Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ég missi aftur af tilraunastofu Kristjáns Ingimarssonar

frelseren11_smallAnsi fúlt en maður verður stundum að bíta í súr epli og það er ekki hægt að vera á tveim stöðum samtímis, ekki ennþá allavega. Þess vegna missi ég af annarri tilraunastofu Kidda vinar míns í Deiglunni á föstudagskvöld. Ég fékk smá innsýn í stofuna í dag þegar ég kíkti í heimsókn á vinnustofuna hans fyrir ofan Listasafnið og get lofað góðu kvöldi.

Ég ætla hinsvegar að skella mér á fund hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði í höfuðborginni og af því þetta er tveggja daga fundur þá er útilokað að sjá tilraunstofuna. En ég hlýt að komast næst, þá er líka síðasti séns. En fyrir alla sem þyrstir í fyrsta flokks tilraunaleikverk þá er tilkynningin hér: og muna að taka með myndavélar með flassi!

Tilraunastofa Kristjáns Ingimarssonar og Gilfélagið kynna:

Hvað er það sem gerir það að verkum að eitthvað nýtt verður til? Eitthvað sem enginn veit hvað er en allir eru sammála um að þetta eitthvað er einstaklega hrífandi, skemmtilegt, óhugnanlegt eða upplífgandi, með athygli sinni og undrun gefa því líf. Í tilefni af byrjun á vinnslu nýrrar sólóleiksýningar sem ber vinnuheitið SKÖPUN er dyrunum hrundið upp til viðburðar sem vonandi kollvarpar öllum hugmyndum um heilbrigða skynsemi.

Allir velkomnir - Aðgangur ókeypis í Deiglunni á Akureyri föstudagskvöldið 22. febrúar klukkan 20:30
Vinsamlegast takið með ykkur myndavél með flassi!
Þetta er annar viðburðurinn af þremur sem Gilfélagið og Kristján Ingimarsson standa fyrir í tengslum við SKÖPUN - ALLIR VELKOMNIR

Kristján Ingimarsson leikari nýtur aðstoðar Jónu Hlífar Halldórsdóttur og Brynhildar Kristinsdóttur.
Kristján Ingimarsson s.8643131
http://www.neander.dk

Ætla bæjaryfirvöld á Akureyri að svíkja siglingafólk?

DSCF3909

Þessi litla frétt á mbl.is kemur mér verulega á óvart. Þar segir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfó á Akureyri ætli að skera niður framlag til Siglingaklúbbsins Nökkva, framlag til framkvæmda sem búið var að ákveða. Rúnar Þór Björnsson, formaður Nökkva hefur ásamt öflugu liði lagt á sig ómælda vinnu, allt í sjálfboðavinnu auðvitað og ef það er svona sem meirihlutinn ætlar að verðlauna menn þá er auðvitað best að pakka saman og hætta þessu. Rúnar segir líka orðrétt: „Ef þetta fer á þann veg sem lítur út núna sér stjórn Nökkva ekkert annað í stöðunni en skila inn lyklunum að aðstöðunni, hætta endalausri sjálfboðavinnu fyrir annarra manna börn og horfa á margra áratuga vinnu fjölda fyrrverandi stjórnarmanna verða að engu vegna loforða sem virðast endalaust geta frestast.“

Það stefnir í að þetta mál verði enn ein skömmin í hatt þessa meirihluta sem er með allt niður um sig í skipulagsmálum eins og landsþekkt er. En svona gera menn ekki!

(Myndin er tekin af heimasíðu Nökkva)


mbl.is Segjast skila lyklum og hætta sjálfboðavinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Kristjánsson með fyrirlestur um mynd mannsins

Félag áhugafólks um heimspeki á Akureyri hefur staðið fyrir fjölda fyrirlestra og heimspekikaffihúsa. Nú er ný röð í uppsiglingu og það er Kristján Kristjánsson sem ríður á vaðið. Hér er tilkynning um þessa fyrirlestra:

Félag áhugafólks um heimspeki,
Amtsbókasafnið,
Háskólinn á Akureyri,
& Akureyrarstofa

Fyrirlestur fimmtudaginn 21. febrúar
kl. 17.00 á Amtsbókasafninu á Akureyri


Mynd mannsins –
í fræðum og vísindum


Það er eilífðar viðfangsefni mannsins að lýsa og skilgreina veröldina. Það hefur löngum verið talið sérsvið heimspekinnar að takast á við manninn sjálfan með þessum hætti. Þegar betur er að gáð má þó sjá að allar greinar fræða og vísinda hafa innibyggða ákveðna hugmynd um fyrirbærið manninn eða mynd mannsins. Í fyrsta erindi fyrirlestrarraðar um mynd mannsins í fræðum og vísindum ræðir Kristján Kristjánsson, heimspekingur, um stöðu mannsins innan vestrænna heimspekikerfa og ber saman við austurlensk viðhorf til þess sem heimspekingar kalla "sjálf" mannsins.

Á næstu vikum verða fyrirlesarar auk Kristjáns Kristjánssonar þessir:

Margrét Harðardóttir, arkitektúr
Hans Jakob Beck, læknisfræði
Ragnhildur Sigurðardóttir, vistfræði
Ágúst Þór Árnason, lögfræði
Sigurður J.Grétarsson, sálfræði
Arna Schram, fjölmiðlar

Á skírdag talar Kristinn Ólafsson um mannskilning kristinnar trúar.

Fyrirlestrarnir verða haldnir alla næstu fimmtudaga kl. 17.00 í Amtsbókasafninu á Akureyri.


Hraðlest til Keflavíkur, já takk

Tillaga Árna Þórs Sigurðssonar og þingmanna úr öllum flokkum er löngu tímabær. Það er kominn tími á almennilegar almenningssamgöngur frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík til Reykjavíkur. Á Stöð 2 var ótrúlega hlutdræg og neikvæð "frétt" um málið. En það má ekki láta úrtöluliðið ráða för.  Við erum komin inn í 21. öldina og það er sjálfgefið að nota innlenda orkugjafa, rafmagnið, til að knýja samgöngutæki framtíðarinnar.

Léttlestarkerfi í Reykjavík ekki ósvipað hinu frábæra METRO í Kaupmannahöfn er einnig eitthvað sem skoða ber vandlega og með opnum huga. Nemendur í Háskóla Íslands gerðu athugun á hagkvæmni lestar milli Reykjavikur og Keflavíkur og niðurstaðan var að það margborgaði sig. Árni Þór á heiður skilinn fyrir að fá þingmenn úr öllum flokkum með sér á þetta þarfa mál.

(Myndin er af Metrolest í Portúgal)


mbl.is Vilja láta skoða hagkvæmi lestarsamgangna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Mosó

Það eru afar ánægjuleg tíðindi að nýr framhaldsskóli verði loksins byggður í Mosfellsbæ. Tillaga um þetta hefur verið lögð fram af þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á undanförnum þingum og mig minnir að Jón Bjarnason hafi verið þar fremstur í flokki. Ég er viss um að Kalli Tomm fagnar með því að taka eitt trommusóló! Mosi bloggfélagi minn fagnar einnig þessum áfanga. Til hamingju öll.

(Myndin er fengin að láni af vef Sigurrósar


mbl.is Framhaldsskóli í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin fallin - fundur í Ráðhúsinu

óliogvilliÞað eru afar ánægjuleg tíðindi ef rétt og satt reynist að stjórnin sé fallin, þessi herstjórn í Pakistan.

Og svo er boðað til blaðamannafundar í Ráðhúsinu á morgun af annarri stjórn sem lafir enn. Það getur að vísu vel verið að fundurinn verði færður á síðustu stundu upp í Valhöll því þar eru menn að æfa sig í að taka á móti gestum, blaðamönnum og hafa nóg af auðum stólum og neyðarútgöngum og svona. Láta alla bíða hæfilega lengi til að auka spennuna.

En af hverju bara þriggja ára áætlun? Gáfust fimm ára áætlanir illa? Hvað með þriggja daga áætlun? Eða tveggja ára og þriggja mánaða?

Einn stærsti galli íslenskra stjórnmálamanna er að þeir virðast ekki geta horft lengra fram í tímann en 4 ár.  En það er greinilega verið að stytta það niður í 3 ár af borgarstjórnarhlutanum. Vonandi verður bein útsending.

Svo bíður maður einnig spenntur eftir úrslitunum frá Pakistan


mbl.is Pakistanska stjórnin fallin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var verið að hugsa um að hækka persónuafsláttinn um 500 kall?

%7Bee72cc6f-5dfc-45f2-89b0-2b70b828d8a4%7D_kossabandalagi%F0Mér finnst þetta nú heldur aumt hjá þessar slöppu ríkisstjórn. Persónuafslátturinn á að hækka um heilar 2.000 krónur, já og ekki fyrr en 2009! Og svo aftur um 2.000 árið 2010 og síðan heilar 3.000 árið 2011. Þetta telst nú varla ofrausn. Minna má það nú ekki vera. Hvert var planið ef þetta er meira en gert var ráð fyrir. 500 kall árið 2020?

Maður ætti kannski að fagna því með miklum húrrahrópum að persónuafslátturinn verði hækkaður yfirleitt? Ég veit það ekki. Það getur verið að ég sé óhóflega bjartsýnn maður að eðlisfari, því ég átti von á einhverri almennilegri hækkun á persónuafslættinum. Svona 20.000 núna og annað eins á næsta ári. Hið "gífurlega tap" ríkissjóðs hefði mátt brúa með því að hækka hinn "voða háa" fjármagnstekjuskatt um tvö prósentustig í 12% semsagt en sleppa honum alveg fyrir þá sem eru bara með smotterí í fjármagnstekjur, segjum af innistæðum uppá 5 millur. Þá hefði verið ástæða til að fagna en þetta er eitthvert það aumasta útspil frá Samfó og íhaldi sem hægt er að hugsa sér.

Sorrý, þið getið kallað mig frekju en mér finnst þessi 18.000 kall hækkun á laun og svo 2.000 króna hækkun á persónuafslætti engin ofrausn. Ansi skítt væri nær lagi.


mbl.is Persónuafsláttur hækkaður meira en gert var ráð fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt sjálfstætt ríki í Evrópu


Maður hefur ekki alveg tölu á því hvað gamla Júgóslavía er orðin að mörgum sjálfstæðum löndum. Eru þau sex eða sjö með Kosovo? Ég fór með rútu frá Þýskalandi til Króatíu árið 1995 og þá var búið að hrófla upp í hvelli landamærastöðvum á milli Slóveníu og Króatíu. Sundurskotin hús stóðu enn meðfram veginum og Zagreb var enn stórskemmd. Dubrovnik var hinsvegar endurbyggð að mestu en þar var allt fullt af amerísku hermönnum í fullum herklæðum í fríi!

Vonandi standa menn við það að ekki verði farið í enn eitt stríðið út af þessum landamærum og að réttur íbúanna verði virtur, bæði serbneska minnihlutans og albanska meirihlutans.


mbl.is Dansað á götum Pristina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að ala á útlendingahatri í Danmörku?

452357 Það verður að teljast afar hæpið að endurbirting þessara skopmynda af Múhameð gamla sé ástæðan fyrir íkveikjum og skemmdarverkum í Köben. En af hverju halda danskir og íslenskir fjölmiðlar þessu fram? Oft hefur verið bent á að hér sé um að ræða atvinnulaust ungt fólk og það sem enn verra er vonlítið ungt fólk í Danmörku. Þetta eru ekki allt "innflytjendur". Jafnvel ekki annarra kynslóðar "innflytjendur". Þetta er bara reitt og vonsvikið ungt fólk, oft danskt í 20 ættliði.

Talsmenn múhameðstrúarmanna í Danmörku hafa reynt að róa sitt fólk og jafnframt fordæmt endurbirtingu skopmyndanna. „Múhameð hefur ekki kennt ykkur að brenna bíla, skóla og opinberar byggingar. Hann hefur kennt ykkur að hegða ykkur á siðmenntaðan hátt", sagði ímaminn Mustafa Chendid við föstudagsbæn í dag. Enda hefur fólkið sem verður fyrir íkveikjum ekkert af sér gert. Hvaða tilgangi þjónar það þá að spyrna saman þessa hluti? Getur það verið að tilgangurinn sé að ala enn á útlendingahatri í Danmörku? Vonandi ekki, en afleiðingarnar eru einmitt þessar.


mbl.is Eldar kveiktir í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækka skattleysismörkin

452412A Það á ekki að þurfa að funda mikið um þetta. Það er svo augljóst að það kemur öllum vel og langbest þeim sem eru með lægstu launin. Geir, Ingibjörg, Jóhanna og Árni eiga ekki að þurfa að velta þessu fyrir sér í langan tíma, eða hvað? Semsagt hækka skattleysismörkin almennilega og málið er afgreitt. "Hefja undirbúningsvinnu" hljómar eins og þessi ríkisstjórn hafi ekkert verið að gera hingað til og það er sennilega staðreyndin.
mbl.is Undirbúningsvinna að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband