsinu því þetta er verk sem allir ættu að sjá og það ætti að geta gengið í mánuði. Frelsarinn er líka verk sem hentar öllum aldurshópum. Kristján hefur gert kraftaverk ásamt félögum sínum og frábært að fá að sjá þetta verk hér fyrir norðan. Þau Bo Madvig og Camilla Marienhof stóðu sig frábærlega og það var gaman að sjá hve verkið hafði þróast mikið frá því að þau gáfu Akureyringum innsýn í það síðasta vetur á æfingu hér í Gilinu. Hér er tengill á leikhúsið hans Kidda: Neander. Meira að segja gagnrýnandinn gagnrýni Jón Viðar Jónsson lofar verkið í hástert og hér má sjá umsögn hans í DV. Meira svona!
mbl.is Magnús sækir um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristjórn Howards fær skell í Ástralíu - sigur umhverfisverndarsinna

445466ANiðurstöður þingkosninganna í Ástralíu eru afar ánægjulegar. Hægristjórnin er rassskellt og John Howard einn helsti bandamaður Bush er ekki einu sinni kosinn á þing og það er í annað sinn sem forsætisráðherrann, í 106 ára sögu núverandi stjórnkerfis Ástralíu, tapar þingsæti sínu í kosningum.

Þetta er sigur fyrir umhverfisverndarsinna í öllum heiminum því Kevin Rudd, leiðtogi Verkamannaflokksins og væntanlegur forsætisráðherra, hét því í kosningabaráttunni, að staðfesta Kyoto sáttmálann um losun gróðurhúsalofttegunda ólíkt Howard sem stóð með Bush gegn sáttmálanum.

Það er því víðar en í Suður- Ameríku og Evrópu sem vinstri sveifla er staðfest í kosningum. Það eru bjartari tímar framundan. 


mbl.is Umhverfisverndarsinnar fagna úrslitum í Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

65,5% vildu að Bjarni skilaði bréfunum í REI

445424A Ákvörðunin um að Bjarni Ármannsson hverfi frá REI er skynsamleg. 65,5% þeirra 444 sem tóku þátt í könnuninni á síðunni minni sögðu að Bjarni ætti að skila bréfunum sem hann fékk á einhverju lágmarksgengi í REI. 25,7% sögðu að hann ætti ekki að gera það, 5,9% var alveg sama og 2,9 var ekki viss. Þetta er frekar afdráttarlaust. næstum 2/3 vildu þetta. Bjarni fær millurnar sínar til baka og er sáttur við það. Ég held að meirihlutinn í Borginni sé að vinna mjög vel úr klúðri fyrrverandi meirihluta. OR og REI verður aftur í eigu borgarbúa og það er vel.
mbl.is Bjarni: fer skaðlaus frá borði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnum félag myndlistarfólks

37953Það hefur lengi staðið til að stofna félag myndlistarfólks hér á norðursvæðinu, nokkurskonar stéttarfélag myndlistarmanna sem berst fyrir okkar hagsmunum og beitir sér í viðkomandi málum. Við höfum nokkur verið að hittast frá því í sumar og rætt um þetta og nú er komið að því að halda formlegan fund. hér er auglýsingin og ég hvet allt myndlistarfólk til að mæta í Deigluna á morgun. Svo er opnun í BOXi í beinu framhaldi hinumegin við götuna.

Kynningarfundur að stofnun fagfélags myndlistarmanna á Norðurlandi verður haldinn laugardaginn 24. nóvember í Deiglunni, Listagili, Akureyri, kl 17:00. Kynntar verðar hugmyndir að félaginu og á fundinum verður valin undirbúningsnefnd til stofnunar félagsins.
Allt myndlistarfólk velkomið.
- Hvernig eflum við myndlist og menningu á Norðurlandi?
- Hvað á myndlistarfólk á Norðurlandi sameiginlegt?
- Hver eru hagsmunamál myndlistarmanna?
- Getum við haft meiri áhrif saman en í sitt hverju lagi?
- Hvað viljum við og hvað getum við gert?


Rassi prump fulltrúi okkar í Feneyjum 2009

008ragnkjartmainpic

Ragnar Kjartansson (yngri) verður fulltrúi okkar íslendinga á næsta Feneyjatvíæring árið 2009. Þetta er mjög gott því Ragnar (Rassi prump) er snillingur! Ég er viss um að hann rúllar upp þessari sýningu og ég er strax farinn að hlakka til. Hann var með frábæra sýningu í Nýlistasafninu um daginn og hann sýnir í stofunni hjá okkur í Kunstraum Wohnraum hér á Akureyri þann 16. mars 2008. Hann  verður einnig með á "bæ bæ Ísland" sýningunni í Listasafninu á Akureyri í mars. Þrátt fyrir að vera ekki gamall maður hefur Raggi farið víða og sýnt um allt. Hann var líka með á "aldrei - nie - never" sýningunni sem ég skipulagði í Gallerí +, Nýló og hjá Kuckei+Kuckei í Berlín. Alda Sigurðardóttir vinkona mín á Selfossi minnti mig einnig á frábæra sýningu sem Raggi var með hjá okkur í GUK+ árið 2004. Ragnar er ekki bara þekktur sem myndlistarmaður því hann er einnig aðalgaurinn í gæðahljómsveitinni Trabant. Ég mæli með heimasíðunni hans og sérstaklega myndbandinu "Dauðinn og börnin". Áfram Raggi!


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir næsti fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum

Thorgerdur Í dag verður formlega tilkynnt hver verður fulltrúi Íslands árið 2009 á Feneyjatvíæringnum. Hingað til hafa þetta verið myndlistarmenn en nú er breytt út af vananum því menntamálaráðherra (eða menntamálastýra) Þorgerður Katrín verður sjálf fulltrúi Íslands. Þetta kemur fram á ljómandi boðskorti sem ég fékk frá CIA. Ekki það að leyniþjónusta BNA sé farin að skipta sér af menningarmálum hér uppá klaka því þetta er alþjóðleg skammstöfun Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar: Center for Icelendic Art og heimasíðan er cia.is. Mér finnst samt líklegt að Þorgerður Katrín ætli ekki sjálf að gera gjörninga, innsetningar eða sýna ljósmyndaverk eða málverk í Feneyjum heldur muni hún bara tilkynna hver verður fulltrúi Íslands. Þetta fer fram í Listasafni Íslands eftir hádegið og ég kemst því miður ekki á staðinn.

Glæsilegt, Paul Nikolov!

paulfnikolov Paul Nikolov varaþingmaður Vinstri grænna á Þingi flutti jómfrúarræðu sína í dag og gerði það af miklum skörungsskap. Hann lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum sem varða útlendinga og réttarstöðu þeirra. Þetta er augljóst réttindamál og ánægjulegt að Kristinn H. Gunnarsson í Frjálslindaflokknum skellti sér með á málið ásamt Bjarna Harðarsyni Framsóknarflokki auk þriggja þingmanna Vinstri grænna þeirra Kolbrúnar Halldórsdóttur, Atla Gíslasonar og Katrínar Jakobsdóttur. Vonandi verður þetta frumvarp afgreitt fljótt og örugglega í þingnefnd þannig að það verði sem fyrst að lögum þrátt fyrir að fulltrúar stjórnarflokkanna séu ekki meðflutningsmenn. Paul bloggar um málið í dag og þar má lesa ræðuna hans. Til hamingju með þetta Paul!
mbl.is Paul Nikolov: Íslenskt stjórnkerfi aðgengilegra en það bandaríska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.