Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Benazir Bhutto myrt

Ástandið í Pakistan virðist hanga á bláþræði. Daglega eru gerðar sjálfsmorðsárásir. Ekki beint friðsöm jól þar í landi. Kosningarnar sem eiga að fara fram eftir tvær vikur hljóta að vera í uppnámi eftir að einn helsti frambjóðandi stjórnarandstöðunnar er drepin. Benazir Bhutto var hugrökk kona og hún lét lífið í dag fyrir hugrekki sitt. Lýðræðið hefur enn og aftur beðið hnekki.


mbl.is Benazir Bhutto látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50% líkur á hvítum jólum á Norðurlandi og 100% líkur á friðargöngu

betlehem

Daginn er tekið að lengja og það er bjart á Akureyri þessa stundina, vantar bara snjóinn. En hann gæti komið í kvöld eða á morgun ef allt fer vel. Það verður Blysför í þágu friðar í kvöld. Í höfuðborginni og á  Ísafirði er lagt af stað klukkan 18 en hér á Akureyri klukkan 20.  Um leið og ég óska öllum friðar og gæfu birti ég hér dagskrána:

Hin árlega Blysför í þágu friðar verður gengin á Þorláksmessu á Akureyri.

Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Það er góður siður að bæta við hinn almenna friðarboðskap jólanna andstöðu  við stríðsrekstur og yfirgang á líðandi stund.

Árásarstríð og hernám þjaka Írak og annað eins fer fram í Afganistan undir forystu NATO.  Hótað er hernaðaraðgerðum gegn Íran. Stuðningur Íslands við stríðsreksturinn í Írak hefur ekki verið afturkallaður.

Sýnum hug okkar um stríðið og friðinn.

Kjörorð eru þau sömu og undanfarin ár:

- Frið í Írak!

- Burt með árásar og hernámsöflin!

- Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

 

Ávarp flytur Hannes Örn Blandon prófastur.

Félagar úr Kór Akureyrarkirkju syngja.

Blys verða seld í upphafi göngunnar.

Aðstandandi: Samtök hernaðarandstæðinga


mbl.is 0,01% líkur á hvítum jólum í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins fjármagn til Háskólans á Akureyri

7

Það eru góð tíðindi að skrifað hafi verið undir samning milli Háskólans á Akureyri og menntamálaráðuneytisins um aukin framlög til skólans. Fjárskortur hefur háð HA lengi og nú er sem betur fer bætt úr því, allavega að hluta til. Mikilvægi Háskólans á Akureyri er ótvírætt og skólinn hefur fyrir löngu sannað sig. Hann ætti því að fá að vaxa enn hraðar enda er eftirspurnin fyrir hendi. Stjórn Vinstri grænna á Akureyri fagnar sérstaklega þessum samningi en í ályktuninni segir:

"Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Akureyri fagnar auknum fjárveitingum upp á 275 milljónir króna til Háskólans á Akureyri næstu þrjú árin. Þar með er óvissu eytt sem einkennt hefur rekstur Háskólans á Akureyri síðastliðinn ár, einkum hvað varðar möguleika skólans á sviði rannsókna og áframhaldandi uppbyggingar, og til að efla háskólanám á framhaldsstigi. Stjórnendur, starfsfólk og nemendur Háskólans á Akureyri geta nú betur einbeitt sér að því gríðarmikla uppbyggingastarfi sem unnið er bæði innan og utan veggja skólans. Um málefni Háskólans á Akureyri hefur ríkt víðtæk pólitísk samstaða frá upphafi og er mikilvægt að svo verði áfram."

Háskólinn á Akureyri hefur ekki aðeins þýðingu fyrir menntun í landinu öllu, hann hefur einnig styrkt Eyjafjarðarsvæðið sem ákjósanlegan búsetukost og mannlífið er blómlegra. Þess vegna ætti að stofna á Ísafirði Háskóla Vestfjarða sem fyrst að fordæmi Háskólans á Akureyri og sá skóli ætti auðvitað að vera sjálfstæður skóli en ekki útibú. Það skiptir máli.


mbl.is Tveir mikilvægir samningar fyrir Háskólann á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illvirkjun Power

Sjálfstæðismenn eru komnir í hring. Fyrir nokkrum mánuðum sögðu þeir að ríkisfyrirtæki ættu ekki að vera í áhættufjárfestingum en nú er stofnað "félag" út frá hinu rómaða ríkisfyrirtæki Landsvirkjun sem hefur einmitt þetta markmið. Sjá ekki allir að þetta er fyrsta skrefið í því að einkavinavæða Landsvirkjun? Best að fara inn um bakdyrnar á skítugum skónum fyrst að ekki tókst að vaða inn beint um aðalinnganginn! Auðvitað finnst Geir H. Haarde ekkert athugavert við þetta, þó það nú væri.


mbl.is Ekkert athugavert við félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seyðfirðingar bjarga menningarverðmætum

446528APétur Kristjánsson forstöðumaður tækniminjasafnsins á Seyðisfirði og fólkið í bænum á heiður skilinn fyrir að hafa stöðvað niðurrifið á aldargömlum verslunarminjum á Seyðisfirði í dag: „Við sáum að það þýddi ekkert að stöðva þessar framkvæmdir með orðum og við ákváðum að koma í veg fyrir að þeir gætu farið með munina út úr húsinu."

Forsvarsmenn ÁTVR eiga eftir að svara fyrir hver gaf út skipun um að það ætti að rifa niður innréttingarnar og setja þær í gám og senda til Reykjavíkur! Það er frábært að sjá að Seyðfirðingar standa vörð um menningarverðmæti á staðnum og það hefur verið meiriháttar að sjá hvað búið er að gera fallega upp mörg  gömul hús í bænum. En það er nóg verk eftir. Seyðisfjörður er að mínu mati einn fallegasti bær á landinu, Ísafjörður er einnig afar fallegur og svo auðvitað hún Akureyri:)


mbl.is Hætt við niðurrif verslunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta "innlend" frétt?

446260AStundum eru fyrirsagnirnar á mbl.is dálítið fyndnar og skrítnar. Það á ef til vill við um fyrirsögnina á þessari frétt: "Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna". En af hverju er þessi frétt flokkuð sem "innlend" frétt? Það er ekkert innlent við hana. Svona frekar erlent eða það hefði verið tilvalið að setja hana í samsuðudálkinn sem heitir "fólk". Annars er þessi frétt af GM dálítið klisjuleg og eftirfarandi setningar segja okkur ýmislegt:

"Því næst voru mennirnir klæddir í ruslapoka til að líkja eftir pilsum og fengu gúmmíhanska með álímdum gervinöglum. Dagurinn gekk svo út á að fara í gegnum venjulegan dag húsmóður og nota bíla fyrirtækisins án þess að brjóta nögl, rífa pils og þar fram eftir götunum."

Er hér ekki enn og aftur verið að ýta undir staðalímyndirnar. Ég efast um að amerískar húsmæður séu allar í pilsi, í háhæluðum skóm og með langar neglur. En þessir bílar frá General Motors fá allavega verðlaun fyrir að vera hlunkalegustu og ljótustu bensín/díselsvelgir sem fyrirfinnast. Konan á myndinni er ekki dæmigerð amerísk húsmóðir leyfi ég mér að fullyrða (og reyndar ekki heldur "innlend" (íslensk)!)


mbl.is Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að losna við herinn - losum okkur einnig við spillinguna

VG-S-1-Atli_Gislason_055Atli Gíslason á heiður skilinn fyrir að benda á spillinguna sem viðgengst með fasteignabrask upp á Velli. Geir H. Haarde stingur hinsvegar hausnum í sandinn og vill ekki sjá að þar grasserar spillingin sem aldrei fyrr. Það á að fá allt upp á borðið og talið um "viðskiptahagsmuni" og að þess vegna megi ekki segja frá neinu á ekki að líðast.

Það var mikil landhreinsun að losna við herinn. Vinstri græn og hernaðarandstæðingar höfðu lengi bent á það að atvinnulíf á Reykjanesi myndi blómstra þegar herinn hyrfi á brott. Hernaðarsinnar héldu öðru fram og reynast nú hafa rangt fyrir sér. Það er gott

Það er hinsvegar synd að það góða uppbyggingarstarf þurfi að líða fyrir spillingu innan Sjálfstæðisflokksins og einkavinavæðinguna þar á bæ. Burt með spillinguna.


mbl.is Fleiri störf en hjá varnarliði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju dró hann þetta ekki til baka fyrir "pabba sinn"?

gzinegger... eða bara sjálf síns vegna? Kannski af því að hann hefur ekki snefil að sómakennd? Þessi bloggfærsla Egils Einarssonar sem kallar sig víst "Gillzenegger" segir margt um hug þeirra sem kalla þær konur sem eru að berjast fyrir jafnrétti kynjanna "öfgafemínista" og þeir eru ekki fáir. Margir nafnlausir aumingjar sem tjá sig aðallega í athugasemdum á síðum annarra taka sömu afstöðu og Egill og grafa sig niður í eitthvert forarsvað. Leyfum þeim bara að vera þar og drullumalla við vini sína.

Í fréttinni á mbl segir "Færslan sem um ræðir var undir lið sem kallast Fréttastofa Gillz en þar nafngreinir hann fjórar konur, femínista, sem hann segir að hafi verið of áberandi í fjölmiðlum undanfarið og ýjar að því að þeim væri best að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi."  

Ég spyr mig hvort pabbi Egils horfi ekki á tíufréttir í Sjónvarpinu? Eða getur Egill ekki bara sleppt því að vera með svona viðbjóðslegar hótanir á síðunni sinni? Samkvæmt fréttinni hefur lögreglu hefði verið send skrifin til rannsóknar. En það var ekki vagna hræðslu við málshöfðun sem Egill faldi færsluna, nei af tillitsemi við mömmu: „Mamma horfir væntanlega á tíufréttir og svona, þannig að ég tók fréttina út út af henni." Litlu mömmustrákarnir kunna þó að skammast sín.

Margir sem skrifa hér á moggabloggið hafa lokað fyrir athugasemdir því í þeim hefur verið ausið óhróðri yfir fólk (gjarnan femínista). Sóley Tómasdóttir hefur til dæmis gripið til þessa neyðarúrræðis og þykir mér það miður en vel skiljanlegt. Af gefnu tilefni vil ég að fólk skrifi undir fullu nafni athugasemdir á síðuna mína, vinsamlega virðið það. 


mbl.is Gillzenegger tók bloggfærslu út fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best í heimi? - ekki alveg

429948AÞað eru ekki góðar fréttir að Ísland skuli hrapa niður listann í nýjustu PISA-könnuninni. Að vísu er ég hæfilega tortrygginn á allan svona samanburð en þetta eru samt skilaboð sem taka á alvarlega. Nú hafa verið kynntar tillögur og ný grunnskólalög þar sem margt horfir til bóta. Til dæmis er það jákvætt að lengja eigi kennaranámið. En þá verða laun kennara einnig að hækka. Víða er kennarastéttinni greidd mun hærri laun en hér á landi og hér hafa kennarastarfið lengi verið vanmetið. Þessu þarf að breyta.

Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur.

Þó að þetta sé ekki góðar fréttir af stöðu skólakerfisins þá eru hér tengill á frábærar femínistafréttir. Ég mæli með að allir gefi sér smá tíma til að setja sig inn í málin.


mbl.is Staða Íslands versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallar enn meira á lýðræðið

279af369f3d3fcb9Það er afar aumt að hin "stóra" ríkisstjórn ætli nú að skera niður ræðutímann. 15 mínútur eiga að duga að þeirra mati. Samfylkingin, hinn mikli samræðustjórnmálaflokkur er komin í stjórn og nennir ekki lengur að hlusta á mótrök og ábendingar um það sem betur mætti fara, allavega ekki ef það tekur meira en 15 mínútur. Ansi er nú illa komið fyrir þessum "stóra" flokki.

Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að þetta skuli vera hagsmunamál hjá Sjálfstæðisflokknum, þar á bæ nenna menn hvort sem er ekki að hlusta á nein mótrök eða vesen. Framsókn og Frjálslyndir eru eitthvað að drattast með stóru köllunum og nenna ekki að malda í móinn.

Þorsteinn Siglaugsson skrifaði afar góðan pistil um takmörkunina á ræðutíma og um það er hægt að lesa hér. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað bentá slæm vinnubrögð á þinginu þegar mál eru afgreidd, oft í flýti og án nægilegrar umræðu. Væri ekki nær að laga þetta frekar en að ætla enn að skera niður umræðuna.

Niðurlag vandaðrar greinargerðar sem Vinstri græn lögðu fram í dag ætti öllum að vera holl lesning:

"Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er jafn áhugasamur og fyrr um að endurskipuleggja starfshætti Alþingis, bæta og vanda mun meir til vinnubragða við lagasetningu, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrkja þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum ná hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta og þaðan af síður þau vinnubrögð að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar. Breytingar á hvoru tveggja frumvarpinu og vinnubrögðum forseta eru því óhjákvæmilegar eigi farsæl niðurstaða að nást."


mbl.is VG mótmælir harðlega frumvarpi um þingsköp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.