Leita í fréttum mbl.is

Flott hjá Sorpu

metanbíll

Þetta er framtíðin. Sorpbílar sem ganga fyrir metangasi sem myndast úr úrganginum sem þeir safna saman. Tær snilld hjá Sorpu. "Eldsneytið sem bílarnir ganga fyrir er unnið úr sorpinu sem safnað er í borginni og má því segja að bílarnir séu sjálfbærir um eldsneyti." Segir Guðmundur B. Friðriksson hjá Umhverfissviði borgarinnar. Á heimasíðu Sorpu segir einnig: "Þrír nýir fólksbílar af gerðinni Volkswagen Caddy hafa bæst í hóp metanbílaflota SORPU. Metanbílar í eigu SORPU eru nú sextán talsins en von er á fjórum til viðbótar á næstu vikum en þeir eru af gerðinni Volkswagen Touran."

caddy

Til hamingju með þessa bíla og það ættu fleiri að taka sér Sorpu til fyrirmyndar. T.d. bæjaryfirvöld hér á Akureyri en hér eru sorpmálin enn í rusli. Við viljum líka fá "Góða hirðinn" hér fyrir norðan. Það þarf að gera átak í flokkunarmálum og ég hélt að allir væru sammála um það en eitthvað skortir á framkvæmdagleðina í þessum málum hjá okkar ástsæla meirihluta. Hvernig væri líka að innleiða grænar tunnur hér á Akureyri. Við erum 5 árum á eftir höfuðborginni og 20 árum á eftir norðurlöndunum og meginlandi Evrópu.

EcoFuel_533_200

Hjá heimasíðu Heklu er annars sagt meira frá þessum bílum fyrir þá sem vilja.


mbl.is Sjálfbærir sorpbílar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruverndarsamtökin IWMC ?

iwmc

Hefur fólk skoðað heimasíðu þessara "náttúruverndarsinna"? Ég set stórt spurningamerki við þetta gengi. Skoðið hvað þau hafa um bann við byssueign að segja! Frábært að það var hægt að finna einhvern utan grænlendinga og japana sem styðja ákvörðun ríkisstjórnar Íslands!


mbl.is Náttúruverndarsamtökin IWMC styðja hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á skíði!

snjódæla

Líka Kristján Loftsson og bara ríkisstjórnin öll með. Upp í Hlíðarfjall og vera þar allavega fram að jólum svo að liðið geri ekki meir óskunda en orðið er. 250 umfjallanir í enskumælandi fjölmiðlum og 95% afar gagnrýnar á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja hvalveiðar. Æ, æ, gleymdist svo að fá leyfi fyrir hvalstöðinni. Ekki er nú öll vitleysan eins! Hvaða óðagot og rugl er þetta? Er sjávarútvegsráðherra að fara af límingunum. Róa sig niður á skíðum!


mbl.is Snjóframleiðsla komin í gang í Hlíðarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól í Straumi

straumsvík

Hérna er frábær frétt af visir.is:

Búið er að stofna þverpólitískan hóp í Hafnarfirði sem er andsnúinn stækkunaráformum Alcan í Straumsvík. Hópurinn kallar sig Sól í Straumi og hefur boðað til fundar í Hafnarfirði á mánudag til þess að ræða stækkun álversins.
Fram kemur í tilkynningu frá hópnum að allt sem skipti máli liggi nú þegar fyrir, meðal annars sé búið að selja Alcan lóð undir stækkaða starfsemi og kynna deiliskipulag þar að lútandi, búið sé að gefa grænt ljós á umhverfismat og starfsleyfi og þá sé Alcan að semja við birgja um aðföng fyrir stækkaða verksmiðju. Eru allir Hafnfirðingar hvattir til að skoða málið en fundurinn verður klukkan 20 í Haukahúsinu að Ásvöllum á mánudag.

Flott hjá ykkur hafnfirðingar. Til hamingju. 


Nú ég hélt að álið væri framtíðin!

alver

Hva, bara verið að leggja niður álbræðslur útum allt nema í Trinitad & Tobacco og á Íslandi. Ég hélt að meira ál væri lausn á öllum málum. Ætli Valgerður viti af þessu, eða Alcoa? Niðurskurður í þessum bransa er ekki eitthvað sem þau skötuhjú vilja heyra. 


mbl.is Norsk Hydro stefnir að sölu á verksmiðjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn og ég

hvalveiðar2

Það er ekki oft sem ég er sammála leiðarahöfundi Moggans. En í dag heyrist mér að við séum innilega sammála um að hvalveiðar í atvinnuskyni nú séu óráð. Heyrði lesið úr leiðaranum á morgunvaktinni í morgun. Viðbrögðin við þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar láta heldur ekki á sér standa! Við eigum ekki að taka sénsinn á því að missa ferðamenn og það sem eftir er af ímynd okkar sem hreins og óflekkaðs lands. Sú ímynd hefur að vísu hvað eftir annað beðið hnekki á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (Kárahnjúkavirkjun, Álbræslur, stuðningur við Íraksstríð o.s.frv.)

hvalveiðar3

Tímasetningin á þessari ákvörðun er einnig stórfurðuleg og þetta PR-dæmi með Hval 9. Er ekki hægt að stoppa þessa menn og koma fyrir þá smá snefil af skynsemi? Hinsvegar finnst mér að Mogginn ætti að taka sér Blaðið og Fréttablaðið til fyrirmyndar og hætta að skrifa leiðara og efni án þess að geta höfundar. Þeir staksteinatímar eru liðnir Moggi.


mbl.is "Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl

hvalveiðar

Hvað er í gangi í þessu landi? Herra Hvalur númer níu, Kristján Loftsson er sendur á sjóinn til að skjóta nokkrar langreyðar í hvelli. Hann bilaði að vísu en hvað með það. Og síðan er utanríkismálanefnd og sjávarútvegsnefnd kölluð á teppið og sagt að hvalveiðar séu að hefjast að nýju (eða bara hafnar að nýju)! Eftir höfðinu (DO) dansa limirnir og litlu ráðherrarnir eru farnir að hegða sér eins og þeim sýnist. "Af því að við erum svo stolt veiðimannaþjóð og enginn segir okkur sko fyrir verkum-stefnan" er sett í gang en afleiðingarnar hundsaðar!

guðjón

Guðjón nokkur Hjörleifsson sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins hélt því þrisvar fram á Rás 2 í dag að það væri voðalegt hvað allir þessi hvalir borði mikið af fiski og nú ætti því að fara að skjóta nokkra þeirra. Þá getum við væntanlega veitt meira sjálf, eða hvað? Kolbrún Halldórsdóttir benti honum á að þessu rök héldu ekki vatni því það skipti engu máli um 9 hvali til eða frá af 70.000 hvala stofni með tilliti til þess hvað þeir borða. Og það væri sama sagan með 200 hvali. Semsagt dropi í hafið því 69.800 hvalir borða jú álíka mikið og 70.000 er það ekki? En Guðjón endurtók þá bara frasann. Annaðhvort skilur hann ekki málið eða það sem verra er: vill ekki skilja neitt! Svo fullyrti Guðjón Hjörleifsson einnig að öll hagsmunasamtök væru hlynnt hvalveiðum! Bíðum nú við er hann ekki að gleyma einhverjum? Ég veit ekki betur en talsmenn ferðaþjónustunnar hafi mótmælt þessum hvalveiðum. Eða telst ferðaþjónustan kannski ekki með? Og svo kom besta klisjan í frumskógi raka Guðjóns. Það var að landsbyggðinni blæddi vegna þess að við værum næstum hætt að veiða hvali! Í hvaða landi býr Guðjón? Landsbyggðinn blæðir vegna annarra hluta. Nefninlega afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar og fáránlegs kvótakerfis. Vill Guðjón segja fólki á Húsavík þennan brandara sinn? Þar hefur verið byggð upp hvalaskoðun á heimsmælikvarða og það er auðvitað miklu meiri hagnaður af því að skoða hvali heldur en að drepa þá. Jóhannes Kjarval var forspár um þetta.

hvalaskoðun1

Aðferðin sem ríkisstjórnin beitir við hefja hvalveiðar er furðuleg og ruddaleg, auk þess sem hvalveiðar í atvinnuskyni til að fylla frystigeymslur er rugl. Á heimsíðu Greenpeace er nú þegar komin frétt á forsíðu um málið og farið að safna undirskriftum gegn þessari ákvörðun. Breska sendiráðið sendi bréf til ríkisstjórnarinnar til að vara við afleiðingunum og þær geta orðið verulegar, einnig fyrir fiskútflytjendur og þá hefði nú ef til vill verið betur heima setið en af stað farið með byssurnar.  

Nánar um þetta á ruv.is  og einnig hér á ruv.


mbl.is Heimilað að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttatónn í Tony

tony.blair

Það er gott að heyra að Tony Blair er á "sáttabuxunum" í dag. Sérstaklega eftir fréttirnar í gær þar sem Ruth Kelly, menntamálaráðherra breta var með furðulegar hugmyndir um allsherjar eftirlitsþjóðfélag. Bara vonandi að Tony gamla takist að lægja öldurnar og að einhverjir hætti við að búa til sprengjur og taki þátt í viðræðum um "stöðu múslíma í bresku samfélagi". Batnandi mönnum er best að lifa og við verðum að vona að fosætisráðherrann meini eitthvað með þessu!


mbl.is Tony Blair segir nauðsynlegt að staða múslíma verði rædd í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað liggur á?

sólveig.p

Frumvarp um Ríkisútvarpið OHF!!! var rætt fram undir miðnætti í gær og þá voru margir af þingmenn á mælendaskrá. Þetta er fyrsta umræða um málið og þingmenn stjórnarandstöðunnar (sem nenna að vinna ólíkt sumum þingmönnum meirihlutans) fóru oft upp til að gagnrýna fundarstjórn Sólveigar Pétursdóttur þingforseta. Sólveig hafði áður mörg fögur orð um að gera Alþingifjölskylduvænni vinnustað en svo er bara strax í upphafi þings skellt á eftir- og næturvinnu með engum fyrirvara. Ekki sérlega fjölskylduvænt það. Sólveig P er sennilega ekki með ung börn sem bíða eftir henni heima en það eru aðrir þingmenn. 

En hvað er það sem liggur svona rosalega á að troða í gegn enn einu misheppnuðu frumvarpi um Ríkisútvarpið. Þetta er þriðja útgáfan sem Þorgerður Katrín mætir með. Hin tvö voru svo slöpp að þeim var hent og nú er allt í einu bakkað með hlutafélagaformið sem var svo æðislegt um daginn og komið upp nýyrðið "Opinbert hlutafélag, ohf"! Það vandræðalegasta er að hlusta á Sigurð Kára og félaga endilega vilja að útvarpið verði áfram í 100% opinberri eigu, en það er langt frá "hugsjónum" hans og félaga í "Frelsisbandalagi" Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Þingmenn harðorðir í garð lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott hjá Þorgerði

þjóðskjalasafn

Þetta var almennilegur úrskurður og maður átti nú ekki alveg vona á því að ráðherra Sjálfstæðisflokksins tæki sig saman í andlitinu. En alltaf gott að láta koma sér skemmtilega á óvart! Þetta er sigur fyrir Kjartan Ólafsson og nú verður þjóðskjalavörður að leyfa Kjartani að skoða gögnin sem sanna að sími hans var hleraður, af hverjum, hvenær, hversvegna og samkvæmt beiðni hvers. Vonandi verður ekki vísað til þess að einhver nefnd sé að semja reglur og bla, bla, biiiiið. Maðurinn á heimtingu á því að fá að sjá það sem ekki er búið að kveikja í og það strax.


mbl.is Ákvörðun þjóðskjalavarðar um aðgang að gögnum um símahleranir felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákarnir í stríðsleik

stríðsleikur

Hvað er málið með þessa stríðsleiki sem einhverjir kalla "æfingu"? Hryðjuverkamenn í Hvalfirði! Kommon, ekki er Herra Hvalur ehf svona hættulegur. Er þetta ekki líka ofstuðlað hérna: "Sikorsky Super-Stallion" SSS-sveitirnar af Wasp og Björn Bjarnason í ESSinu sínu með Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslustjórann (Cost guard!) með hjálminn að sprengja "hryðjuverkamennina". Eða heitir hún kannski "Seadragon"? Bless Gorbi við erum að fara að leika okkur smá á stóru flottu þyrlunni og sprengja einhverja hryðjuverkamenn! (ásamt fulltrúum fjölmiðla). Hvernig líst Viljálmi borgarstjóra og hugmyndafræðingi Friðarsetursins á málið? Eru menn ekki að vaxa upp úr þessum strákaleikjum? Verður svo ekki að fjölga í Víkingasveitinni svo það sé hægt að fylla þyrluna (50 manns með alvæpni)? Björn reddar aukafjárveitingu!

Sjá nánar á ruv.is og visir.is 


mbl.is Vel heppnuð æfing sérsveita í Hvalfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borga íslenskir ráherrar afnotagjöldin?

ruv

Það ætlar ekki af Svíunum að ganga. Nýja hægristjórnin rétt rúmlega vikugömul og tver ráðherrar foknir! Þetta er almennilegt stuð. Hvernig er það, er ekki einhver ofurbloggari til í að tékka á því hvort íslenskir ráherrar borgi afnotagjöldin af Ríkisútvarpinu. T.d. Þorgerður Katrín! eða Björn Bjarna eða bara Geir og Guðni. Mér finnst að fréttamannastéttin ætti að kafa ofan í málið. Ég efast hinsvegar um það að einhver þessara ráðherra myndi svo mikið sem láta það hvarfla að sér að segja af sér fyrir svona smotterí. Það er allt annað siðferði í gangi hér uppfrá. Eða hvað?


mbl.is Annar ráðherra segir af sér í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki allt í lagi með Tjallana?

ruth.kelly

Furðulegt hvað ráðamenn eru gjarnir á að gera sömu mistökin aftur og aftur og aftur... En þetta er nú einum of. Að setja alla múslíma og asíska háskólanema undir sama hatt og biðja kennara og aðra nemendur að fylgjast sérstaklega með þeim því þar fari líklegir hryðjuverkamenn. Þessi afstaða er stórhættuleg fyrir allt þjóðfélagið. "Ruth Kelly, menntamálaráðherra Bretlands, segir að samfélagsátak þurfi til að uppræta starfsemi öfgahópa múslíma í Bretlandi." Samfélagsátak til að framleiða hryðjuverkamenn og búa til ömurlegt eftirlitsþjóðfélag meinar hún sennilega.

Í frétt mbl.is segir líka:

"Gemma Tumelty, formaður Landssamtaka háskólanema í Bretlandi, segir þetta jafnast á við kommúnistaveiðar öldungadeildarþingmannsins Joseph McCarthy í Bandaríkjunum á 6. áratug síðustu aldar." 

Gemma hittir þarna naglann á höfuðið og reyndar þarf ekki að leita lengra en til Austur-Þýsklands með STASI njósnunum, þar sem allir áttu að fylgjast með öllum. En Björn Bjarnason hefur sennilega skoðun á þessum málum enda sérfræðingur í eftirliti með borgurunum og ekkihlerunum! Og pikkfastur í kaldastríðshugsunarhætti.

guardian

Nánar um þetta á ruv.is og í Guardian


mbl.is Starfsmenn breskra háskóla hvattir til að fylgjast grannt með múslímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni alveg að fara meðþa!

guðni1jpg

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er alveg sér á parti. Einhvernveginn frá því á þarsíðustu öld. Nú þykist hann bara geta ákveðið hvað eigi að flokkast undir samkeppnisiðnað og hvað ekki. Það er alkunna að t.d. Sjálfstæðismenn tala mikið um frjálsa samkeppni en svo vinna þeir að því að hér ríki fákeppni svo þeir geti einir setið að kjötkötlunum. Þá er markaðurinn allt í einu orðinn "of lítill" og svo framvegis sbr. Flugfélag Íslands. Guðni er kominn í hópinn og vill alls enga samkeppni í framleiðslu á mjólk og osti þvi þar gilda vist allt önnur lögmal heldur en t.d. í brauðbakstri. Þetta er svo athyglivert í ljósi frétta af sameinuðum framleiðslurisa með emmess, Norðurjólk og KS saman í einni sæng (örugglega hagkvæm samlegðaráhrif, líka fyrir okkur neytendur!) Þessi félög eru undanþegin samkeppnislögum og heyra undir búvörulög!

msís
Í Ríkisútvarpinu kom eftirfarandi fram: "Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra ætlar ekki að breyta búvörulögum þrátt fyrir tilmæli Samkeppniseftirlits um það. Forstjóri eftirlitsins segir að mjólkuriðnaðurinn eigi ekki að vera undanþeginn samkeppnislögum. Þessu þurfi að breyta svo viðskiptaumhverfi sé eðlilegt. Ráðherra er ósammála og segir hagkvæmni best tryggða með óbreyttu fyrirkomulagi."
Guðni færði náttúrulega engin rök fyrir málinu enda hefur hann sennilega engin, bara eigin tilfinningu og visku.

gísli.tryggva
Þetta fær mann svo aftur til að velta fyrir sér því að talsmaður neytenda Gísli Tryggvason er að fara í prókjörsslag hjá Framsókn. Getur hann verið í sinni opinberu stöðu á sama tíma og þessum prófkjörsslag? Ef allt væri eðlilegt væri hann það ekki og tæki sér að minnsta kosti launalaust frí á meðan. Og ef hann fer svo í framboð verður hann auðvitað að segja stöðu sinni lausri. Annað gengur ekki. Nema þetta sé bananalýðveldi sem við búum í. Talsmaður neytenda er nýbúinn að lýsa yfir ánægju sinni með útspil ríkisstjórnarinnar um lækkun matarskatts. Hagfræðinga greinir mjög á um hvort þessi prósent muni öll skila sér til okkar neytenda svo þetta er nú dálítið einkennilegt, á sama tíma og talsmaðurinn er að plotta í prófkjöri hjá Framsókn í Kraganum. Hverra talsmaður er hann þá?

 


mbl.is Mjólka undrast viðbrögð landbúnaðarráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul F. Nikolov gefur kost á sér í forvali VG

africa_posterpage

Ég las í Mogganum í morgun að Paul F. Nikolov blaðamaður (m.a. áður á  Reykjavík Grapevine) er genginn til liðs við Vinstri græn og gefur kost á sér í forvali VG á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta er góðar fréttir enda hefur Paul beitt sér mjög í málefnum nýrra íslendinga og verið málsvari innflytjenda. Ég býð hann velkominn í hópinn. Paul hafði lýst því yfir að hann hyggðist stofna flokk sem hefði málefni nýrra íslendinga í öndvegi og það er ánægjulegt að hann hafi séð að réttur farvegur fyrir þau mál er innan VG. Við þurfum að leggja enn meiri áherslu á að bæta réttindi þessa fólks.

Það er líka flott ályktun sem Ung vinstri græn sendu frá sér vegna boðs um "skoðunarferð" í herskipið USS Wasp. Ég birti hana bara hér alla: 

Það kom stjórn Ungra vinstri-grænna verulega á óvart þegar Auður Lilja, formaður UVG, fékk símtal frá bandaríska sendiráðinu þar sem stjórninni var boðið að koma í skoðunarferð um herskipið USS Wasp sem lagðist við höfn hérlendis í vikunni. Stjórninni féllust þó ekki hendur heldur var boðið nýtt til að ítreka afstöðu okkar til hernaðarbrölts og undirlægjuháttar íslenskra stjórnvalda með ályktun frá stjórn sem fer hér á eftir:

Ályktun frá stjórn UVG vegna komu Bandaríska herskipsins USS Wasp


Stjórn Ungra vinstri – grænna mótmælir harðlega komu bandaríska flugmóðurskipsins USS Wasp hingað til lands. Skip þetta er sérstaklega til þess gert að flytja hersveitir og vígatól til átaka um heiminn þar sem að Bandaríkjamenn telja að ítökum sínum sé ógnað.

Ung vinstri – græn hafa ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við hernaðarbrölt og beitingu hervalds í heiminum og hefur sú afstaða í engu breyst. Allt tal um að heimsókn sem þessi sé nauðsynlegur liður í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna um öryggismál, er innantómt hjal æsingamanna.

Ung vinstri – græn ítreka þá afstöðu sína að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna sé þarflaust og marklaust plagg. Íslendingar eiga að móta sér sjálfstæða utanríkisstefnu sem að einkennist af friðarhugsjón og hlutleysisstefnu. Ung vinstri – græn leggja áherslu á að Ísland standi utan hernaðarbandalaga og krefjast þess að Ísland gangi úr NATÓ tafarlaust.

Stjórn Ungra vinstri – grænna fékk á dögunum boð frá bandaríska sendiráðinu um að fara í skoðunarferð um USS Wasp næstkomandi laugardag. Stjórnin hafnar hér með því boði og frábiður sér það að morðtól sem þetta skip séu gerð að skemmtigörðum. Stjórnin leyfir sér að véfengja mjög tilgang slíkra boða og telur þau algerlega siðlaus.

Stjórn Ungra vinstri-grænna


mbl.is Hart barist um sætin á framboðslistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson

Myndlistarmaður, umhverfisverndarsinni og sennilega margt fleira. Nánari upplýsingar hér.

Síður

Tónlistarspilari

Air - Ce Matin La
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.