Leita í fréttum mbl.is

Illvirkjun Power

Sjálfstæðismenn eru komnir í hring. Fyrir nokkrum mánuðum sögðu þeir að ríkisfyrirtæki ættu ekki að vera í áhættufjárfestingum en nú er stofnað "félag" út frá hinu rómaða ríkisfyrirtæki Landsvirkjun sem hefur einmitt þetta markmið. Sjá ekki allir að þetta er fyrsta skrefið í því að einkavinavæða Landsvirkjun? Best að fara inn um bakdyrnar á skítugum skónum fyrst að ekki tókst að vaða inn beint um aðalinnganginn! Auðvitað finnst Geir H. Haarde ekkert athugavert við þetta, þó það nú væri.


mbl.is Ekkert athugavert við félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seyðfirðingar bjarga menningarverðmætum

446528APétur Kristjánsson forstöðumaður tækniminjasafnsins á Seyðisfirði og fólkið í bænum á heiður skilinn fyrir að hafa stöðvað niðurrifið á aldargömlum verslunarminjum á Seyðisfirði í dag: „Við sáum að það þýddi ekkert að stöðva þessar framkvæmdir með orðum og við ákváðum að koma í veg fyrir að þeir gætu farið með munina út úr húsinu."

Forsvarsmenn ÁTVR eiga eftir að svara fyrir hver gaf út skipun um að það ætti að rifa niður innréttingarnar og setja þær í gám og senda til Reykjavíkur! Það er frábært að sjá að Seyðfirðingar standa vörð um menningarverðmæti á staðnum og það hefur verið meiriháttar að sjá hvað búið er að gera fallega upp mörg  gömul hús í bænum. En það er nóg verk eftir. Seyðisfjörður er að mínu mati einn fallegasti bær á landinu, Ísafjörður er einnig afar fallegur og svo auðvitað hún Akureyri:)


mbl.is Hætt við niðurrif verslunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta "innlend" frétt?

446260AStundum eru fyrirsagnirnar á mbl.is dálítið fyndnar og skrítnar. Það á ef til vill við um fyrirsögnina á þessari frétt: "Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna". En af hverju er þessi frétt flokkuð sem "innlend" frétt? Það er ekkert innlent við hana. Svona frekar erlent eða það hefði verið tilvalið að setja hana í samsuðudálkinn sem heitir "fólk". Annars er þessi frétt af GM dálítið klisjuleg og eftirfarandi setningar segja okkur ýmislegt:

"Því næst voru mennirnir klæddir í ruslapoka til að líkja eftir pilsum og fengu gúmmíhanska með álímdum gervinöglum. Dagurinn gekk svo út á að fara í gegnum venjulegan dag húsmóður og nota bíla fyrirtækisins án þess að brjóta nögl, rífa pils og þar fram eftir götunum."

Er hér ekki enn og aftur verið að ýta undir staðalímyndirnar. Ég efast um að amerískar húsmæður séu allar í pilsi, í háhæluðum skóm og með langar neglur. En þessir bílar frá General Motors fá allavega verðlaun fyrir að vera hlunkalegustu og ljótustu bensín/díselsvelgir sem fyrirfinnast. Konan á myndinni er ekki dæmigerð amerísk húsmóðir leyfi ég mér að fullyrða (og reyndar ekki heldur "innlend" (íslensk)!)


mbl.is Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að losna við herinn - losum okkur einnig við spillinguna

VG-S-1-Atli_Gislason_055Atli Gíslason á heiður skilinn fyrir að benda á spillinguna sem viðgengst með fasteignabrask upp á Velli. Geir H. Haarde stingur hinsvegar hausnum í sandinn og vill ekki sjá að þar grasserar spillingin sem aldrei fyrr. Það á að fá allt upp á borðið og talið um "viðskiptahagsmuni" og að þess vegna megi ekki segja frá neinu á ekki að líðast.

Það var mikil landhreinsun að losna við herinn. Vinstri græn og hernaðarandstæðingar höfðu lengi bent á það að atvinnulíf á Reykjanesi myndi blómstra þegar herinn hyrfi á brott. Hernaðarsinnar héldu öðru fram og reynast nú hafa rangt fyrir sér. Það er gott

Það er hinsvegar synd að það góða uppbyggingarstarf þurfi að líða fyrir spillingu innan Sjálfstæðisflokksins og einkavinavæðinguna þar á bæ. Burt með spillinguna.


mbl.is Fleiri störf en hjá varnarliði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju dró hann þetta ekki til baka fyrir "pabba sinn"?

gzinegger... eða bara sjálf síns vegna? Kannski af því að hann hefur ekki snefil að sómakennd? Þessi bloggfærsla Egils Einarssonar sem kallar sig víst "Gillzenegger" segir margt um hug þeirra sem kalla þær konur sem eru að berjast fyrir jafnrétti kynjanna "öfgafemínista" og þeir eru ekki fáir. Margir nafnlausir aumingjar sem tjá sig aðallega í athugasemdum á síðum annarra taka sömu afstöðu og Egill og grafa sig niður í eitthvert forarsvað. Leyfum þeim bara að vera þar og drullumalla við vini sína.

Í fréttinni á mbl segir "Færslan sem um ræðir var undir lið sem kallast Fréttastofa Gillz en þar nafngreinir hann fjórar konur, femínista, sem hann segir að hafi verið of áberandi í fjölmiðlum undanfarið og ýjar að því að þeim væri best að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi."  

Ég spyr mig hvort pabbi Egils horfi ekki á tíufréttir í Sjónvarpinu? Eða getur Egill ekki bara sleppt því að vera með svona viðbjóðslegar hótanir á síðunni sinni? Samkvæmt fréttinni hefur lögreglu hefði verið send skrifin til rannsóknar. En það var ekki vagna hræðslu við málshöfðun sem Egill faldi færsluna, nei af tillitsemi við mömmu: „Mamma horfir væntanlega á tíufréttir og svona, þannig að ég tók fréttina út út af henni." Litlu mömmustrákarnir kunna þó að skammast sín.

Margir sem skrifa hér á moggabloggið hafa lokað fyrir athugasemdir því í þeim hefur verið ausið óhróðri yfir fólk (gjarnan femínista). Sóley Tómasdóttir hefur til dæmis gripið til þessa neyðarúrræðis og þykir mér það miður en vel skiljanlegt. Af gefnu tilefni vil ég að fólk skrifi undir fullu nafni athugasemdir á síðuna mína, vinsamlega virðið það. 


mbl.is Gillzenegger tók bloggfærslu út fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best í heimi? - ekki alveg

429948AÞað eru ekki góðar fréttir að Ísland skuli hrapa niður listann í nýjustu PISA-könnuninni. Að vísu er ég hæfilega tortrygginn á allan svona samanburð en þetta eru samt skilaboð sem taka á alvarlega. Nú hafa verið kynntar tillögur og ný grunnskólalög þar sem margt horfir til bóta. Til dæmis er það jákvætt að lengja eigi kennaranámið. En þá verða laun kennara einnig að hækka. Víða er kennarastéttinni greidd mun hærri laun en hér á landi og hér hafa kennarastarfið lengi verið vanmetið. Þessu þarf að breyta.

Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur.

Þó að þetta sé ekki góðar fréttir af stöðu skólakerfisins þá eru hér tengill á frábærar femínistafréttir. Ég mæli með að allir gefi sér smá tíma til að setja sig inn í málin.


mbl.is Staða Íslands versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallar enn meira á lýðræðið

279af369f3d3fcb9Það er afar aumt að hin "stóra" ríkisstjórn ætli nú að skera niður ræðutímann. 15 mínútur eiga að duga að þeirra mati. Samfylkingin, hinn mikli samræðustjórnmálaflokkur er komin í stjórn og nennir ekki lengur að hlusta á mótrök og ábendingar um það sem betur mætti fara, allavega ekki ef það tekur meira en 15 mínútur. Ansi er nú illa komið fyrir þessum "stóra" flokki.

Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að þetta skuli vera hagsmunamál hjá Sjálfstæðisflokknum, þar á bæ nenna menn hvort sem er ekki að hlusta á nein mótrök eða vesen. Framsókn og Frjálslyndir eru eitthvað að drattast með stóru köllunum og nenna ekki að malda í móinn.

Þorsteinn Siglaugsson skrifaði afar góðan pistil um takmörkunina á ræðutíma og um það er hægt að lesa hér. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað bentá slæm vinnubrögð á þinginu þegar mál eru afgreidd, oft í flýti og án nægilegrar umræðu. Væri ekki nær að laga þetta frekar en að ætla enn að skera niður umræðuna.

Niðurlag vandaðrar greinargerðar sem Vinstri græn lögðu fram í dag ætti öllum að vera holl lesning:

"Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er jafn áhugasamur og fyrr um að endurskipuleggja starfshætti Alþingis, bæta og vanda mun meir til vinnubragða við lagasetningu, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrkja þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum ná hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta og þaðan af síður þau vinnubrögð að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar. Breytingar á hvoru tveggja frumvarpinu og vinnubrögðum forseta eru því óhjákvæmilegar eigi farsæl niðurstaða að nást."


mbl.is VG mótmælir harðlega frumvarpi um þingsköp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisvottorð í Venesúela

big-ChavezmeKastrlnunniJPGHugo Chavez forseti Venesúela hefur vaxið mikið á áliti hjá mér. Hann viðurkennir nauman ósigur sinn í kosningum fyrir breytingum á stjórnarskrá landsins og hvetur stuðningsmenn sína til að sýna stillingu. Ef Hugo Chavez væri einræðisherra eins og sumir hægrimenn fullyrða þá hefði hann bara séð til þess að 62% hefðu greitt þessum stjórnarskrárbreytingum atkvæði. Tapið er sigur fyrir lýðræðið og Hugo Chavez á eftir að vera forseti í fimm ár og getur komið mörgum góðum hlutum til leiðar á þeim tíma. Ég hef ekki skoðað nákvæmlega hvað allar þessar breytingar á stjórnarskrá Venesúela hefðu haft í för með sér og það er ekki alveg allt að marka sem stendur í fjölmiðlum hér um málið.

Það er athyglisvert að bera þessar kosningar saman við kosningarnar í Rússlandi sem einnig fóru fram í gær. Þar virðist víða pottur brotinn og varla hægt að tala um lýðræði. Nóg verk að vinna fyrir lýðræðissinna og sennilega erfiðara hlutskipti en í Venezúela.

Hér heima er einnig víða pottur brotinn og spillingin á Vellinum viðgengst áfram. Á Sjálfstæðisflokkurinn sem er allsstaðar í því máli að komast upp með að deila út verðmætum til sinna manna án þess að þurfa að svara fyrir nokkurn hlut? DV tekur málið upp og ég heyrði lesið út afar góðum leiðara blaðsins í morgun. Ríkisútvarpið og sjónavarp virðast ekki ætla að lyfta litla fingri til að spyrjast út úr um spillinguna sem hefur viðgengist með sölu eigna sem áður tilheyrðu bandaríska hernum en vildarvinir Sjálfstæðisflokksins virðast vera að sölsa undir sig, næstum óáreittir. Er ekki kominn tími til að krefja fjármálaráðherra um einhver svör í staðinn fyrir útúrsnúning?


mbl.is Breytingum Chavez hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Margrét Pála og til hamingju öll með 1. des.

Það er mikið ánægjuefni að hugsjónakonan Margrét Pála Ólafsdóttir, skólastjóri og höfundur Hjallastefnunnar, hafi hlotið Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2007. Hún er vel að þessum verðlaunum komin. Hún hefur aukið fjölbreytni í skólastarfi og innleitt nýja sýn og hugmyndir sem oft hafa stangast á við hefðbundna stefnu og gildi. Hún er einnig mikil baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra og hún er alltaf afar jákvæð. Frábær kona.

Það eru reyndar mörg verðug verkefni sem hljóta viðurkenningu frá Velferðarsjóðnum eins og verkefnið "Adrenalín gegn rasisma" og einnig "Blátt áfram – björt framtíð" til að halda úti fræðslu fyrir skólastarfsfólk um hvernig greina megi kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og bregðast við því. Líka "Gauraflokkurinn" fyrir uppbyggingarstarf fyrir 10-12 ára drengi sem eru ofvirkir eða með skyldar hegðunarraskanir. Góð verkefni allt saman.

Til hamingju einnig með fullveldisdaginn 1. desember öll.

Ég vil svo minna á síðasta heimspekikaffihúsið á þessu ári á morgun:

„Stuðla trúarbrögðin að friði eða ofbeldi?" er spurningin sem Sólveig Anna Bóasdóttir, guðfræðingur, tekst á við með aðstoð kaffihúsgesta á Bláu könnunni, sunnudaginn 2. desember kl. 11.00. Umræðunni lýkur um kl. 12.00

 
Sólveig Anna Bóasdóttir, er með doktorsgráðu í guðfræði og siðfræði. Hún starfar við Reykjavíkur Akademíuna. Heimspekikaffið er samstarfsverkefni félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri og Félags áhugafólks um heimspeki á Akureyri. Allir áhugamenn og konur eru hvött til að fjölmenna og eiga notalega og fræðandi stund á Bláu Könnunni.
Hingað til hefur verið frábær mæting og umræðuefnið að þessu sinni er afar spennandi.  

mbl.is Margrét Pála hlaut Barnamenningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biskupinn skammar menntamálaráðherra

biskupblessarMér líkar ágætlega við biskupinn. En stundum finnst mér hann fara offari í trúboðinu. Er ekki augljóst það eru breyttir tímar og þetta trúboð í skólum á ekki heima þar? Það er allskonar góð og gild trúfræðsla sem fer fram í kirkjunum og þar á hún heima en skólarnir eiga að vera hlutlausir þegar kemur að trúmálum sem og öðrum málum. Þess vegna sýnist mér máflutningur fulltrúa Siðmenntar mjög eðlilegur. Ég bendi einnig á fínan pistil Dofra Hermannssonar um málið og Matthías Ásgeirsson skrifar einnig góða grein í Fréttablaðið í dag.

Árið er 2007 og það gengur ekki að biskupinn skammi menntamálaráðherra sem er á braut til meiri víðsýni í þessum málum. Það á að ríkja trúfrelsi í landinu og trúboð í leikskólum og öðrum skólum á ekki við. Kærleikur og siðgæði á að vera einn af hornsteinum samfélagsins en ekki trúboð.


mbl.is Ráðherra segir Siðmennt misskilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru karlmenn letingjar?

445707A... ef til vill að mati þeirra sem stjórna hjá Hagkaupum. Hugmyndin er samt ekki alveg ný því um daginn var síðasta fréttin í Sjónvarpinu einmitt um svona pössunarherbergi fyrir karla í einhverri verslunarmiðstöð á Spáni.

Ef karlarnir nenna ekki að fara með til að kaupa inn þá væri nú tilvalið að vera bara heima og ryksuga eða vera búnir að elda þegar konan kemur frá því að kaupa inn fyrir heimilið. Með þessu herbergi eru karlarnir settir á leikskólaaldurinn og það er nú ekki alveg það sem við viljum, eða hvað?

Auðvitað eiga karlar að taka þátt í innkaupum heimilisins eins og konurnar og mér hefur sýnst margir karlar vera að kaupa inn í Bónus svo ástandið er nú ekki eins alvarlegt og forsvarmenn Hagkaupa virðast halda.


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipting í bleikt og blátt er úrelt

423886AGott hjá Kollu að benda á að það sé dálítið einkennilegt að enn sé viðhaldið einhverri úreltri kynskiptingu strax við fæðingu barnanna okkar. Það er árið 2007 og auðvitað er fyrir löngu kominn tími til að afnema þessa skiptingu. Það væri líka mun hentugra að hafa börnin í hvítum göllum, lítið mál að breyta þessu á fæðingardeildinni. Það er eins og það sé verið að innprenta foreldrum að stelpur eigi að vera í bleiku og strákar í bláu. 

Ég spái því að (aðallega) karlkyns bloggarar fara hamförum hér í athugasemdum og sé að það eru reyndar nú þegar langar runur af skrifum um þessa frétt og flestar fyrirsagnirnar mjög í eina átt, að fordæma þessa fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur. 

Yngsta stúlkan okkar, hún Una Móeiður fæddist heima svo henni var bara skellt í ullargallann þar og Lóa Aðalheiður er einnig fædd heima, þá í Þýskalandi en Hugi fæddist hér á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég hélt reyndar að það væri fyrir löngu búið að afnema þessa skiptingu í bleikt og blátt en betra er seint en aldrei.


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur Egils er karlakjaftaþáttur

445564AÉg skil vel að Katrín Anna, Sóley og Drífa hafi ekki áhuga á að mæta í aðalkarlakjaftaþáttinn í sjónvarpinu til að Egill geti hamast á þeim. En Sigríður Andersen mætti! Egill leggst samt ansi lágt að gera blaðamanninn Elías Jón Guðjónsson tortryggilegan af því að hann er í UVG. Egill skellir inn pistli sem má lesa hér.

Það er nokkuð til í því sem Katrín segir: "Egill hefur hingað til ekki haft fyrir því að hafa samband við femínista nema þegar umræðan snýst um klám og þess háttar málefni en það væri ærin ástæða til að tala um fleiri mál."

Af blogginu að dæma fagna þeir karlar sem halda uppi málstað gegn jafnrétti og froðufella alltaf þegar minnst er á femínisma. Þeir styðja Egil.

Ég er hættur að nenna að horfa á þennan útvarpsþátt í sjónvarpi sem Silfrið er. Geisp.


mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steinunn Helga á Karólínu

_MG_0006

Steinunn Helga Sigurðardóttir opnar sýninguna "að snertast í augnablikinu" á Café Karólínu laugardaginn 1. desember, 2007, klukkan 14. Það verður gaman að sjá verkin hennar Steinu á þessu ljómandi kaffihúsi. Nú stendur yfir frábær sýning Birgis Sigurðssonar en henni lýkur á föstudag. Hér er tilkynning um sýningu Steinu:

Steinunn Helga Sigurðardóttir

að snertast í augnablikinu

01.12.07 - 04.01.08

Velkomin á opnun laugardaginn 1. desember 2007, klukkan 14


Café Karólína // www.karolina.is
Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755
---

Laugardaginn 1. desember, 2007, klukkan 14 opnar Steinunn Helga Sigurðardóttir sýninguna "að snertast í augnablikinu", á Café Karólínu á Akureyri.

Steinunn Helga Sigurðardóttir útsrifaðist úr MHÍ 1993 og stundaði framhaldsnám í myndlist hjá Jannis Kounellis í Kunstakademie Düsseldorf. Hún hefur verið búsett í Danmörku frá árinu 1993. Hún hefur haldið fjölda sýninga og  einnig skipulagt sýningar undanfarin ár.

Steinunn Helga segir um sýninguna "Sýningin er tilraun til að setja í form þær pælingar sem ég hef verið upptekin af. Hugsanir, drauma, raunveruleikann og myndunarheiminn.
Hvað er raunverulegt? Er lífið í hinum ytra heimi meira raunverulegt en lífið í hinum innra heimi?
Hvort er meira abstrakt, þar sem ég sit meðvituð og skrifa þennan texta og hlusta á þvottavélina mala í bakgrunninum, hundarnir mínir hrjóta við tærnar á mér, eða það sem gerist inni í höfðinu á mér. Þar sem ég bæði hugsa um þennan texta sem ég er að skrifa, og ýmislegt annað, sem er eins og smá myndir og hugsanir sem koma við og vilja láta hugsa sig?
Myndir sem vilja láta sjá sig, og vilja að ég gefi þeim tíma, en ég ýti þeim burtu því ég þarf að vera í hinum ytra heima þessa stundina, eða er ég það?
Ég hef engin svör, enda er það í raun ekki það sem ég hef áhuga á, en ég geri þessar pælingar að leik, þar sem ég leik mér með þessum báðum tilverum og leyfi þeim að koma fram og stjórna því sem kemur, án þess að dæma til eða frá.

Lejre. 10 nóv. 2007
Steinunn Helga Sigurðardóttir"


Nánari upplýsingar um verk Steinunnar Helgu er að finna á síðunni www.steinunn.eu og nánari upplýsingar veitir hún í steinunnhelga(hjá)gmail(punktur)com og hún bloggar á http://steina.blog.is

Sýningin á Café Karólínu stendur til 4. janúar, 2008. Allir eru velkomnir á opnun laugardaginn 1. desember, klukkan 14.

Á sama tíma stendur yfir sýning Brynhildar Kristinsdóttur á Karólínu Restaurant.

Næstu sýningar á Café Karólínu:

05.01.08-02.02.08               Guðrún Vaka
03.02.08-02.03.08               Steinn Kristjánsson
03.03.08-04.04.08               Unnur Óttarsdóttir
05.04.08-02.05.08               Guðmundur R Lúðvíksson
03.05.08-06.06.08               Kjartan Sigtryggsson

Umsjónarmaður sýninganna er Hlynur Hallsson


Frábær Frelsari

big-Frelsarinnjpg Magnús Geir hefur staðið sig afar vel sem leikhússtjóri hér fyrir norðan og það væri synd ef hann færi strax suður aftur, en auðvitað vel skiljanlegt. LA hefur blómstrað og á laugardaginn sáum við stórkostlega sýningu þar, gestasýningu Kristjáns Ingimarssonar, Frelsarann. Þetta er almennilegt leikhús og maður á eiginlega ekki orð til að lýsa verkinu. Það er bara fúlt að það voru ekki fleiri sýningar en tvær hér fyrir norðan og aðeins ein í Þjóðleikhúsinu því þetta er verk sem allir ættu að sjá og það ætti að geta gengið í mánuði. Frelsarinn er líka verk sem hentar öllum aldurshópum. Kristján hefur gert kraftaverk ásamt félögum sínum og frábært að fá að sjá þetta verk hér fyrir norðan. Þau Bo Madvig og Camilla Marienhof stóðu sig frábærlega og það var gaman að sjá hve verkið hafði þróast mikið frá því að þau gáfu Akureyringum innsýn í það síðasta vetur á æfingu hér í Gilinu. Hér er tengill á leikhúsið hans Kidda: Neander. Meira að segja gagnrýnandinn gagnrýni Jón Viðar Jónsson lofar verkið í hástert og hér má sjá umsögn hans í DV. Meira svona!
mbl.is Magnús sækir um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband