Leita í fréttum mbl.is

Vinir og opnun á laugardaginn

saeti

Ég er afar hlynntur vinabæjum. Hef að vísu ekki komið til Grimsby en er viss um að þar er vingjarnlegt fólk. Mér finnst líka að Hallgrímur Helgason (Grim) ætti að verða heiðursborgari í Grimsby. Annars er ég að opna sýningu á Akureyri í galleriBOXi á laugardaginn og verkið er tilvalið til að vingast við fólk. Það er reyndar hellingur af opnunum á Akureyri þennan dag og ég set meira um það hér á síðuna næstu daga en hér er fréttatilkynningin fyrir BOXið:

Hlynur Hallsson opnar sýninguna LJÓS - LICHT - LIGHT í galleriBOXi, Kaupvangstræti 10, á Akureyri, laugardaginn 10. mars 2007 klukkan 16.

Verkið sem Hlynur setur upp í galleriBOXi samanstendur af borði og sætum sem gerð eru á afar einfaldan hátt úr froðuplastplötum og gæruskinni. Froðuplastið er tilbúið efni sem gjarnan er notað til einangrunar og gæruskinnið er hinsvegar náttúruleg afurð en einnig gjarnan notuð til einangrunar eða öllu heldur sem fóður í ýmsar flíkur. Froðuplastið er framleitt hjá Plastási á Akureyri en gærurnar koma frá Skinnaiðnaði sem var á Akureyri en nú er búið að leggja niður, eða öllu heldur flytja til austurhluta Evrópu. Hlynur hefur sett upp svipuð verk á nokkrum stöðum eins og í Hannover og Vín og nú stendur yfir sýning hans hjá Kuckei+Kuckei í Berlín en þar eru áþekk sæti ásamt fleiri verkum. Sú sýning stendur einmitt til 10. mars, sama dags og sýningin í BOXi opnar.
Sýningargestir geta fengið sér sæti og hvílt lúin bein, spjallað saman eða horft og hvert á annað. Fólk getur blaðað í sýningaskrám frá sýningum sem Hlynur hefur haldið eða tekið þátt í. Einnig er hægt að ferðast í huganum til fjarlægra landa ef mann langar heldur til þess, sitjandi á þessum frumstæðu en hlýlegu bekkjum. Á vegginn hefur Hlynur spreyjað skilaboð sem hægt er að útleggja á ýmsa vegu. Á sama tíma og sýningin í galleriBOXi opnar, opnar Hlynur einnig sýningu á veggverk.org á vegg á mótum Glerárgötu og Strandgötu á Akureyri. Sýningin í GalleriBOXi stendur til sunnudagsins 25. mars 2007.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur sett upp um 50 einkasýningar og tekið þátt í um 70 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997 og verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2005. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005.
Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, gönguferðir eða snjóhúsbygging geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de
Allir velkomnir, grænmetisréttir að venju.

 
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com 


mbl.is Grimsby vill gera vinabæjarsamkomulag við Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mikið andsk. ertu gamall miðað við hvað þú ert ungur!

Hlynur Þór Magnússon, 6.3.2007 kl. 23:17

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Gangi þér vel!

Pétur Björgvin, 7.3.2007 kl. 09:29

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Aha..sniðugt. Minnir á eina af sýningunum mínum sem ég var með í Oxford þar sem ég lokaði mig inni í litlu rými og "hitti "fólk í heilan dag. Ein manneskja inn í einu..við sátum á skinnum á gólfinu og handfjötluðum ísmola í myrkri og skynjuðum nærveru hvers annars.Og spáðum í að mannleg hönd og hiti umbreyta köldum, hörðum, frosnum og mjög formuðum hlut á aðeins nokkrum sekúndum og varð að flæði. Hin mannlega hlýja og nánd.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.3.2007 kl. 01:07

4 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Til hamingju með sýninguna. Aldrei að vita nema maður kíki ef kvefið verður farið.

Ragnar Bjarnason, 8.3.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.