Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Aki Kaurismaki hundsar Bush

kaurismaki

Aki Kaurismaki er flottur og samkvæmur sjálfum sér þegar hann segist ekki mæta til Hollywood þrátt fyrir að nýjasta myndin hans "Lights of the Dusk" sé tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Á mbl.is segir:

Finnski kvikmyndagerðarmaðurinn Aki Kaurismaki hefur neitað að senda nýjustu kvikmynd sína í forval til Óskarsverðlauna í mótmælaskyni við stefnu George Bush Bandaríkjaforseta í utanríkismálum. Finnska kvikmyndastofnunin valdi mynd hans, Lights of the Dusk, sem framlag Finna til verðlaunanna, en Kaurismaki neitaði að senda myndina í forvalið og því munu Finnar ekki senda neina mynd til verðlaunanna í ár.

the.man.without.a.past

„Þegar The Man without a Past var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2002 ákváð Aki að mæta ekki til verðlaunanna í mótmælaskyni við það sem var að gerast í heiminum á þeim tíma, og í mótmælaskyni við stjórnvöld í Bandaríkjunum,“ sagði Ilkka Mertsola, aðstoðarmaður Kaurismaki. „Ekkert hefur breyst síðan þá og þess vegna sér hann sér ekki fært að taka þátt í hátíðinni að þessu sinni.“

leningradcowboys_goamerica

Þetta hefur vakið heimsathygli og það er gott hjá Aki. Leikarar og kvikmyndagerðarfólk í Hollywood hafa sem betur fer verið dugleg að gagnrýna stríðsglæpi bandaríkjaforseta og Aki undirstrikar það með því að nenna ekki einu sinni að mæta á staðinn. Leningrad Cowboys fara semsagt ekki til Ameríku fyrr en Bush er farinn og BNA hætt að ráðast á önnur ríki. Plús í kladdann fyrir þennan kvikmyndasnilling.

 


mbl.is Kaurismaki sendir ekki mynd á Óskarinn í mótmælaskyni við Bandaríkjastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppni

birgir.jónsson

Góðar fréttir að Icelandexpress ætli að skella sér í samkeppni við Flugfélag Íslands í innanlandsfluginu. Við akureyringar getum reiknað með því að fargjöldin lækki helling. Eins og þegar Íslandsflug fór að fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur, þá lækkuðu fargjöldinn en daginn sem þeir hættu hækkaði Flugfélag Íslands fargjaldið um 100%! Velkominn Birgir Jónsson og félagar.

Ég vona bara að Icelandexpress haldi áfram að fljúga beint frá Akureyri til Köben og London (og helst vildi ég að þau bættu Berlín í hópinn!) Mér sýnist líka vera vel bókað í þessi flug og í þau fjögur skipti sem ég hef flogið með félaginu beint milli Köben og Akureyrar hefur vélin verið 80-90% bókuð. Á Akureyri og Norðurlandi hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mikið.

Svo þarf að lengja flugbrautina svo kraftminni þotur eigi auðveldara með að lenda og taka sig á loft.


mbl.is Innanlandsflug hjá Iceland Express næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott hjá Sorpu

metanbíll

Þetta er framtíðin. Sorpbílar sem ganga fyrir metangasi sem myndast úr úrganginum sem þeir safna saman. Tær snilld hjá Sorpu. "Eldsneytið sem bílarnir ganga fyrir er unnið úr sorpinu sem safnað er í borginni og má því segja að bílarnir séu sjálfbærir um eldsneyti." Segir Guðmundur B. Friðriksson hjá Umhverfissviði borgarinnar. Á heimasíðu Sorpu segir einnig: "Þrír nýir fólksbílar af gerðinni Volkswagen Caddy hafa bæst í hóp metanbílaflota SORPU. Metanbílar í eigu SORPU eru nú sextán talsins en von er á fjórum til viðbótar á næstu vikum en þeir eru af gerðinni Volkswagen Touran."

caddy

Til hamingju með þessa bíla og það ættu fleiri að taka sér Sorpu til fyrirmyndar. T.d. bæjaryfirvöld hér á Akureyri en hér eru sorpmálin enn í rusli. Við viljum líka fá "Góða hirðinn" hér fyrir norðan. Það þarf að gera átak í flokkunarmálum og ég hélt að allir væru sammála um það en eitthvað skortir á framkvæmdagleðina í þessum málum hjá okkar ástsæla meirihluta. Hvernig væri líka að innleiða grænar tunnur hér á Akureyri. Við erum 5 árum á eftir höfuðborginni og 20 árum á eftir norðurlöndunum og meginlandi Evrópu.

EcoFuel_533_200

Hjá heimasíðu Heklu er annars sagt meira frá þessum bílum fyrir þá sem vilja.


mbl.is Sjálfbærir sorpbílar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruverndarsamtökin IWMC ?

iwmc

Hefur fólk skoðað heimasíðu þessara "náttúruverndarsinna"? Ég set stórt spurningamerki við þetta gengi. Skoðið hvað þau hafa um bann við byssueign að segja! Frábært að það var hægt að finna einhvern utan grænlendinga og japana sem styðja ákvörðun ríkisstjórnar Íslands!


mbl.is Náttúruverndarsamtökin IWMC styðja hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á skíði!

snjódæla

Líka Kristján Loftsson og bara ríkisstjórnin öll með. Upp í Hlíðarfjall og vera þar allavega fram að jólum svo að liðið geri ekki meir óskunda en orðið er. 250 umfjallanir í enskumælandi fjölmiðlum og 95% afar gagnrýnar á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja hvalveiðar. Æ, æ, gleymdist svo að fá leyfi fyrir hvalstöðinni. Ekki er nú öll vitleysan eins! Hvaða óðagot og rugl er þetta? Er sjávarútvegsráðherra að fara af límingunum. Róa sig niður á skíðum!


mbl.is Snjóframleiðsla komin í gang í Hlíðarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól í Straumi

straumsvík

Hérna er frábær frétt af visir.is:

Búið er að stofna þverpólitískan hóp í Hafnarfirði sem er andsnúinn stækkunaráformum Alcan í Straumsvík. Hópurinn kallar sig Sól í Straumi og hefur boðað til fundar í Hafnarfirði á mánudag til þess að ræða stækkun álversins.
Fram kemur í tilkynningu frá hópnum að allt sem skipti máli liggi nú þegar fyrir, meðal annars sé búið að selja Alcan lóð undir stækkaða starfsemi og kynna deiliskipulag þar að lútandi, búið sé að gefa grænt ljós á umhverfismat og starfsleyfi og þá sé Alcan að semja við birgja um aðföng fyrir stækkaða verksmiðju. Eru allir Hafnfirðingar hvattir til að skoða málið en fundurinn verður klukkan 20 í Haukahúsinu að Ásvöllum á mánudag.

Flott hjá ykkur hafnfirðingar. Til hamingju. 


Nú ég hélt að álið væri framtíðin!

alver

Hva, bara verið að leggja niður álbræðslur útum allt nema í Trinitad & Tobacco og á Íslandi. Ég hélt að meira ál væri lausn á öllum málum. Ætli Valgerður viti af þessu, eða Alcoa? Niðurskurður í þessum bransa er ekki eitthvað sem þau skötuhjú vilja heyra. 


mbl.is Norsk Hydro stefnir að sölu á verksmiðjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn og ég

hvalveiðar2

Það er ekki oft sem ég er sammála leiðarahöfundi Moggans. En í dag heyrist mér að við séum innilega sammála um að hvalveiðar í atvinnuskyni nú séu óráð. Heyrði lesið úr leiðaranum á morgunvaktinni í morgun. Viðbrögðin við þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar láta heldur ekki á sér standa! Við eigum ekki að taka sénsinn á því að missa ferðamenn og það sem eftir er af ímynd okkar sem hreins og óflekkaðs lands. Sú ímynd hefur að vísu hvað eftir annað beðið hnekki á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (Kárahnjúkavirkjun, Álbræslur, stuðningur við Íraksstríð o.s.frv.)

hvalveiðar3

Tímasetningin á þessari ákvörðun er einnig stórfurðuleg og þetta PR-dæmi með Hval 9. Er ekki hægt að stoppa þessa menn og koma fyrir þá smá snefil af skynsemi? Hinsvegar finnst mér að Mogginn ætti að taka sér Blaðið og Fréttablaðið til fyrirmyndar og hætta að skrifa leiðara og efni án þess að geta höfundar. Þeir staksteinatímar eru liðnir Moggi.


mbl.is "Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl

hvalveiðar

Hvað er í gangi í þessu landi? Herra Hvalur númer níu, Kristján Loftsson er sendur á sjóinn til að skjóta nokkrar langreyðar í hvelli. Hann bilaði að vísu en hvað með það. Og síðan er utanríkismálanefnd og sjávarútvegsnefnd kölluð á teppið og sagt að hvalveiðar séu að hefjast að nýju (eða bara hafnar að nýju)! Eftir höfðinu (DO) dansa limirnir og litlu ráðherrarnir eru farnir að hegða sér eins og þeim sýnist. "Af því að við erum svo stolt veiðimannaþjóð og enginn segir okkur sko fyrir verkum-stefnan" er sett í gang en afleiðingarnar hundsaðar!

guðjón

Guðjón nokkur Hjörleifsson sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins hélt því þrisvar fram á Rás 2 í dag að það væri voðalegt hvað allir þessi hvalir borði mikið af fiski og nú ætti því að fara að skjóta nokkra þeirra. Þá getum við væntanlega veitt meira sjálf, eða hvað? Kolbrún Halldórsdóttir benti honum á að þessu rök héldu ekki vatni því það skipti engu máli um 9 hvali til eða frá af 70.000 hvala stofni með tilliti til þess hvað þeir borða. Og það væri sama sagan með 200 hvali. Semsagt dropi í hafið því 69.800 hvalir borða jú álíka mikið og 70.000 er það ekki? En Guðjón endurtók þá bara frasann. Annaðhvort skilur hann ekki málið eða það sem verra er: vill ekki skilja neitt! Svo fullyrti Guðjón Hjörleifsson einnig að öll hagsmunasamtök væru hlynnt hvalveiðum! Bíðum nú við er hann ekki að gleyma einhverjum? Ég veit ekki betur en talsmenn ferðaþjónustunnar hafi mótmælt þessum hvalveiðum. Eða telst ferðaþjónustan kannski ekki með? Og svo kom besta klisjan í frumskógi raka Guðjóns. Það var að landsbyggðinni blæddi vegna þess að við værum næstum hætt að veiða hvali! Í hvaða landi býr Guðjón? Landsbyggðinn blæðir vegna annarra hluta. Nefninlega afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar og fáránlegs kvótakerfis. Vill Guðjón segja fólki á Húsavík þennan brandara sinn? Þar hefur verið byggð upp hvalaskoðun á heimsmælikvarða og það er auðvitað miklu meiri hagnaður af því að skoða hvali heldur en að drepa þá. Jóhannes Kjarval var forspár um þetta.

hvalaskoðun1

Aðferðin sem ríkisstjórnin beitir við hefja hvalveiðar er furðuleg og ruddaleg, auk þess sem hvalveiðar í atvinnuskyni til að fylla frystigeymslur er rugl. Á heimsíðu Greenpeace er nú þegar komin frétt á forsíðu um málið og farið að safna undirskriftum gegn þessari ákvörðun. Breska sendiráðið sendi bréf til ríkisstjórnarinnar til að vara við afleiðingunum og þær geta orðið verulegar, einnig fyrir fiskútflytjendur og þá hefði nú ef til vill verið betur heima setið en af stað farið með byssurnar.  

Nánar um þetta á ruv.is  og einnig hér á ruv.


mbl.is Heimilað að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttatónn í Tony

tony.blair

Það er gott að heyra að Tony Blair er á "sáttabuxunum" í dag. Sérstaklega eftir fréttirnar í gær þar sem Ruth Kelly, menntamálaráðherra breta var með furðulegar hugmyndir um allsherjar eftirlitsþjóðfélag. Bara vonandi að Tony gamla takist að lægja öldurnar og að einhverjir hætti við að búa til sprengjur og taki þátt í viðræðum um "stöðu múslíma í bresku samfélagi". Batnandi mönnum er best að lifa og við verðum að vona að fosætisráðherrann meini eitthvað með þessu!


mbl.is Tony Blair segir nauðsynlegt að staða múslíma verði rædd í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband