Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Tímamót í Hafnarfirði - Græn framtíð fyrir okkur öll

solistraumi.org

Það munar ekki miklu, aðeins 50 atkvæðum og allt getur gerst. En þessar fyrstu tölur gefa von um bjarta tíma fyrir hafnfirðinga. Alcan sem kostaði öllu til í áróðri sínum með fullar hendur fjár hefur ekki tekist annað en að skipta íbúum Hafnarfjarðar í tvær jafn stórar fylkingar. Umhverfisverndarsinnar með Sól í Straumi í fararbroddi hafa nú þegar unnið sigur. Er hægt að stækka jafn umdeilt álver jafnvel þó að 50 atkvæðin falli á hinn veginn? Til hamingju hafnfirðingar þið hafið markað tímamót. Glæsileg framtíð fyrir Hafnarfjörð með hreinna lofti og betri efnahag fyrir okkur öll.


mbl.is Fylkingar nánast jafnar samkvæmt fyrstu tölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningarnar fara vel af stað

álveriðÞað er ágætis þátttaka í kosningunum í Hafnarfirði og það er vel. Rúmlega 2000 búnir að kjósa utankjörfundar og á fyrsta klukkutímanum í morgun af þeim rúmlega 16.000 sem eru á kjörskrá. Ég hvet alla hafnfirðinga sem hafa kosningarétt til að mæta á kjörstað og segja skoðun sína á þessari fyrirhuguðu risastækkun. Þið getið markað tímamót.

Það er enn hávaðarok hér fyrir norðan en ég ætla samt að halda áfram með álklæðninguna á VeggVerki klukkan hálf fjögur og eitthvað frameftir.


mbl.is Kosið um framtíð álversins í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur til að kjósa

bakgrunnur

Hafnfirðingar fjölmenna vonandi á kjörstað í dag til að kjósa. Ég hef ekki kosningarétt og ætla þessvegna bara að þekja einn húsvegg með áli og spreyja smá á hann. Það er að vísu rok núna hér á Akureyri en lægir vonandi um hádegi og þá geta akureyringar og aðrir fylgst með. Hér er fréttatilkynning um verkið:

Hlynur Hallsson
Drulla - Scheisse - Mud
VeggVerk
31.03. - 25.05.2007
www.veggverk.org

Í dag laugardaginn 31. mars setur Hlynur Hallsson upp verkið "Drulla - Scheisse - Mud" á vegg á mótum Strandgötu og Glerárgötu á Akureyri. VeggVerk sem einnig er hægt er að sjá á slóðinni www.veggverk.org hefur verið starfrækt af Halli Gunnarssyni frá því síðasta haust og er sýning Hlyns sú þriðja í röðinni. Áður hafa Jóna Hlíf Halldórdsdóttir og Werner Berger ásamt Timothy Murphy sýnt á veggnum.

Verk Hlyns Hallssonar er gert í tilefni af því að í dag kjósa Hafnfirðingar um hvort stækka eigi álver Alcoa í Hafnarfirði eða halda því óbreittu. Hlynur mun klæða vegginn með áli og veggfóðra þannig yfir verk þeirra Werner Bergers og Timothy Murphy´s sem er málverk með textatilvitnun í Nelson Mandela eða öllu heldur Marianne Williamson. Hlynur ætlar því næst að spreyja á álið setningarnar:

TAKK FYRIR ALLT ÁLIÐ
VIELEN DANK FÜR DAS GANZE ALUMINIUM
THANKS FOR ALL THE ALUMINIUM


Hlynur segir:
"Verkið er óður til álrisanna og þakklæti fyrir allt álið sem þeir hafa fært okkur, eða kannski öllu heldur súralið frá Ástralíu. Takk fyrir allar einnota umbúðirnar sem eru síðan framleiddar úti í heimi og ameríkanar henda svo án þess að endurvinna. Takk fyrir að kaupa af okkur rafmagn fyrir brot að því sem annar iðnaur þarf að borga, hvað þá almenningur. Takk fyrir alla mengunina. Takk fyrir að skapa deilur í samfélaginu. Takk fyrir stuðla að hárri verðbólgu og háum vðxtum á lánunum okkar og takk fyrir að að því að hrekja önnur fyrirtæki úr landi. Takk fyrir þetta allt. Takk, bara takk."

Hlynur Hallsson hefur gert fjölda af spreyjverkum á undanförnum árum á sýningum í Marfa í Texas, München, Berlín, Kumamoto, Feneyjum, Kaupmannahöfn, Malmö, Reykjavík, Akureyri og nú stendur einmitt yfir sýning á verkum Hlyns á Gráa svæðinu í Þelamerkurskóla þar sem hann hefur spreyjað á vegg skólans. Það verk sem heitir "Skólinn - Die Schule - The School". Hægt er að skoða nokkur þessara verka og mörg fleiri á heimasíðu Hlyns: www.hallsson.de
Hlynur bloggar einnig á www.hlynur.is

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur sett upp um 50 einkasýningar og tekið þátt í um 70 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2005. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005.
Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, gönguferðir eða snjóhúsbygging geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar.
VeggVerk
Sýning Hlyns á VeggVerk stendur yfir til 25. maí 2007 og er öllum opin. Hlynur mun vinna við að setja upp verkið milli 12 og 16 í dag laugardag og fyrir þá sem ekki komast og eru til dæmis staddir í Hafnarfirði er hægt sjá myndir og fylgjast með uppsetningunni og svo fullbúnu verkinu á www.veggverk.org


mbl.is Úrslit í Hafnarfirði gætu legið fyrir kl. 21 til 22
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisverndarflokkarnir með meirihluta

könnun.marsÞað er ástæða til að vera bjartsýnn ef kosningarnar fara eins og þessi nýjasta könnun gefur til kynna. Umhverfisverndarflokkarnir þrír eru með hreinan meirihluta. Það yrði góð stjórn. Þá reikna ég með að gráu þingmennirnir hjá Samfylkingunni láti segast og einbeiti sér að "Fagra Íslandi! Vinstri græn eru næststærsti flokkurinn og það er glæsilegt. Íslandshreyfinginn skriður yfir 5% og kemst þá að með 3 þingmenn. En það getur margt gerst framj að kosningum. Koma svo!
mbl.is Íslandshreyfingin mælist með með 5,2% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Hafnfirðingar

kjarnorkuver

Lokaspretturinn fyrir kosningarnar um risatækkun álvers Alcan í Hafnarfirði stendur nú yfir. Í morgunútvarpinu á rás 1 í morgun var ítarleg umfjöllun og ég er alltaf að verða sannfærðari um að Hafnfirðingar hafni þessar stækkun. Öll rök mæla með því. Lang flestir sem ég hef talað við, og það er fólk úr öllum flokkum og utan flokka, vill ekki þessa stækkun. Það er flott hjá ungu fólki í Hafnarfirði að vera með uppákomu og mótmæla þessari stækkun. Ein bloggvinkona mín er Hafnfirðingurinn Ibba Sig. og hún hittir naglann á höfuðið í pistli sem hún skrifaði um daginn og ég vitna í hér:
"Ég er einn þeirra landsmanna sem er svo "heppinn" að fá að taka þátt í kosningu um deiliskipulag í Hafnarfirði. Þessi kosning hefur verið kölluð "kosning um álver í Straumsvík" og talað er um að fólk sé annað hvort að kjósa með eða á móti álveri.

Það upplýsist nú að ég ætla að kjósa með, þ.e. með óbreyttu ástandi. Ég vil sem sagt ekki að álverið verði stækkað. Þeir sem vilja að álverið verði stækkað geta bara tekið á sig hlutverk fúls á móti og kosið á móti... óbreyttu ástandi.

Langar að halda því til haga að málflutningur Alcan hefur breyst dag frá degi sl. vikur, úr því að "við ætlum ekki að loka", yfir í "gæti verið að við myndum loka eftir 14-21 ár" og til þess að Rannveig Rist sagði í Kastljósinu að miklar líkur væri á því að álverið lokaði eftir 6 ár. Hmmm, ætli fólk sé svo skyni skroppið að sjá ekki hvað verið er að gera?

-ég ætla líka að kjósa með íslenskri náttúru sem á undir högg að sækja þessi misserin

-ég kýs líka með minni losun gróðurhúsalofttegunda en eins og almenningur vonandi veit mun losun þeirra aukast úr um 250 þús tonnum í ca 750 þús tonn með stærra álveri. Ég kýs líka með minni svifryksmengun, minni flúormengun og minni losun brennisteinskoldíoxíðs.

-mig langar líka að kjósa með minni þenslu í þjóðfélaginu. Við gleymum alltaf að taka með í reikninginn hvað svona framkvæmdir kosta heimilin. Húsnæðislánið mitt hækkar og hækkar og svo þarf ég að greiða mun hærri vexti en ella. Er einhver búinn að reikna það saman hvað heimili landsins eru að borga með þessum stóriðjuframkvæmdum á þennan hátt? Held það sé slatti af milljörðum.

-ég er líka að kjósa með öðrum atvinnugreinum á landinu, sprotafyrirtækjum og annars konar iðnaði. Af hverju tala stjórnmálamenn ekki lengur um ruðningsáhrifin af svona framkvæmdum. Nú má allt í einu ekki viðurkenna að svona framkvæmdir hefta allar aðrar atvinnugreinar.

- ég kýs með komandi kynslóðum og rétti þeirra til að ráðstafa einhverju af auðlindum landsins, að við verðum ekki búin að fullnýta þær allar fyrir erlenda auðhringi.

-síðast en ekki síst er ég að kjósa með nýjum stjórnvöldum sem ekki leggja ofuráherslu á stóriðju. "

Til hamingju Hafnfirðingar með að hafna risastækkun álvers Alcan.

óli.libia

Myndlistarfólkið Ólafur og Libia eru með flott verk (með viðbættum texta) í tilefni dagsins og hér er heimasíðan þeirra.


mbl.is Hafnfirsk ungmenni mótmæla álversstækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki tíu ára fangelsi fyrir veggjakrot aðeins of mikið?

bush2881Húlla, vesalings Oliver Jufer að vera dæmdur í hlekkjum í 10 ára fangelsi fyrir það eitt að spreyja yfir nokkrar  myndir af konungi Tælands. Ég sé að ég hef sloppið nokkuð vel hingað til! Löggurnar í Feneyjum voru til dæmis afar sáttar við spreyjið mitt þar um árið. Ef ég hefði skrifað eitthvað um Berlusconi getur verið að annað hljóð hafi komið í strokkinn. Félagar Bush voru ekki alveg eins kátir með nokkrar setningar sem ég skrifaði í Marfa, Texas 2002. Ég bendi hér á afar góða grein Ingólfs Jóhannessonar um "Stóra veggjakrotsvandann". Ég er einmitt að fara að spreyja smá um áliðnaðinn á veggverk.org í dag. Því verður örugglega tekið vel og ég slepp með fjögur ár. Hér eru nokkur verk og meira er á heimasíðunni minni.

artforum2139_001 usa424_001SMALL


mbl.is Tíu ára fangelsi fyrir veggjakrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrla til Akureyrar

þyrlaBjörn Bjarnason getur ekki lengur staðið í vegi fyrir því að þyrla verði staðsett á Akureyri. Öll rök mæla með því. Hér er fullkomið sjúkrahús og þyrlan yrði mun fljótari á vettvang ef slys yrði hér á svæðinu eða fyrir norðan land. Þetta er mikið öryggisatriði fyrir sjómenn og einnig alla ferðamenn. Á undanförnum mánuðum hefur verið bent á mikilvægi þess að þyrla verði staðsett hér af mörgum sem málið varðar. Í ályktun stjórnar Læknafélags Íslands segir meðal annars:

"Stjórn Læknafélags Íslands fer fram á það við stjórnvöld að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri.
Í nútímasamfélagi eru gerðar kröfur um að bráðveikum og slösuðum verði komið undir læknishendur á sem stystum tíma og að íbúar landsins sitji við sama borð. Þetta á að sjálfsögðu við um leitar- og björgunarstörf sem eru ríkur þáttur í starfsemi þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar.
Björgunarþyrluþjónusta sem einungis er gerð út frá Reykjavík er of svifasein vegna langs flugtíma til að geta sinnt bráðaþjónustu fyrir norður og austur hluta landsins.
Miðhálendið skiptir landinu í tvö megin veðursvæði. Þyrluflug yfir hálendið er oft erfitt vegna veðurskilyrða og ísingar. Lágflug með ströndum er tafsamt og getur verið varasamt. Með því að staðsetja þyrlu á Akureyri er verið að stytta viðbragðstíma þyrlu til íbúa norður- og austurlands verulega og einnig til hafsvæðisins úti fyrir. Vekja ber einnig athygli á norðurhluta hálendisins, en þar er umferð sívaxandi. Við slys og þá sérstaklega sjóslys getur hver mínúta skipt þann máli, sem í háska hefur lent.
Um mönnun lækna er það að segja, að rekstur sjúkraflugs undanfarin ár með miðstöð á Akureyri hefur sýnt, að á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er fullnægjandi mannafli fyrir þessa þjónustu."

Þetta er augljóst. Ég spái því að það verði tekin ákvörðun um staðsetningu þyrlu hér á Akureyri fyrir kosningar og blásið verði til blaðamannafundar þar sem ráðherrarnir klappa fyrir sér.


mbl.is Læknar vilja þyrlu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmar skúbbaði handtöku Spaugstofunnar

spaugstofanSigmar Guðmundsson bloggari og Kastljóssmaður átti skúbbið með handtöku Spaugstofunnar. Mbl.is ætti að taka sér Sigmar til fyrirmyndar og í framhaldinu segja hvaðan fréttirnar koma. Það voru auðvitað hæg heimatökin hjá Sigmari en það eru einnig hæg heimatökin hjá mbl.is því hann er jú með mest sóttu síðuna á moggablogginuSmile Það er einnig gott að vita að Íslendingar eru ekki búnir að missa húmorinn, maður var farinn að hafa áhyggjur.
mbl.is Handtaka átti Spaugstofumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðinu gefið langt nef

straumsvíkÞað er óhugnanlegt að horfa uppá það hvernig stórfyrirtækið Alcan eys út milljónum og aftur milljónum í einhliða áróður. Fyrirtækið hikar ekki við að falsa myndir, stunda persónunjósnir, kaffæra okkur með auglýsingum og reyna þannig að kaupa Hafnfirðinga til lags við sig. Þessi kosningabarátta álrisans er farinn að líkjast því hvernig "lýðræðið" í BNA fer fram nema hér eigast ekki tveir risar við heldur bara einn Golíat, álrisin Alcan með fullar hendur fjár. Ég trúi ekki öðru en að Hafnfirðingar hafni því að vera keyptir. Hafnfirðingar geta sýnt það með því að kjósa gegn stækkun álversins. Þannig er hægt að bjaga lýðræðinu og Hafnarfirði.
mbl.is Stefnir í tvísýnar álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misnotkun á hugtakinu sjálfbær þróun

valgerðurValgerður Sverrisdóttir stóriðjuráðherra með meiru fer létt með að misnota hugtakið sjálfbær þróun á fundi á Húsavík í dag. Það er svo sem ekkert nýtt að þetta hugtak sé misnotað en Valgerður ætti að vita betur, eða hvað? Stefán Gíslason skýrir ágætlega hugtakið sjálfbær þróun í Fræðsluriti sem hægt er að nálgast hér. Hann segir:

"Sjálfbær þróun, eða Sustainable Development, eins og hugtakið nefnist á ensku, er venjulega skilgreind sem „þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum”. Hér er með öðrum orðum átt við þróun sem getur haldið áfram, þ.e.a.s. þróun sem er „gerð til að endast“.
Skilgreiningin hér að framan er ættuð úr svonefndri Brundtlandskýrslu sem birt var árið 1987 í bókinni Sameiginleg
framtíð vor. Skýrslan var afrakstur alþjóðlegrar nefndar sem Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, veitti forstöðu, en hlutverk nefndarinnar var að fara yfir stöðu umhverfismála í heiminum og gera tillögur um aðgerðir til að sporna gegn ofnýtingu og hnignun náttúruauðlinda sem ella myndi fyrirsjáanlega koma niður á velferð mannkynsins."

Þorbjörn Hlynur Árnason skrifar ljómandi grein um Kirkjuna og sjálfbæra þróun sem hægt er að lesa hér og segir meðal annars: "Sjálfbær þróun hefur verið einskonar tískuorð um langan tíma.  Það eru margar skilgreiningar og útgáfur til af þessu hugtaki, sem felur þó  í sér, í grunninn, að ekki sé endalaust hægt að taka af auðlindum jarðar, umfram endurnýjunarmátt þeirra.  Þetta hugtak hefur vitaskuld einnig ríka skírskotun til efnahagsþróunar, einkum í þriðja heiminum - það varðar stjórnmál - það varðar lífið sjálft. 
 
En þetta er gott tískuorð, þótt sjálfbær þróun og vitundin um hana - sé  í sjálfu sér ekkert ny%u0301tt.  Þeir sem hafa lifað af landinu þekkja nauðsyn þess, að taka ekki of mikið, ganga ekki of hart fram - það er ekki nóg að þreyja þorrann og góuna með öllum ráðum - eitthvað þarf að vera eftir fyrir næsta ár og næstu kynslóð."

Valgerður ætti til dæmis að lesa þetta áður en hún gefur fleiri yfirlýsingar um að álver á Íslandi geti " rúmast innan marka sjálfbærrar þróunar" Ég bendi einnig á frábærar glærur frá erindi Bergs Sigurðssonar sem hægt er að sjá hér.

Það eru hinsvegar endalausir möguleikar í atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum t.d. í heilsutengdri ferðaþjónustu eins og fjallað var um hjá rúv í morgun. Margt af því getur fallið undir sjálfbæra þróun. Vinstri græn eru mjög hlynnt virkjunum ef þær eru umhverfisvænar og að orkan úr þeim sé nýtt skynsamlega en ekki seld fyrir slikk til mengandi stóriðju. Það að segja að álver á Húsavík geti "rúmast innan marka sjálfbærrar þróunar" er hinsvegar lélegur brandari og misnotkun hugtakinu sjálfbær þróun. Ögmundur Jónasson skrifar mjög góðan pistil um fundinn á Húsavík undir fyrirsögninni "HVERS KONAR UPPBYGGINGU Á HÚSAVÍK?" Tilvalið að lesa hann hér. (Myndina fínu af Valgerði fékk ég lánaða af síðunni hennar.)


mbl.is Segir álver við Húsavík rúmast innan marka sjálfbærrar þróunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.