Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Jökulsá í ham og ALCOA fundir

jökulsá alcoa

Ég skrapp á enn einn einstefnufundinn sem ALCOA og co stendur fyrir hér á Akureyri. Að vísu var tekið fram í auglýsingu að aðeins þeir sem hefðu áhuga á álverum væru velkomnir en svo var, sem betur fer, búið að lagfæra þau "mistök" og breyta tilkynningunni á netinu, svo ég mátti mæta. Þetta voru hefðbundnar einræður um hvað allt gengur vel og hvað allt verður frábært og svo voru samt leyfðar stuttar spurningar. Ég spurði náttúrulega og það var eins gott því það voru ekki margir aðrir sem höfðu áhuga á að spyrja mennina út í álbræðslurnar og línulögnina. Svo dreyfði ég smá bréfi frá mér sem best er að birta bara hérna líka. Það á vel við að Jökulsá á Fjöllum sé í miklum ham um leið og ALCOA (karl-)menn fara um héröð og boða"fagnaðareirindin".

ÁLVER - NEI TAKK

FJÖLBREITT ATVINNULÍF OG BLÓMLEGT MANNLÍF BYGGT Á HUGVITI HEIMAMANNA -
JÁ TAKK

Fyrirhuguð álbræðsla ALCOA á Bakka við Húsavík er aðeins fyrsti áfanginn í miklu stærri álbræðslu. Þá fyrst verður álbræðslan "hagkvæm" fyrir ALCOA.

Hvar á að taka alla orkuna? Það er bara hugarburður að svo mikil orka fáist úr jarðvarmaveitum. Djúpboranir eru ekki einu sinni komnar á tilraunastig og alltaf er verið að fresta tilraunum (sjá ruv.is 20.nóv. 2006). Hvaða fljót á að virkja til að fá alla orkuna sem ALCOA þarf bara í fyrsta áfanga svo ekki sé talað um allt hitt?

Jarðvarmaveitur á háhitasvæðum eru einnig í mörgum tilfellum óafturkræf skemmd á stórfenglegri náttúru. Á þessu er fólk fyrst nú að átta sig, þegar við sjáum risavirkjanir rísa á Hellisheiði, í Svartsengi og víðar.

Í dag voru ólöglegar framkvæmdir á Hengilssvæðinu stöðvaðar enda engin leyfi fyrir virkjun þar. Loksins verða orkufyrirtækin að átta sig á því að þau eru ekki yfir landslög hafin.

Við mælum með því að að allir lesi bók Andra Snæs Magnasonar:


Draumalandið
Sjálfshjálparbók
handa hræddri þjóð

 


mbl.is Jökulsá á Fjöllum að meira og minna leyti komin í Skjálftavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynbundinn launamunur

verkamaður

Enn eina ferðina fáum við staðfestingu á því að kynbundinn launamunur er rosalegur hér á landi. Það þarf að grípa til róttækra aðgerða strax. Byrja á því að afnema þessa launaleynd sem gerir illt verra. Við búum í opnu upplýsingaþjóðfélagi og þar eiga laun ekki að vera eitthvert pukur. Það kemur sér aðeins vel fyrir vinnuveitendur. Þessu þarf að breyta. Annars er þessi könnun Starfsgreinasambandsins mjög athyglisverð og það er hægt að ná í hana á pdf formi hjá mbl.is.


mbl.is Kynbundinn launamunur 23,2% samkvæmt könnun Starfsgreinasambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt að Bush hefði bjargað Indónesíu!


usa423_001SMALL  indonesia

Einkennilegt, Bush og félagar eru að bjarga öllum heiminum með innrásum í ríki og allskyns fórnum af sinni hálfu en uppskera bara vanþakklæti. Þetta er óskiljanlegt. (Eða það finnst bandaríkjamönnum allavega.)
Ég sé að verkið mitt í Texas er enn í fullu gildi og hefur aldrei átt betur við. Sjá hér.


mbl.is Þúsundir mótmæla komu Bush til Indónesíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsælir og spilltir hægriflokkar

fredrik.reinfeldt

Þetta er frétt sem þarf ekki að koma neinum á óvart. En ef til vill bjóst enginn við því að hægriflokkarnir myndu vera svona snöggir að tapa trausti almennings í Svíþjóð. Þeir hanga samt saman í þessari stjórn eins lengi og þeir geta ef ég þekki þá rétt (samanber ríkisstjórn Bé og Dé-lista hér á landi).
Meira um þetta hjá Dagens Nyheter.

 

Sænska ríkisstjórnin orðin óvinsælli en stjórnarandstaðan
Ný ríkisstjórn bandalags hægri- og miðflokkanna í Svíþjóð nýtur orðið minna fylgis en bandalag stjórnarandstöðuflokkanna sem hún hrakti frá völdum í september, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem birt var í dag. Njóta stjórnarflokkarnir 43,8% fylgis, en stjórnarandstöðuflokkarnir 51,2%. Bandalag stjórnarflokkanna hlaut 47,8% fylgi í kosningunum.


mbl.is Sænska ríkisstjórnin orðin óvinsælli en stjórnarandstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn klofin

kristinn.h

Kristni H. Gunnarssyni alþingismanni var hafnað í prófkjöri Framsóknar í NV-kjördæmi. Þetta kemur fram í frétt á Vísi:
Hann (Kristinn H.) segir niðurstöðuna skýra; málefnaáherslur flokksins í kjördæminu verði þær sem forysta flokksins hefur staðið fyrir. „Áherslunni á félagshyggju og manngildið, sem ég hef staðið fyrir, er hafnað með þessari niðurstöðu."
Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri og fyrrum fréttastjóri á framsóknarblaðinu Degi heitnum spáir einnig í spilin og fyrirsögnin þar er "Klofningi spáð í Framsókn"

Þingmönnum í NV-kjördæmi mun fækka úr tíu í níu í vor og ég tel að sennilega muni Framsókn tapa einum manni og Sjálfstæðisflokkurinn mun aðeins fá tvo þingmenn í kjördæminu og "bjargvætturinn" Einar Oddur sem hefur breyst í "skaðvaldinn" (fyrir byggð á Vestfjörðum) fellur út af þingi. Í staðinn fá Vinstri græn tvo þingmenn fyrir vestan og bjarga þarmeð heiðri kjördæmisins með einu konuna á þingi fyrir þetta víðfeðma kjördæmi.


mbl.is Kristinn H. hefur ekki ákveðið hvort hann tekur þriðja sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins tekur ríkisstjórnin við sér

althingi

Auðvitað tekur þessi ríkisstjórn Bé og Dé-lista ekki nema eitt hænufet í átt að réttlæti. En þó ber að fagna þessu skrefi. Betra hefði samt verið að samþykkja bara tillögu sem Vinstri græn, Frjálslyndir og Samfylking lögðu fram í upphafi þings en þar var lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þúsund krónur á mánuði eða 900 þúsund krónur á ári og komi strax til framkvæmda.
Það er sanngirnismál fyrir aldraða að þeim sé ekki refsað ef þau geta aflað sé smá aukatekna og 25.000 á mánuði telst nú ekki til ofurlauna og það gera 75.000 reyndar ekki heldur en er mun nær því að vera sanngirni. Það er gott að samfélagið fái notið starfskrafta aldraðra eins og hægt er og atvinnuþátttöku þeirra ber að fagna. Því hefði verið betra að ganga alla leið eins og stjórnarandstaðan lagði til en ekki taka bara eitt hænufet. En það er samt eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn sem við ætlum að kjósa af okkur þann 12. maí 2007.


mbl.is Stjórnarandstaðan segir frítekjumark ekki nógu hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturlu er alveg sama um Akureyrarflugvöll

akureyrarflugvöllur sturla

Sturla Böðvarsson hefur haft nægan tíma til að setja lengingu Akureyrarflugvallar í framkvæmd en hann hefur bara engann áhuga á því. Hann hefur engann áhuga á því að það verði stundað beint millilandaflug til og frá Akureyri. Þetta kom berlega í ljós í svari hans þegar ég spurði hann um þessi mál á þingi fyrir tveim árum. Hann svaraði bara með skætingi og útúrsnúningi. Það er gott að jafnvel Halldór Blöndal sé búinn að átta sig á þessu metnaðarleysi flokksfélaga síns. Bloggfélagi minn Stefán Friðrik mikill Sjálfstæðisflokksmaður bendir einnig á þetta getuleysi Sturlu í bloggi í dag.
Sturla hefur hummað þetta mál fram af sér í þrjú ár og frekar staðið í vegi fyrir beinu millilandaflugi til og frá Akureyri. Þessi ríkisstjórn hefur einnig frestað framkvæmdum við bílastæði flugvallarins vegna þenslu! Svo nú er megnið af því eitt forarsvað. Það þarf að skipta um samgönguráðherra og ríkisstjórn. Þegar Vinstri græn komast í ríkisstjórn mun þessum hlutum verða kippt í lag og flugbrautin lengd og Vaðlaheiðargöng boruð. Þetta á að gera á sama tíma og nota efni úr göngunum sem undirlag fyrir flugbrautina. Steingrímur J. Sigfússon benti á þetta meðal annars í umræðunni á þinginu í dag. Hann sagði:
"Ég vona sannarlega að þegar samgönguáætlun loksins birtist á borðum okkar þingmanna, sem vonandi verður fyrr en síðar, verði báðar þessar framkvæmdir þar inni, þ.e. lenging Akureyrarflugvallar og Vaðlaheiðargöng, og gert ráð fyrir því að hægt verði að vinna þær saman með þeim hætti sem ég hef lýst og er augljóslega hagkvæmt."
Það er svo frekar vandræðalegt að hlusta á bæjarstjórann hér á Akureyri sem nú er í framboði ásamt tannlækni á Húsavík vera með miklar yfirlýsingar um þessi mál. En D-flokkurin hefur haft 16 ár til að gera eitthvað og við nennum ekki að bíða lengur og þessvegna kýs fólk Vinstri græn í vor.


mbl.is Lenging flugbrautar á Akureyrarflugvelli rædd á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af "tæknilegum mistökum"

árni.johnsenjpg

Úrslitin úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um helgina komu mörgum á óvart. Hvernig er hægt að tala um að spilling eigi ekki að líðast í stjórnmálum en kjósa svo þessháttar menn í forystusveitina í prófkjöri? 92% þeirra sem svöruðu könnun Fréttablaðsins sögðust ekki fagna því að Árni Johnsen væri á leiðinni aftur á þing en samt er það staðreynd að maðurinn mun að öllum líkindum mæta þangað aftur í vor, nema að kraftaverk gerist og D-listinn fái aðeins einn mann í kjördæminu! Margir Sjálfstæðismenn eru gáttaðir á þessari niðurstöðu og einnig á ummælum formannsins Geirs H, Haarde um að forystusveit Flokksins væri búin að fyrirgefa hinum dæmda manni og fagnaði honum nú. Bloggfélagi minn Stefán Friðrik Stefánsson skrifar meðal um þetta og er ekki par ánægður með Geir og segir meðal annars: "Ég ætla að vona að þessi útkoma (úr prófkjörinu (innsk.)) verði ekki það dýrkeypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stofnun að hún kosti ekki flokkinn atkvæði um allt land í þingkosningunum í maí. En ég óttast það, í sannleika sagt."
Árni Johnsen bítur höfuðið af skömminni í viðtali við Ríkisútvarpið í gær. Hann gerir sér ekki enn grein fyrir því að hann hafi gerst sekur um glæpi: skjalafals, þjófnað og lygar svo eitthvað sé nefnt. Nei, þetta voru bara "tæknileg mistök" og notar þar með orðalag sem talsmenn ísraelshers notuðu til að afsaka fjöldamorð í Palestínu.
Sennilega er maðurinn úr steini?


mbl.is Árni iðrast ,,tæknilegra mistaka"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIl fyrirmyndar

gummi.steingríms

Það er til fyrirmyndar að Guðmundur Steingrímsson hefur birt sundurliðaðan kostnað við prófkjörið sitt hjá Samfylkingunni. Þetta gerir hann á bloggsíðunni sinni. Kostnaðurinn er kominn uppí 751.448 krónur en eftir eru einhverjir símareikningar og svoleiðis. Þetta verður að teljast nokkuð vel sloppið og er sennilega upphæð í lægri kantinum miðað við marga félaga hans hjá Samfó. Ég hvet alla þátttakendur í prófkjörum til að opna bókhaldið sitt og sína þannig gott fordæmi. Það á allt að vera uppá borðinu í þessum efnum hjá stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Það er nefninlega ekki nóg að tala bara um það en segja svo ekkert frá. Ég bíð til dæmis spenntur eftir því að sjá sundurliðuð útgjöld og greinargerð frá Guðlaugi Þór! Nokkrir hafa þó sýnt frumkvæði eins og Guðrún Ögmundsdóttir og Pétur Blöndal þó að ég hafi ekki séð sundurliðuð útgjöldin hjá þeim.
Vinstrihreyfingin grænt framboð birtir bókhald sitt og þingmennirnir okkar gera grein fyrir hlutafélagaeign sinni, launum og þessháttar. Allt er þetta aðgengilegt á heimsíðu Vg. Sjá til dæmis upplýsingar um Steingrím.  Þannig á þetta að vera. Það er nefninlega ekki í lagi að stjórnmálmenn þyggi gjafir og framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum til að fjármagna rándýra kosningabaráttu í prófkjörum en kjósendur fá aldrei að vita hver það er sem stendur á bakvið og greiðir kostnaðinn.


mbl.is Guðmundur Steingrímsson eyddi 751.448 krónum í prófkjörsbaráttu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt

vgfundur

Það er frábært að það séu svona margir tilbúnir til að taka sæti á listum Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu. Hellingur af öflugu fólki! Forvalið hefur líka mælst vel fyrir og sú nýung að kjósa saman í kjördæmin þrjú sem eru jú eitt atvinnu og íbúasvæði. Jafnvel stjórnmálmenn annarra flokka eins og Össur Skarphéðinsson og Björn Ingi hafa lofað þetta fyrirkomulag. Og ég á ekki von á því að frambjóðendur í forvali Vg leggist í auglýsingaskrum og símhringingar öllum til ama heldur standi fyrir málefnalegri og uppbyggilegri kosningabaráttu eins og samherjum sæmir. Enda snýst þetta um stefnu Vinstri grænna og þær hugsjónir sem við stöndum öll fyrir en ekki hver er með mest fjármagn á bakvið sig. En það er gott að hafa úr mörgum hæfum einstaklingum að velja.


mbl.is 29 bjóða sig fram hjá VG á höfuðborgarsvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband