Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Karen Dúa opnar á Karólínu

100307

Það eru sjö opnanir í Gilinu í dag og ég er að verða of seinn á fyrstu opnanirnar sem eru klukkan 14:00. Ætla hér að birta fréttatilkynningu um sýninguna hennar Karenar Dúu og þjóta svo.

Karen Dúa Kristjánsdóttir

Draugurinn - ég

10.03. - 06.04.2007  
 

Velkomin á opnun laugardaginn 10. mars 2007, klukkan 14

Café Karólína // www.karolina.is
Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755
---
Laugardaginn 10. mars klukkan 14 opnar Karen Dúa Kristjánsdóttir sýninguna "Draugurinn - ég" á Café Karólínu.
Karen er fædd á Akureyri 1982 og útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2006. Vinnustofa henner er í Gilinu og rekur hún þar ásamt félögum sínum gallerí BOX.
Karen segir um sýninguna á Café Karólínu:
"Maðurinn er jafnan forvitinn um líf á öðrum tilverustigum, hvort sem við afneitum því eða trúum heitt á það, - þá erum við forvitin. Verkin sem nú eru sýnd á Café Karólínu eru málverk unnin með olíu á striga. Þau eru óræð, minna okkur á drauga og skilja eftir spurningar.
Stundum birtast okkur óljósar myndir af verum sem við vitum ekki hvort að eru raunverulegar. Eru þetta draugar eða spegilmyndir af okkur sjálfum? Eru þetta kannski bara óljósar minningar að láta vita af tilvist sinni? Eða draugurinn af sjálfri mér í mismunandi myndum, hin mörgu andlit sjálfrar mín. Fylgir mér eins og vofa, tilfinningin að vera aldrei ein er góð. Draugurinn ég sem vill stundum bara hverfa, gufa upp út í loftið, vera ósýnileg og týnd í tímanum.  

Eru draugar dáið fólk, eða eru draugar jafnvel ekki til? Ímyndun ein sem lifnar við."

Nánari upplýsingar um verk Karenar eru á síðunni:
http://www.umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/625

Karen verður viðstödd opnunina.
Sýningin á Café Karólínu stendur til 6. apríl 2007. Allir eru velkomnir á opnun laugardaginn 10. mars 2007, klukkan 14.

Á sama tíma stendur yfir sýning Jónasar Viðars á Karólínu Restaurant. Sú sýning stendur til 4. maí 2007.

Næstu sýningar á Café Karólínu:

07.04.07-04.05.07        Aðalsteinn Þórsson
05.05.07-08.06.07        Edda Þórey Kristfinnsdóttir
09.06.07-06.07.07        Björg Eiríksdóttir
07.07.07-03.08.07        Elísabet Jónsdóttir
04.08.07-31.08.07        Dagrún Matthíasdóttir
01.09.07-05.10.07        Stefán Jónsson
06.10.07-02.11.07        Marsibil G. Kristjánsdóttir
03.11.07-30.11.07        Birgir Sigurðsson
01.12.07-04.01.08        Steinunn Helga Sigurðardóttir
05.01.08-02.02.08        Guðrún Vaka  


Erum við föst í Netinu?

NETanet

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna! Það var afar fræðandi viðtal við Auði Styrkársdóttur forstöðukonu Kvennasögusafnsins í Laufskálanum á Rás 1 áðan. Ég mæli með að fólk hlusti á þáttinn á Netinu eða á endurflutning í kvöld.

Ung vinstri græn eru svo með opinn umræðufund á laugardaginn 10. mars klukkan 11 í Suðurgötu 3, sem ber yfirskriftina: Erum við föst í netinu - eða er hægt að temja það? Efni fundarins verður Netið í víðum skilningi. Framsögumenn verða: Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Tómasdóttir og Pétur Tyrfingsson. Það er reyndar einnig hægt að spyrja: á að temja Netið eða þarf að temja það? Þetta verður örugglega áhugaverður fundur í framhaldi af útúrsnúningnum mikla um "netlögguna".


mbl.is 83% íslenskra heimila tengd netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfarir í jafnréttismálum

magnús.stef Það er ekki á hverjum degi sem maður getur hrósað ráðherrum ríkisstjórnarinnar og þegar tilefni gefst er alveg sjálfsagt að gera það. Þetta lagafrumvarp nefndar um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem var kynnt í dag er stórt skref í rétta átt til jafnréttis og margt úr því er tekið beint upp úr frumvörpum Vinstri grænna á síðustu þingum. Afnemum launaleynd og eflum Jafnréttisstofu. Vonandi verður þetta frumvarp sem fyrst að lögum. Í frétt mbl.is segir meðal annars:

"Helstu nýmæli frumvarpsins eru þau að lagt er til að Jafnréttisstofa fái heimild til að krefja opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar og athugunar á einstökum málum. Verði upplýsingar ekki veittar er lagt til að heimilt sé að leggja á dagsektir. Ráðherra setur nánari ákvæði um sektargreiðslur í reglugerð. Þá er lagt er til að kærunefnd fái heimild til að kveða upp bindandi úrskurði."


mbl.is Lagafrumvarp nefndar um jafna stöðu og rétt kvenna og karla kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir og opnun á laugardaginn

saeti

Ég er afar hlynntur vinabæjum. Hef að vísu ekki komið til Grimsby en er viss um að þar er vingjarnlegt fólk. Mér finnst líka að Hallgrímur Helgason (Grim) ætti að verða heiðursborgari í Grimsby. Annars er ég að opna sýningu á Akureyri í galleriBOXi á laugardaginn og verkið er tilvalið til að vingast við fólk. Það er reyndar hellingur af opnunum á Akureyri þennan dag og ég set meira um það hér á síðuna næstu daga en hér er fréttatilkynningin fyrir BOXið:

Hlynur Hallsson opnar sýninguna LJÓS - LICHT - LIGHT í galleriBOXi, Kaupvangstræti 10, á Akureyri, laugardaginn 10. mars 2007 klukkan 16.

Verkið sem Hlynur setur upp í galleriBOXi samanstendur af borði og sætum sem gerð eru á afar einfaldan hátt úr froðuplastplötum og gæruskinni. Froðuplastið er tilbúið efni sem gjarnan er notað til einangrunar og gæruskinnið er hinsvegar náttúruleg afurð en einnig gjarnan notuð til einangrunar eða öllu heldur sem fóður í ýmsar flíkur. Froðuplastið er framleitt hjá Plastási á Akureyri en gærurnar koma frá Skinnaiðnaði sem var á Akureyri en nú er búið að leggja niður, eða öllu heldur flytja til austurhluta Evrópu. Hlynur hefur sett upp svipuð verk á nokkrum stöðum eins og í Hannover og Vín og nú stendur yfir sýning hans hjá Kuckei+Kuckei í Berlín en þar eru áþekk sæti ásamt fleiri verkum. Sú sýning stendur einmitt til 10. mars, sama dags og sýningin í BOXi opnar.
Sýningargestir geta fengið sér sæti og hvílt lúin bein, spjallað saman eða horft og hvert á annað. Fólk getur blaðað í sýningaskrám frá sýningum sem Hlynur hefur haldið eða tekið þátt í. Einnig er hægt að ferðast í huganum til fjarlægra landa ef mann langar heldur til þess, sitjandi á þessum frumstæðu en hlýlegu bekkjum. Á vegginn hefur Hlynur spreyjað skilaboð sem hægt er að útleggja á ýmsa vegu. Á sama tíma og sýningin í galleriBOXi opnar, opnar Hlynur einnig sýningu á veggverk.org á vegg á mótum Glerárgötu og Strandgötu á Akureyri. Sýningin í GalleriBOXi stendur til sunnudagsins 25. mars 2007.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur sett upp um 50 einkasýningar og tekið þátt í um 70 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997 og verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2005. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005.
Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, gönguferðir eða snjóhúsbygging geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de
Allir velkomnir, grænmetisréttir að venju.

 
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com 


mbl.is Grimsby vill gera vinabæjarsamkomulag við Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friður í Kaupmannahöfn?

hörður.sveinsson

Nokkur hverfi í Kaupmannahöfn hafa verið eins og vígvöllur síðustu daga. Hver ber ábyrgð á því? Var hægt að koma í veg fyrir þessi slagsmál og ofbeldi? Var það rétt ákvörðun að senda sérsveitarmenn inn í Æskulýðshúsið? Margar spurningar sem ennþá fleiri og mismunandi svör er hægt að finna við og ekki allir á sama máli. En nú er vonandi kominn á friður, allavega í bili. Og hvað hefur þetta allt kostað? Eyðileggingin er gífurleg, skemmdir á eignum fólks og fyrirtækja og borgarinnar. 660 handteknir og hundruð slösuð. Það má segja að það sé mildi að enginn hafi látið lífið eða slasast mjög alvarlega. Hörður Sveinsson ljósmyndari á Fréttablaðinu stundar ljósmyndanám í Danmörku tók þessa mynd af vígevellinum. Fullyrðingar um að þetta séu "útlendingar" eru auðvitað bull. Flestir sem tóku þátt í óeirðunum eru danir í marga ættliði. Ungt óánægt fólk. Það er hinsvegar lenska allsstaðar að kenna "utanbæjarmönnum" um, allavega "skipulagninguna". En það er bara grunnurinn að hræðslunni við "hina". Hræðslunni við "útlendingana". Hér eru fréttir af rúv og frbl. og vísi.is


mbl.is Ungdomshuset á Norðurbrú verður jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi í Kaupmannahöfn

ungdomshusetRIP

bt

Það er óhugnanlegt að horfa uppá það ofbeldi sem átti sér stað í Kaupmannahöfn í gær og heldur sennilega áfram í dag. BT er með myndasyrpu af ástandinu og eins og oft þá segja myndir meira en mörg orð. Það að stjórnmálamenn lofi framgöngu lögreglunnar kemur mér ekki á óvart og ekki ætla ég að verja aðgerðir ungmenna sem kasta steinum í átt að lögreglumönnum en mér blöskrar það ofbeldi sem á sér stað frá báðum hliðum. Það er eitthvað sem hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir með því að tala saman. Hér er mynd sem Uffe Weng tók og það eru fleiri myndir hjá BT, umfjöllun hjá Information og hjá Politeken.


mbl.is Fjölmiðlar hrósa dönsku lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar niðurstöður fyrir Vinstri græn

capacent070301 xV.bleikt

Frábærar fréttir af fylgi við flokkana í febrúar. Nú þurfa þessir hægrikratar í Samfó bara að sannfæra kjósendir íhaldsins og þá er kominn grundvöllur fyrir sterkri stjórn. Netlögguútúrsnúningurinn er sem betur fer ekki að virka. Lilja skrifar fínan pistil um málið á blogginu sínu í dag. Nú tökum við þetta í vor en það er langt til kosninga og heilmikil vinna framundan en með Vinstri grænar hugsjónir að leiðarljósi tekst þetta. Allir saman nú inn í vinstra grænt vor.


mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skel hæfir kjafti

McCainÞað er ótrúlegt að hinn aldni repúblíkani John McCain sækist eftir því að verða forseti BNA. Bush er rúinn trausti en sumir segja að það að kjósa McCain sé að fara úr öskunni í eldinn. Róbert Björnsson er með athyglisvert myndband um the Religious Right á bloggsíðunni sinni. Fólk í bandaríkjunum hlýtur að losa hvíta húsið við öfgasinnaða hægrimenn og kjósa vonandi Hillary Clinton á næsta ári.
mbl.is John McCain sækist eftir tilnefningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.